14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Sigurður Kristjánsson:

Ég hef að sönnu áður tekið til máls um þetta frv., en ég vildi þó bæta því við út af því, sem fram hefur komið hér um það ábyrgðarleysi, sem lýsti sér í því, ef þm. greiddu atkv. á móti frv., að ég tel það engu síður ábyrgðarleysi að greiða atkv. með því.

Það liggja hér fyrir fjöldamörg mótmæli gegn frv. Á 2 mínútum get ég ekki lesið þau upp. Það liggja hér fyrir framan mig mótmæli frá fjölda útgerðarfélaga, frá Farmannasambandinu, frá. Alþýðusambandinu og frá launastéttunum. Þessir aðilar allir hafa á þeim örstutta tíma, sem til stefnu var, sent sín mótmæli. Við vitum hins vegar, að frv. kemur hart niður á öllum sjómönnum, en þeir eru á víð og dreif og hafa ekki haft tækifæri til að mótmæla. Og mér finnst ekkert undarlegt, þó að það komi fram mótmæli gegn öðru eins og þessu frv. Ég skal að sönnu viðurkenna, að það er alvarlegur hlutur, ef ríkisstj. ætlaði að fara í mola út af þessu máli, ef hún ekki fær vilja sínum framgengt. Ég viðurkenni, að slíkt væri alvarlegur hlutur á þessum tímum, en mér dettur bara ekki í hug að taka slíkt trúanlegt. Ég held þess vegna, að ég sýni ekkert ábyrgðarleysi með því, þó að ég greiði atkv. móti frv.