16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég gleðst yfir þessu frv., því að ég tel það ágætt, ef ríkisstj. tekst að leysa þessi tvö höfuðvandamál, sem við höfum nú við að glíma og frumv. er ætlað að leysa. En áður en ég sný mér að því, ætla ég að tala ofurlítið um frv. almennt, og get ég ekki látið hjá líða að leiðrétta hv. 1. þm. Reykv. og að öðru leyti að lýsa hér atriði, sem ég er honum mjög ósammála um, og þá sérstaklega einu atriði, sem ég tel, að ekki megi standa ómótmælt í þingtíðindum.

Hv. 1. þm. Reykv. segir, að það sé undarlegt að ætla nú að fara að leggja nýtt gjald á þegna landsins, ekki sízt þegar nýbúið sé að samþ. eins vel undirbúna löggjöf og skattalöggjöfin er. Það er von, að honum finnist þetta. Hann sat í þeirri n., sem átti að undirbúa þá löggjöf. Og þessi n. sat í nokkur ár og kom aldrei með neinar till. Ég álít, að þrátt fyrir þá vinnu, sem lögð hefur verið í þetta skattafrv., þá hafi skattalöggjöfin verið illa undirbúin og illa afgr. í alla staði. Og þegar við komum á næsta þing, sem ég vona, að við lifum báðir, þá vona ég, að hv. 1. þm. Reykv. hafi rækt það hlutverk sitt að koma með skattafrv., sem sé vel undirbúið, því enn starfar nefndin, og frumvarpið í vetur var aðeins samþ. til bráðabirgða.

Í öðru lagi tel ég það alveg sérstaklega háskalega kenningu á þessum tímum, sem hv. þm. hélt fram í sinni ræðu, að hver og einn eigi að vinna að því, sem bezt borgar sig. Hvernig stæði þjóðin, ef þessu væri framfylgt nú? Það er vitað mál, að þrátt fyrir það, þótt hækkað hafi verð á landbúnaðarafurðum, og þrátt fyrir það, Þó að það komi til með að hækka enn, þá er það sú atvinnugrein í landinu, sem borgar sig langsamlega verst. Það borgar sig betur í augnablikinu að fara í Bretavinnu. Að prédika það á Alþ., að menn eigi að fara þangað, sem þeir fá mesta aura fyrir vinnu sína í dag, er herfilegur misskilningur.

Í þessu sambandi sagði hv. þm., að bændur fengju ekki nema 1/3 af útsöluverði mjólkur heim til sín. Ég vil benda honum á það, að bændur fengu 30,095 aura fyrir lítrann árið 1940. Og þetta eru þær einustu upplýsingar, sem fyrir liggja. En mjólkurverðið í útsölu byrjaði á 40 aurum og endaði á 56 aurum. Ég kann ekki við þann reikning, að segja, að bændur hafi ekki fengið nema 1/3 af útsöluverði mjólkur heim til sín, því að þeir fengu ca. l5% af útsöluverði hennar.

Í þessu máli virðist mér vera tvö meginatriði, að stöðva verðbólguna, sem nú er í landinu, og festa þar með vísitöluna. Ég sé fram á, að nú á næstunni hlýtur vísitalan að hækka, verði ekkert að gert. Þingið er nú búið að samþ. breyt. á húsaleigul., sem mun hafa í för með sér milli 5–10 stiga hækkun á vísitölunni. Þm. veit það, að það er nýlega búið að hækka verð á mjólk og mjólkurvörum, og hann veit líka, að það hækkar meira. Og hækkun á þessum afurðum mun hafa í för með sér tveggja til þriggja stiga hækkun á vísitölunni. Og ég sé af þessu o. fl., að á næstu tímum mun vísitalan hækka verulega, ef ekkert verður að gert. En því meira sem vísitalan hækkar og kaup á eftir, því erfiðara verður fyrir þjóðina, þegar skriðan fer að fara niður á við, allt fer að lækka. Vegna þessara afleiðinga, sem fyrirsjáanlegar eru, vil ég láta gera það, sem hægt er, til þess að draga úr því, að vísitalan hækki meira en. orðið er. Ég álít, að það sé stórt spor stigið með framkvæmd 2. gr. frv., ef frv. verður samþ., þar sem er heimild til að setja hámark á farmgjöld. Reikningar Eimskipafélags Íslands sýna, að það hefur grætt fullar fjórar millj. króna síðastliðið ár. Og ef maður gerir ráð fyrir, að á farmgjöld hefði verið lagt eins og annað vöruverð, og ef við reiknum með 50% álagningu, þá hefur almenningur þurft að borga gróða Eimskipafélagsins með 6 millj. kr., sem þýðir 6 stig á vísitöluna, sem nú er, eða 1/9 hluta hennar. Ég harma það, að ekki skuli hafa verið tekið fyrr til þeirra ráðstafana að lækka farmgjöld, og þykir leitt, að ekki skuli hafa náðst samkomulag um það innan ríkisstj. En ég vona, að þeir, sem með þessi mál fara, beiti sér fyrir því að takmarka fragtina og lækka hana verulega. Ég sé, að með þeim tolllækkunum, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. frv., er töluvert stórt spor stigið í þá átt að lækka vísitöluna, þó að það sé miklu minna en með farmgjöldin, og mundi það ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um 1–2 stig. En hitt er ekki síður að athuga, að einmitt nú í vor hafa atvinnuskilyrði öll stórbreytzt og allt samræmi milli tekna manna í hinum ýmsu atvinnugreinum breytzt þar með. Verkamannakaupið hér var áður miðað við, að menn hefðu mjög takmarkaða vinnu, og þegar skýrsla mþn. í atvinnumálum kom út, upplýsti hún, að meðalverkamannskaup hafði verið 1933 1880 kr. Nú hefur þetta breytzt þannig, að nú er stöðug vinna alla virka daga, sunnudagavinna og stöðug eftirspurn eftir verkamönnum í eftir- og næturvinnu, og mun nú verkamannakaupið vera komið upp í 6–8 þús. kr.

Ég hef farið yfir einn staf í stafrófinu til þess að sjá, hvernig þetta lítur út, og sé, að það er almennt, að verkamenn hafi þetta kaup yfir árið. Áður vildu menn fara í sveit í fastavinnu fyrir lægra kaup en tímakaup, sem hér er borgað, vegna þess hve vinnan var ótrygg. Nú er þetta allt breytt. Nú telja þeir sig ekki þurfa þess; nú er vinnan stöðug. Og afleiðingin verður sú, að landbúnaðurinn er nú rekinn með miklu hærra kaupi en áður, og það miðað við verkamannskaup eða jafnvel hærra. Því að menn vilja ekki taka tillit til þess að hafa frítt húsnæði og fæði. Afleiðingin er augljós, að landbúnaðarafurðirnar hljóta að hækka til þess að bændur fái upp borið þó ekki sé annað en að geta greitt það, sem þeir þurfa að borga út, jafnvel þó að þeir sjálfir hafi ekki meira kaup en áður. Sú hækkun mundi aftur hafa áhrif á vísitöluhækkunina, hún á kaupið, og svo koll af kolli.

Það er því ekki smáræði, sem þarf til þess að halda vísitölunni í skefjum, því að það þarf bæði fé til þess að borga þann mismun á verði, sem nú er á landbúnaðarafurðum, og því, sem þær þurfa að hækka í, ef maður vill halda þeim í sama verði og nú er. Og það þarf líka fé til þess að lækka aðrar nauðsynjar og húsaleigu, til þess að koma í veg fyrir hækkun vísitölu af hennar völdum. Þess vegna hefur hv. Nd. limlest frv. með því að fella úr því mjög réttlátan skatt, eins og skattal. voru afgr. og urðu að lögum.

Ég hef gáð að því, hvernig þetta hefur komið út á mér. Í fyrra borgaði ég 1200 kr. í tekju- og eignarskatt, nú borga ég 460 kr. eftir nýju skattal. Ef ég hefði fengið þann skatt, sem Nd. felldi úr frv., hefði ég fengið í viðbót 400 kr., eða um 2/3 af því, sem ég borgaði í fyrra, og eru launin þó óbreytt. En hv. Nd. tók þetta út úr frv., og þess vegna hefur ríkisstj. miklu minna í sínum höndum til þess að takmarka verðbólguna, sem sýnilegt er, að við þurfum að mæta á næstunni. En svo þarf hún líka fé til fleira. Það er alveg vitanlegt, að sumar þær vörur, sem ekki er komizt hjá að framleiða, eru ekki seljanlegar neitt nálægt því verði, sem framleiðendur þeirra þurfa að fá fyrir þær. Englendingar hafa enn þá haldið kjötinu í sama verði hjá sér eins og var fyrir stríð. Fyrir kjöt, sem selt hefur verið þetta ár til Englands, hefur fengizt ca. ein kr. fyrir kg. Þá er ekki til annar markaður fyrir gærur og ull en til Englands eða Ameríku, og á þeim er sama verð eins og var fyrir stríð. Það er því ljóst, að ef bændur hafa verið við sitt starf og ekki hlaupið frá því, eins og hv. 1. þm. Reykv. taldi rétt, að þeir gerðu, þá þurfa þeir að fá uppbót á þetta verð sinna framleiðsluvara.

Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að frysta inni í Englandi nokkurn hluta af verði þess ísfiskjar, sem seldur hefur verið til Englands. Og við því er ekkert að segja. En aftur á móti hefði ég talið rétt að frysta inni nokkurn hluta af þeim peningum, sem borgaðir eru fyrir vinnu hjá Bretum hér á landi. Það er alveg augljóst mál, að sú vinna er í raun og veru verðmæti, útflutt úr landinu. Og þegar sú vinna er eftirsótt, af því að menn vilja lifa eftir kenningu hv. 1. þm. Reykv., að hlaupa eftir því, sem bezt borgar sig í dag, er rétt að frysta nokkuð af verði hennar inni. Þessi vinna lamar framleiðsluna í landinu, og þá er spursmál, hvort ekki á að frysta eitthvað af peningunum fyrir hana inni. Þetta vildi ég að hæstv. ríkisstj. athugaði. Það gæti vel verið, að það gæti leyst betur úr þeirri eklu, sem nú virðist vera á fólki til sjós og lands vegna Bretavinnu, heldur en flest annað.

Ég mun fylgja brtt. hv. 1. þm. Eyf., en verð á móti hinum öllum, því að þær eru allar til þess að draga úr þeirri fjárhæð, sem ríkisstj. þarf á að halda, og ég er viss um, að það fjárframlag, sem farið er fram á í frv., verður ekki of mikið.

Viðvíkjandi brtt. 10. landsk. vil ég segja það, að ég treysti ríkisstj. fullkomlega til þess að hafa þann mismun á útflutningsgjaldi, sem eðlilegur er eftir söluverði varanna og tilkostnaði við framleiðsluna, og sé ég ekki, að það sé þörf á því að liða það eins í sundur og hv. 10. landsk. vill.

Á brtt. hv. 5. landsk. tel ég ekki neina þörf, þó að ég viðurkenni virðingarverðan tilgang hennar, þann, að hv. þm. er það ljóst, að það þarf að gera það, sem hægt er, til að tryggja það, að landbúnaðarframleiðslan dragist ekki saman, og sérstaklega á þessum tímum, þegar svo getur farið, að við höfum ekki af öðru að lifa en landbúnaðarafurðum og fiski, sem við þó ekki lifum af einum saman.

Ég vil að lokum óska þess, að brtt. hv. 1. þm. Eyf. næði fram að ganga, svo hæstv. ríkisstj. fengi meira fé til umráða heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv., eftir að það kom til þessarar hv. d.