14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vildi aðeins segja það, að ríkisstj. hefur nú verið að gera áætlun um það, hvort ekki mundi verða hægt að ljúka þessu þingi hinn 17. þ. m. Þá eru til ráðstöfunar dagurinn í dag og mánudagurinn. Það væri mjög ánægjulegt að geta lokið þinginu á þessum tíma, en þess er ekki að vænta, nema hægt verði að koma þessu máli til n. í Ed. í dag. Nú er fundur í S. þ. kl. 3. Þess vegna vildi ég alvarlega skora á menn að sameinast um það að greiða fyrir því, að þetta geti orðið. Ætti þetta ekki að hindra, að menn komi á framfæri skoðunum sínum eða brtt. í þessu máli, sem orðið er þaulrætt. Mér sýnist raunar augljóst, að málinu verði ekki lokið, eins og til stóð, fyrir hádegi, sem þegar er komið, svo að í matmálstíma gefst tóm til að gera brtt.