16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Ég hefði getað haft mörgu að svara, bæði meðnm. mínum og öðrum. En nú er komið fram yfir miðnætti, og þinglausnir eru ákveðnar á morgun, svo að ég ætla að neita mér um að svara ýmsu. Ræður sannfæra yfirleitt ekki og breyta ekki afstöðu manna, úr því sem komið er. Ég vil þó minna hv. meðnm. mína á það, sem þeir og vita, að hér er ekki um að ræða að samþ. 1., sem fyrirskipa að innheimta 10% af öllum útfluttum vörum. Hér er aðeins verið að samþ. heimild til ríkisstj., bæði að því er útflutningsgjaldið og skattinn snertir. Því hefur verið lýst yfir af hæstv. forsrh., að þessi heimild verði ekki notuð, nema því aðeins, að samkomulag náist með ríkisstj. Mér finnst, að þm. geti því borið nokkurt traust til þess, að ekki verði farið lengra í þessu efni en góðu hófi gegnir. Ég get ekki neitað því, að mér finnst það bera vott um lítið traust til ríkisstj., hversu mikið kapp sumir þm. leggja á að draga úr frv., en ég skal ekki fara lengra út í það.

Tilefnið til, að ég tók til máls, var aðallega. ræða hv. þm. Hafnf. Mér skildist, að hans afstaða til brtt. vera mörkuð af því, að hann vildi ekki setja málið í hættu. Hann álítur, að málið þurfi að fá afgreiðslu á þessu þingi og sér það réttilega, að ef það getur ekki orðið hér í d. og málið þarf að fara til Nd. aftur, getur því verið hætta búin, þar sem nú er komin nótt og þinglausnir ákveðnar á morgun. Ég er sammála honum um þetta. En hann furðar sig á, að ég skuli þá bera fram brtt. Ég þóttist nú gera grein fyrir því atriði. Það er vegna þess, að ekki fékkst annað en að meðnm. mínir bæru fram brtt. En ef frv. verður breytt á annað borð, þá vil ég, að mínar breyt. komi líka til greina. Þá er og það, að mínar brtt. eru við 6. gr., en aðalbrtt. hv. 1. þm. Reykv. við 1. gr. og svo við 4. og b. gr. Enn fremur er aðalbrtt. hv. 10. landsk. þm. við 5. gr. og brtt: hv. 5. landsk. þm. við 1. gr. Allar þessar brtt. verða því bornar undir atkvæði á undan minni brtt. Ef eitthvað af þeim verður samþ., held ég mínum brtt. til streitu, en verði þær allar felldar, tek ég mína till. aftur. Frv. er því engin hætta búin af minni till., því hún kemur ekki undir atkv. nema því aðeins, að frv. verði breytt hvort sem er.