16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja umr. En ég sé ekki betur en að við hér í hv. Ed. séum komnir í dálitla kví. Þetta mál hefur komið til þessarar hv. d. með mikilli skyndingu. Frá því að nál. var útbýtt til okkar um málið er ekki nema tæpt dægur, og ef við getum ekki afgr. málið nú frá hæstv. Alþ., þá berst það aftur til hv. Nd. En hins vegar er það alveg óviðunandi fyrir allan landslýð, að ekki sé eitthvað gert hér í hæstv. Alþ. í þessu máli. Við verðum því að ganga frá málinu á viðunandi hátt. Hv. Nd. hefur haft betra tækifæri heldur en þessi hv. d. til þess að búa sig undir að afgr. þetta mikilsverða mál og hefur þess vegna getað lagt grundvöllinn að þessari lagasmíð eftir sínum vilja. Við eigum erfiðara með að koma okkar vilja að í þessu máli, því að ef við breytum einhverju í þessu frv. frá því, sem hv. Nd. hefur samþ., þá vofir yfir voði um það, að svo geti farið að ekkert verði úr þessu máli og að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi frv. um þetta mál. Við hv. þm. Ed. erum því komnir hér í sjálfheldu í þessu máli. Og ég sé ekki betur en að það verði mjög erfitt að koma hér fram breyt. á málinu, en að það verði aðallega að treysta á þá hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr, að hún taki þann hlut upp í framkvæmdum málsins, sem hyggilegastur verður. Og meira að segja, þó að við samþ. það um þetta mál hér, sem við teljum á þessari stundu hyggilegast, þá geta aðstæður eftir viku, og kannske tvo eða þrjá daga, orðið þannig, að það, sem við nú samþ. hér, væri ekki hyggilegt að framkvæma. Það er allt á hverfanda hveli á þessu landi. Og úr því að við höfum valið okkur þjóðstjórn, verðum við að treysta því, að hún dugi vel til þess að gera það, sem heppilegt er fyrir þjóðina. En ef þjóðstjórnin treystir sér ekki til að taka ákvarðanir um þau vandamál, sem að steðja, þá verður hún að kalla saman þing sér til aðstoðar, á hvaða tíma, sem það kann að verða. Það er auðvitað kostnaður við það. En í slíku stórmáli sem þessu hlýðir ekki að horfa í 30–50 þús. kr., þar sem um er að ræða meðferð á tugum millj. kr., ef hæstv. ríkisstj. treystist ekki án ráðuneytis hæstv. Alþ. til að ráðstafa því fé. Og ég segi það fyrir mig, að ef talið er, að mikið sé í húfi um afgreiðslu þessa máls, samkv. því, sem hér hefur verið rætt um, þá hygg ég, að bezt sé að beygja sig fyrir því, sem hv: Nd. hefur gert í þessu máli, þótt það sé ekki alltaf það hyggilegasta í málum, sem sú hv. d, lætur frá sér fara. Og jafnvel þó að við óskum eftir umbótum á frv., þá álít ég, að við eigum frekar að beygja okkur fyrir því, sem hv. Nd. hefur gert í þessu máli, heldur en að fara að setja málið í hættu með því að samþ. brtt. við frv. Ég er tilbúinn, ef aðrir hv. þm. vilja taka aftur sínar brtt. við frv., að taka aftur að mínu leyti brtt. við málið. hví að ef við getum ekki leyst þetta mál nokkurn veginn sæmilega, — og þó að við séum ekki ánægðir með úrlausn hv. Nd. á málinu, og það er kannske ekki von — þá mun þó vera betra að hlíta þeirri afgreiðslu í bili, heldur en að setja allt málið í voða og vanda.