14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Pétur Ottesen:

Það hefur nú farið svo, að ekki hefur þótt fært að veita frest á afgreiðslu þessa máls, svo hægt væri að koma fram við það brtt., sem ég hefði óskað að gera. Yfirleitt en þó sá háttur hafður á um afgreiðslu mála, að þm. sé gefinn kostur á að athuga þau, og þá einnig til að koma fram með brtt. Þessi regla gildir vitanlega um mál almennt. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur þó ekki getað fengið þá athugun einstakra þm., sem æskileg hefði verið. Og reið þó meira á því en um ýmis mál önnur, svo mjög sem hér er úr vöndu að ráða.

Gert er ráð fyrir, að frv. þetta gæti verið liður í nauðsynlegum ráðstöfunum. Það felur í sér margar og stórar heimildir fyrir ríkisstj., fyrst og fremst um ráðstafanir á tekjum þessa árs, og auk þess um allvíðtæka tekjuöflun til að mæta þeim ráðstöfunum, sem hugsað er að framkvæma samkv. þessu frv. Í þessu frv. er svo margt óskýrt og óráðið, að það þarf mörgum öðrum frv. fremur að þessu leyti athugunar við, hvernig á þessum málum skuli tekið.

Þó ég fullkomlega viðurkenni, að engan veginn sé hægt, og ef til vill ekki hyggilegt, að setja tæmandi útlistun á því, hvernig eigi að ráðstafa þessu fé, þá er sjálfsagt, að hæfilegur rammi sé hafður utan um þetta til leiðbeiningar fyrir stjórnina, þannig að öll þau sjónarmið, sem koma til greina við framkvæmd þessara ráðstafana, fái notið sín.

Ég bar hér fram tilmæli í gærkvöldi til hæstv. ríkisstj., er ég beindi til hæstv. forsrh., um það, að enn yrði freistað að ná samkomulagi innan ríkisstj. um þetta mál, eins og verið hefur um önnur stórmál, sem afgr. hafa verið frá þessu þingi. Ég bar þessi tilmæli fram á fullkomlega hógværan og þinglegan hátt og í mjög góðum tilgangi, og m. a. fólst í þessu bending til ríkisstj. um það, að nauðsynlegt væri, að hún héldi starfi sínu áfram á sömu braut og verið hefði. En ég verð að segja það, að þau svör, sem ég fékk frá hæstv. viðskmrh., voru engan veginn í samræmi við það, sem vænta hefði mátt, afjafnmiklum velvilja og þessar till. voru bornar fram. Svarið, sem ég fékk, var ekkert annað en það, að ríkisstj. væri búin að gera ákvarðanir um að láta málið koma fram, og engin tilmæli, er gengju í aðra átt, yrðu tekin til greina.

Mér líkar mjög illa slík framkoma sem þessi. Ég verð að láta í ljós mikil vanbrigði frá minni hálfu að því er snertir samstarfið við stjórnina, því ég veit ekki betur en ég hafi sýnt henni fullan velvilja í öllu, síðan þetta samstarf hófst, og mín afstaða til málanna hefur einmitt miðazt við það að gera þetta samstarf sem bezt og raunhæfast fyrir þjóðina. Þess vegna hefði hæstv. viðskmrh. gjarnan getað tekið betur í þetta mál og upplýst, hvort ríkisstj. kæmi fram samstæð og einhuga í þessu máli, eða hvort hún legði málið þannig fyrir þingið, að ráðh. greiddu atkv. hver á móti öðrum. Ég lít svo á, að ef slíkir þverbrestir eru komnir í stjórnarsamvinnuna, þá sé stefnt í mjög óvænt efni. Ég álít það mjög ógæfulegt, ef ríkisstj. fer þannig að, og sem stuðningsmaður hennar og þessa samstarfs tel ég mig hafa fullan rétt til að benda henni á þetta.

Þótt ég hafi snúið máli mínu til hæstv. viðskmrh., af því hann stóð nú fyrir þessum svörum, þá er ég ekki að bera neinar brigður á það, að ríkisstj. standi öll að því, að svona var á þessu máli tekið.

Enn fremur verð ég að segja það, þegar þingið er búið að sitja svona lengi, að þá beri það mjög leiðinlega að, að slíku stórmáli sem þessu skuli þurfa að flaustra svo af, að tekið sé fram fyrir hendur einstakra þm. með að koma á framfæri brtt., sem gætu haft mikla þýðingu fyrir afgreiðslu og framkvæmd þessa máls.

Ég vildi láta þetta koma hér mjög skýrt fram og tel, að með þessari framkomu ríkisstj. gagnvart mér eða hverjum öðrum stuðningsmanni hennar, sé allt öðruvísi að farið en átt hefði að vera, miðað við þá þjónustu, er við höfum látið í té við þetta samstarf, sem ég er síður en svo að telja eftir. En það mátti gjarnan líta á þetta, og þó að ríkisstj., einhverra orsaka vegna, sæi sér ekki fært að verða við þessum tilmælum, þá mátti gera þetta á annan hátt og með öðrum orðum en gert var. Ríkisstj. ætti fyrst og fremst að vera það ljóst, hver nauðsyn það er, ekki einasta hvað snertir samstarf í Alþ. og ríkisstj., heldur líka manna á meðal, að hún standi saman um jafnviðkvæmt mál og þetta.

Okkur ber að minnast þess, þegar þetta samstarf var hafið, og grundvallarins, sem það var byggt á, gengisbreyt. Ef til þessa samstarfs hefði ekki verið stofnað, þá hefði gengisbreyt. fengið allt aðrar viðtökur meðal þjóðarinnar en hún fékk. Það sama má heimfæra upp á þetta og önnur stórmál, sem Alþ. hefur afgreitt.

Það má í þessu sambandi gjarnan sjá út yfir veggi Alþ. og stjórnarráðsins. Það verður að líta út yfir allt landið, alla þegna þjóðfélagsins, því það hefur mikil áhrif um aðstöðu almennings til málanna, hvort samstarf hefur orðið um þau í ríkisstjórn og á Alþingi eða ekki. Það hefur ákaflega djúptæka þýðingu. Ég álít, að í þessu hafi ríkisstj. háskalega sézt yfir. Það væri óskandi, að þjóðstjórnarfyrirkomulagið sé ekki að bregðast og, við séum að horfast í augu við fyrirbrigði, sem spáir ekki góðu um framtíð þessa samstarfs. Allt, sem miðar að því að veikja það, er mér hryggðarefni. Það er þess vegna ekkert ofhljóð í mér, þegar ég er að tala um þessa meinbugi, eins og einn hv. þm. minntist á fyrr á þessum fundi, að ef til vill væru að koma fram í þessu samstarfi. (GSv: Það geta nú verið sérhagsmunir.) Við tölum nú um það síðar.

Ég skal, að þessu loknu, minnast á nokkur atriði þessa frv., því að við 2. umr. málsins fór ég ekkert inn á einstök atriði, af því ég gerði ráð fyrir því, að ríkisstj. mundi taka á annan veg till. minni en hún gerði, og þá var vitanlega ekki tímabært að ræða um einstök atriði, áður en séð varð, hver árangur yrði af þeirri samkomulagsviðleitni, sem ég reyndi að stuðla að. Nú mun ég fara inn á þetta nokkuð.

Það hefur margt verið rætt í sambandi við þetta mál. Mér þykir ástæða til að ræða hér um sérstakt viðhorf í þessu máli, sem mér virðist, að hafi verið rætt um af lítilli athugun á því, hvað í þessu frv. felst að því er þetta snertir. Hér á ég við þann stuðning, sem gert er ráð fyrir, að falli í skaut framleiðendum í sveitum þessa lands í sambandi við þetta frv., og það gefur mér síðar tilefni til að ræða um það, sem sagt hefur verið af andstæðingum þess gagnvart framleiðendum sveitanna. Maður er nú vanur að heyra þann söng. En þær ályktanir, sem hv. þm. Mýr. dró af þessu, voru ákaflega hæpnar, og vil ég koma inn á það, ekki til að draga úr því, að ríkisstj. ætti að nota heimildina til hagsbóta fyrir framleiðendur í sveitum, heldur til að benda á það, sem liggur skýrt fyrir í frv. að því er lausn þessa vandamáls snertir.

Mér skilst, eins og þetta frv. var flutt af hæstv. viðskmrh., enda dró hann enga dul á það, að þeir menn, sem framleiða t. d. mjólk, eigi ekki von á neinum stuðningi í þessu frv. Þar er vitnað til þess, að sverð þeirra og skjöldur séu þær nefndir, sem eiga að ákveða verðlag á kjöt og mjólkurafurðum. Í þessu efni er því engu breytt frá því, sem nú er, né frá því, sem hefur

verið um nokkur ár. Framleiðendurnir eiga um verðlagið allt sitt undir þessum aðilum. Þetta kemur m. a. skýrt fram í þeirri grg., sem fylgdi þessu frv. af hendi hæstv. viðskmrh. Þar segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta : „Fyrir hendi þarf að vera fé til þess að bæta upp verð á útflutningsafurðum, ef þær verða sérstaklega hart úti hvað verðlag snertir. Er átt við það sérstaklega, þar sem í 1. gr. frv. er talað um stuðning við atvinnuvegina.“ Það er, sem sagt, alveg skýrt afmarkað, að þetta tekur eingöngu til útflutningsafurða, en snertir ekki sölu mjólkur og mjólkurafurða, af því að um sama sem engan útflutning er þar að ræða. Sú brtt., sem fjhn. hefur nú gert við þetta, sá viðauki, sem kemur hér inn í 1. gr., gengur nákvæmlega í sömu átt og stefna hæstv. viðskmrh. að því er þetta snertir. Þar segir svo:

„Ríkisstjórnin skal verja því fé, sem aflað er samkv. lögum þessum, til þess að koma í veg fyrir, svo sem unnt er, að verðlag á innlendum og erlendum nauðsynjavörum hækki til neytenda frá því, sem nú er, og til að styðja þá framleiðendur, sem af styrjaldarástæðum eru neyddir til að selja vöru sína óeðlilega lágu verði, allt að undangenginni athugun á þeim ástæðum, sem fyrir hendi eru.“

M. ö. o. þetta er nákvæmlega sama brautin, sem þrædd er þarna; þetta snertir eingöngu útflytjendurna, því að það er af styrjaldarástæðum, að við erum einskorðaðir hér um sölu slíkra vara til eins eða tveggja landa, og þessi lönd hafa í hendi sér að ákveða, hvaða verð þau borga fyrir vörurnar. Þess vegna er það alveg skýrt mál, að sá stuðningur, sem í frv. þessu felst, tekur eingöngu til útflutningsvara landbúnaðarins, en ekki hinna, sem seldar eru á innlendum markaði. Frv. gengur með öllu fram hjá því að sýna viðleitni til þess, að nokkru af þessu fé verði varið til að rétta hlut. þeirra manna, sem mjög bera nú skarðan hlut frá borði í sambandi við mjólkurframleiðsluna. Þetta er bezt að gera upp fyrir sjálfum sér, en vera ekki að gera sér neinar falsvonir, sem mér virðist hv. þm. Mýr. (BÁ) gera, út af því, sem ekki er til í frv. Þær brtt., sem ég hefði flutt hér, ef mér hefði gefizt tóm til, mundu hafa lotið einmitt að þessu atriði, að tryggja betur hag þeirra framleiðenda, sem selja vörur sínar á innlendum markaði. En um þetta er svo ekki að ræða. Og nú verður málið sýnilega afgr. á þessum grundvelli. Hitt er svo annað mál, hvort hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir þetta orðalag, þegar hún fer að úthluta þessu fé og sér fram á það, sem ég veit, að sumir ráðh. hafa tilfinningu fyrir, að stuðningur sá, sem hér liggja fyrir till. um, ætti einnig að falla í skaut þessara manna, sem mjólkurvörur selja, — sér sér fært að framkvæma málið þannig, að láta eitthvað af mörkum falla til þessara manna, skal ég ósagt láta. En ég horfi ekki nærri eins björtum augum á framkvæmd þessa máls, eftir að það hefur sýnt sig, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki getað komið sér saman um þetta mál, heldur hafa sum atriði þess þurft að verða að ágreiningi. Öll framkvæmd þessa máls hlýtur að líða við það. Hæstv. atvmrh., lýsti því yfir við 1. umr. málsins, að hans sjónarmið væri, að þessir framleiðendur ættu að koma til greina og njóta góðs af þessu frv. Og vænti ég, að hann haldi við sína skoðun um þetta, þegar farið verður að framkvæma þetta atriði, en stoð hefur það enga í frv. eins og það er úr garði gert.

Ég verð að segja það til viðbótar við þetta, að það virtist vera mjög ofarlega í hugum manna hér fyrir nokkru síðan, þegar við horfðumst í augu við þá siglingateppu, sem á skall og ríkti um nokkurt skeið, að haldið væri í fullu horfi landbúnaðarframleiðslunni, Og þá virtist vera ofarlega í hugum manna, að öll öfl, sem til þess þyrfti, yrði að setja í hreyfingu til að örva landbúnaðarframleiðsluna. Ég sé ekki annað en að þessu hafi fylgt lítil alvara, eftir afgreiðslu þessa máls að dæma, og að dottinn sé botninn úr þessum góðu till. manna og menn hafi hvikað mjög frá því, að þessi nauðsyn væri fyrir hendi. Það kann að hafa valdið því, að nú hefur tekizt síðan að flytja hingað eitthvað tvo vörufarma til landsins frá Ameríku, og kann að vera, að menn álíti, að þar með sé leystur allur vandinn, svo að ekki sé ástæða til að tryggja þjóðinni matföng með því að auka framleiðsluna í landinu. En mér virðist þetta óforsvaranleg bjartsýni og léttúð af Alþingi, að sjá ekki, hvað við okkur blasir í þessu efni, og hafa ekki litið öðrum augum á þetta heldur en slíkum bjartsýnisaugum. Við vitum, að Ísland er að verða miðdepill í því svæði, sem líklegt er talið, að hörðustu átökin í þessu stríði verði háð og ef til vill úrslitaátökin. Við getum því gert okkur grein fyrir því, hvers við megum vænta, eftir að slík heljarátök færu að gerast kringum þetta land og jafnvel uppi í landsteinum hjá okkar, ef ekki í landinu sjálfu. Svo að þótt okkur hafi tekizt nú nýverið að flytja til okkar tvo kornvörufarma, þá virðist mér síður en svo ástæða til fyrir Alþ. að hverfa frá þeirri öryggisráðstöfun, sem í því felst að veita bændum hvöt til þess að framleiða sem allra mest af matvörum. Og það er áreiðanlegt, þegar miðað er við þann mikla skatt, sem hér er gert ráð fyrir að leggja á, — og sem ég tel ekki eftir, því að ég hef greitt atkv. með till., sem gengur lengst í að mæta þeim þörfum, sem hér eru fyrir hendi — Þá er það óforsvaranleg léttúð að hvika frá því á Alþ. að veita örvun og stuðning til þess, að sem mest verði framleitt hér af landbúnaðarafurðum, því að það er ekki fyrst og fremst fyrir bændur gert, heldur fyrir þjóðfélagið allt. Og þó að Landsbankinn hafi prentað margfalt upplag af pappírsseðlum, sem eru ekkert annað en ávísanir á framleiðsluvörur landsmanna, Þá verður slík pappírsútgáfa harla léttvæg, ef framleiðslan dregst saman og skortur verður á matvörum. Þess vegna verð ég að átelja mjög, að frá þessu skuli hafa verið hvikað og svo léttúðlega og sinnulaust gengið frá þessu frv.

Hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk, flytja hér tillögu um það, að Búnaðarfélag Íslands finni grundvöll undir því, hvaða verð bændur þyrftu að fá fyrir afurðir sínar til þess að framleiðslan hjá þeim geti borið sig. Með þessu á að finna sams konar grundvöll og þann, sem vísitalan er reiknuð út eftir og launagreiðslur og kaupgjald miðast við. Till. þessara tveggja hv. þm. mætti hér harðvítugri mótstöðu, bæði í ræðum manna og við atkvgr. um hana, eins og slík till. ætti engan rétt á sér. Af þm. þessarar d. voru aðeins 7 með þessari brtt. Og að því að fella þessa tillögu stóðu ekki aðeins þeir menn, sem jafnan blása og spýta mórauðu, þegar talað er um að gæta hagsmuna bænda, heldur voru það einnig sumir þeirra manna, sem telja sig vera forsvarsmenn bænda; voru þeir í orði og verki mjög hatramlega mótsnúnir þessari brtt., og t. d. hv. 1. þm. Rang. taldi það jafnvel hneyksli, að slík till. skyldi vera borin fram á Alþ. En ef talið er rétt að skipa n. manna til að finna grundvöll undir verðvísitölu til að greiða eftir laun embættismanna og annarra, sem kaup er greitt í peningum, hvað er þá óeðlilegt við það, þó að Búnaðarfélagi Íslands, sem viðurkennt er bæði af Alþ. og ríkisstj. sem stofnun fyrir landbúnaðinn, sé falið að inna af hendi slíkt hlutverk að því er snertir bændur? Ég sé það ekki. Það var talað um, að þetta væru einhliða bændafulltrúar, sem ættu að kveða upp dóm í þessum málum, ef Búnaðarfél. væri falið þetta. En hverra fulltrúar voru valdir í n. þá, sem átti að ákveða verðvísitöluna? Voru það ekki þeir menn, sem áttu sjálfir að njóta góðs af verðlagsuppbótinni, sem ákveðin er eftir þessari verðvísitölu? Ég fullyrði, að svo muni vera, a. m. k. þangað til mér er sannað hið gagnstæða. Ég sé því ekki annað en að þetta hvort fyrir sig sé alveg hliðstætt. Nú vitum við, hvernig tekið hefur verið á þessu hér á Alþ. Það hefur verið viðurkennt með atkvgr. hér á Alþ., að réttur grundvöllur hafi verið fundinn með verðvísitölunni til að byggja á ákvæði um uppbætur á laun og kaupgjald. En þegar um það er að ræða að sýna fram á, hvern grundvöll beri að leggja undir nauðsynlega kauphækkun fyrir bændur, er öðruvísi tekið á málinu. Það er rétt, að þessi sjónarmið komi hér skýrt fram á Alþ., því að það dregur upp ákaflega skýra mynd af því, hver skilningur Alþ. er á þörfum og högum sveitabænda og svo aftur á högum embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins og þeirra annarra, sem kapp taka í peningum.

Það er nú ekki nóg með þetta, heldur hafa verið uppi óskir; þó að þær hafi ekki verið bornar fram enn þá, sem brtt. við frv., — því að það er venjan sú, að hver silkihúfan er upp af annarri, þegar svona stendur á, — og þessar óskir ganga út á það að gera þær ráðstafanir viðkomandi þeim n., sem fyrir eru nú til þess að ákveða verðlag fyrir bændur, sem draga þessar n. þannig undir vald ríkisstj., að enn lengra sé frá því, að þessar n. séu líklegar til þess að vinna starf sitt þannig, að séð sé fyrir þörfum og rétti bænda. Þessi sex manna n., eða dýrtíðarn., — sem hefur mörg nöfn, þó að lítill árangur hafi orðið af starfi hennar, — hún hefur verið að tala um að setja nokkurs konar yfirverðlagsn., sem átti að vera hæstv. ríkisstj., eingöngu í þeim tilgangi að setja öflugan slagbrand til að loka möguleikanum til þess, að gengið yrði lengra en orðið er til að mæta þörfum bænda og sanngjörnum kröfum þeirra. Svona var þá hugurinn til bænda landsins um þá hásælu upprisuhátíð hvítasunnuna, þegar þessi n. ræddi vandamál þjóðarinnar.

Ég verð að segja það, að verðlagsn. og starfsmenn þeirra, og þá ekki sízt mjólkurverðlagsn., hafa staðið illa og slælega í ístaðinu fyrir bændur. (GSv: Það mætti þá koma önnur n. og vitrari til þess.) Já, til þess að gera þetta kannske enn verra! Það var vissulega tilgangurinn. Ég segi nei og aftur nei. En það má segja, að nauðsynjar okkar bændanna hafi verið hafðar að litlu í þessu sem ýmsu öðru.

Ég get svo bætt við í sambandi við þetta, og það er rétt, að það komi skýrt fram, að það mun verða gerð mjög öflug gangskör að því að skora á hæstv. ríkisstj. að breyta til, a. m. k. að einhverju leyti, í þessum verðlagsn., og einmitt og eingöngu út frá því sjónarmiði, að við verðlagsákvörðun verði betur séð fyrir hag bænda en verið hefur til þessa. Þetta mun hæstv. ríkisstj. fá að horfa framan í, hvort sem hún svo vill gefa sér tíma til þess eða ekki að sinna því. Og í sambandi við verðlagsn. vil ég benda á eitt, sem ekki hefur litla þýðingu fyrir bændur. Að því er snertir verðlag á kjöti, er það svo, að verð á því er ákveðið að haustinu, og við það verðlag eiga svo bændur. að búa til næsta hausts. Og þrátt fyrir það, þó að mikil breyt. verði á um allt verðlag í landinu frá hausti til hausts, þá eiga bændur ekki kost á að fá verðlagsuppbót á það kjöt, sem selt er, og er það mikill hluti kjötsins, sem selt er strax að haustinu. Hvað ætli embættismenn segðu um þetta, sem fá útreiknað á hverjum mánuði, hvaða breyt. eigi að vera á kaupi þeirra til þess að það geti alltaf fylgt sem nákvæmast verðvísitölunni, sem allar hafa orðið til þessa hækkanir á kaupinu? Það er allt önnur og verri tilhögun, sem bændur eiga að búa við í þessu efni en aðrir borgarar í þjóðfélaginu, þó að ekki sé nú annað til tekið. Að vísu hefur komið fram hækkun á þessu kjöti, sem geymt er frá síðastl. hausti, en sú hækkun hefur ekki verið meiri en það, að hún hrekkur rétt fyrir geymslukostnaði — ekki einn eyrir til bænda. En kjötið, sem er mjög verulegur hluti af framleiðslu bænda, er selt með því verði, sem ákveðið er að haustinu, sem byggt er á því verðlagi, sem þá er samkv. vísitölu. Þarna kemur fram sem víðar, hvernig mönnum er mismunað og bændur landsins afskiptir, en kjör þeirra manna tryggð, sem laun og kaup er greitt.

Með þessum orðum mínum hef ég viljað reyna að vekja upp aftur til lífsins þá hugsun, sem vakti að því er virtist fyrir nokkru í hugum allmargra, að örva þyrfti bændur í því að efla framleiðslu sína. Það má segja, að það sé orðið seint að gera þetta nú. Nú er vitanlega búið að framkvæma í sveitum ýmis garðyrkjustörf, og þar á meðal sáningu matjurta og í miklu minni stíl en gert hefði verið, ef þessir menn hefðu átt von í því framleiðsluverði, sem tryggði afkomu þeirra. Slátturinn er nú að byrja. Og það má telja mjög líklegt, að heyskapur verði minni en áður fyrir öryggisleysið í afurðaverðinu. Af þessu leiðir samdrátt í framleiðslunni. Hún minnkar í stað þess að nauðsyn bar til, að hún hefði aukizt, og það er líklegt, að reynt hefði verið að auka hana, ef fram hefði komið á Alþingi meiri skilningur á grundvallarskilyrðum þess, að svo mætti verða, en raun ber vitni um og ég hef nú lýst.

Sú ráðstöfun að fá Breta til að fækka mönnum hjá sér í vinnu bar engan árangur fyrir bændur, og sú ráðstöfun er tilgangslaus með tilliti til þeirra, nema þeir fái það verð fyrir afurðir sínar, að þeir séu samkeppnisfærir um kaupgreiðslur við aðra, sem halda uppi vinnu í landinu. En það skortir mikið á að svo sé.

Þó að till. þeirra hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk., sem ég gat um, fengi slíkar viðtökur í þinginu, sem raun varð á, er það nú svo um útreikning verðvísitölunnar, sem embættismönnum er borgað kaup eftir, að það er gengið svo langt, að við þann útreikning eru ekki aðeins teknar nauðsynjar manna, heldur líka í raun og veru búnar til tölur um slíkar „nauðsynjar“ sem þær, þegar menn „þurfa“ að fara á bíó til hv. 8. landsk. (GÞ) og annarra slíkra manna, sem þann atvinnurekstur hafa.

Það er náttúrlega margt fleira, sem ástæða væri til að minnast á í sambandi við þetta mál. En ég vil — þó að ég álíti, að það komi ómaklega niður á mér, þegar verið er að brýna á því, að nú þurfi Alþ. að fara að ljúka störfum, — líta á þá nauðsyn, og skal ég ekki eyða frekari tíma í þessari umr. heldur en ég hef gert, nema sérstakt tilefni gefist.

En minn höfuðtilgangur með því að reyna að koma að brtt. við þetta frv. var sá að endurvekja þetta sjónarmið, að örva landbúnaðarframleiðsluna til tryggingar því, að ekki yrði fæðuskortur í þessu landi. Þetta hefur nú ekki borið árangur að því er afgreiðslu þessa máls snertir og er það illa farið. Það er óviturlegt að daufheyrast við slíkri nauðsyn.

Ég sé, að hér eru nokkrir hv. þm. úr Ed., og væri það mjög æskilegt að þeir vildu gera tilraun til þess að breytingartillögur, sem fælu í sér þetta sjónarmið, kæmust inn í frv.