16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér skildist, að það væri þegjandi samkomulag, að hv. þm.

væru ekki mjög langorðir við þessa umr., og skal ég ekki brjóta þá reglu.

Það eru aðeins örfáar aths. Um brtt. skal ég aðeins taka það fram, að ef einhverjar yrðu samþ. hér í d., þá er það sama og málið nái ekki fram að ganga, því hv. Nd. ræddi málið svo ýtarlega og atkvgr. var þar svo skýr, að þess er ekki að vænta, að sú d. breyti sinni afstöðu neitt. Málið mundi því daga uppi, ef þessi hv. d. gerir á því breytingar nú.

Mikið hefur verið rætt og ritað um það, að nauðsyn beri til að breyta þeirri rás, sem viðburðirnir hafa tekið nú um skeið, sérstaklega að koma í veg fyrir, að verðlag og kaupgjald fari hækkandi, því að það hefur sífelld áhrif hvað á annað, og er illt að sjá fyrir endann á þeirri þróun, ef ekki er tekið í taumana. Um þetta atriði hafa allir verið sammála, jafnvel þeir, sem nú virðast vera tregastir til fylgis við þetta frv.

Á þessu máli er vitanlega um tvær hliðar að gera, og það er viðurkennt af flestum, ef ekki öllum, að um tvær aðalleiðir var að velja. Önnur var sú að hækka gengi krónunnar. Hin er sú. sem í þessu frv. er gert ráð fyrir.

Flestir eru sammála um það, að með verðlagseftirlitinu einu saman væri ekki hægt að komast langt. Því yrði annaðhvort að hækka gengið eða finna verulega fjáröflunarleið.

Gengishækkunin er af mörgum veigamiklum ástæðum útilokuð, og mun svo verða lengi um sinn. Fyrst og fremst vegna hinna. stóru innieigna í Bretlandi, sem mundu hafa í för með sér stórtöp fyrir banka og einstaklinga.— Hinu ber ekki að neita, að þessa leið mætti fara, ef hún væri opin.

Þá er svo loks hin leiðin, að afla tekna til þess að lækka verðlagið í landinu. Þessa leið hafa stjórnarflokkarnir viljað fara. Ef nokkru á að vera hægt að áorka í þessu efni, þá þarf stórfé, þar sem þetta á að nokkru að koma í staðinn fyrir gengisbreytingu. Það þarf því engan að furða á því, þótt mikils fjár þurfi við.

Það væru heldur engar smáræðisbreytingar, sem kæmust á við gengisbreytingu. Það mundi skipta milljónum króna, sem hún kostaði einstaklinga og opinberar stofnanir.

Frv. mitt var borið fram að mestu í samræmi við þær samningaumleitanir, sem fram fóru í flokkunum, og er þar hvergi gengið lengra en beinlínis þótti nauðsynlegt.

En ef þessi hv. d. gengur lengra en hv. Nd., í því að draga úr tekjum samkv. frv., þá verður ekki mikið eftir til þeirra ráðstafana, sem svo ríkt er í hv. þm., að þurfi að koma fram. Það er ekki last þótt ég segi um suma hv. þm., að þeir vilji gera allt fyrir alla, en aldrei taka neitt af neinum. Þegar þeir halda, að það sé vinsælt að vera á móti einhverju, þá segja þeir, að þessi stéttin geti ekki greitt neitt, en svo koma aðrir og segja, að hin geti ekki heldur greitt það, sem þarf. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um slíkan málflutning. Það verða engin stórmál leyst með slíkum tökum.

Mitt hlutverk varð það í hv. Nd. að sýna fram á, að skattgjaldið skv. frv. væri í alla staði réttmætt, og svo verður einnig hér, því ég tel sjálfsagt að hafa sama skattgjald og gert var ráð fyrir í frv. upphaflega, þótt e. t. v. séu ekki tök á að færa það í sama horf úr því, sem komið er. Samt hefur það orðið hlutskipti þessa Alþ. að flytja till. um almenna skattgreiðslu til þess að halda uppi gengi íslenzkra peninga. En þegar búið er að ná þessu gjaldi út úr frv., þá geta menn ekki sýnt riddaraskap sinn í því að ráðast gegn því gjaldi. Þá er ráðizt á móti því að leggja flutningsgjald á sjávarafurðir. Það skortir ekki, að þm. hér í hv. d. geysist fram til þess að rýra þessa heimild sem allra mest.

Ég ætla ekki að fara út í það að ræða um einstök atriði í ræðum hv. þm., sem töluðu úr fjhn., og þá einnig ræðu hv. 10. landsk., sem átti að sanna það, að það væri ókleift fyrir þá, sem hafa útflutning sjávarafurða, að greiða nokkur útgjöld. Þó vil ég aðeins segja það, að þessum hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að gengi íslenzku krónunnar er hærra en það ætti að vera og sennilega hefði verið, ef Alþ. sjálft hefði ráðið skráningu krónunnar. Ef þm. viðurkenna þetta, hvernig geta þeir þá beitt sér á móti því, að ríkisstj. fái þessa heimild til þess að leggja á útflutningsgjald og verja því eins og hér er gert ráð fyrir? Því að það mundi verka á svipaðan hátt og gengishækkun krónunnar, og það, sem sú ráðstöfun nær, alveg á sama hátt. Ég vil þess vegna segja það fyrir mitt leyti, að ég vil mæla á móti þeim brtt., sem fram hafa komið, nema brtt. hv. l. þm. Eyf., sem fer í þá átt að taka aftur inn í þetta frv. ákvæði um það að leggja á almennan tekjuskatt, sem ég tel eðlilegt, og ég tel, að heimildin megi ekki vera minni til handa ríkisstj. heldur en hún var í frv. eins og það var upphaflega lagt fyrir.

Það kann vel að vera vinsælt að halda því fram, að þeir, sem hér þyrftu að greiða samkv. Þessu frv., geti ekki greitt þessi gjöld og það sé ósanngjarnt að leggja þau á þá. En ég er alveg sannfærður um það, að síðar, þegar það kemur í ljós, hvernig þróun þessara mála verður, þá munu einmitt þessir menn, sem nú vilja mest draga úr þessum ráðstöfunum, óska þess, að þessi gjöld hefðu verið lögð á á þessum tíma, til þess að koma í veg fyrir þessa þróun, sem fyrirsjáanleg er.

Það má vel vera, að dregið verði úr þessu máli hér í hv. d. Ég vil þá a. m. k. taka það skýrt fram, að þeir, sem nú hafa viljað reyna að koma í veg fyrir meiri þróun með þessu frv., verði ekki kvaddir til ábyrgðar út af þeirri stefnu, sem þessir menn taka, sem eru á móti þeim ráðstöfunum, sem frv. felur í sér.

Ég geri svo ekki ráð fyrir, að ég muni taka hér meira til máls, ég vildi aðeins segja þessi almennu orð um málið og þær brtt., sem fyrir liggja og allar ganga í þá átt, að undanskilinni brtt. hv. 1. þm. Eyf., að rýra möguleikana til þess að fullt gagn geti orðið að framkvæmd málsins.