17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég ætla nú ekki að svara miklu. En vegna þess, að hv. þm., sem síðast talaði, sagði, að ekki lægju fyrir neinar áætlanir um það, hve mikið þyrfti í þetta eða hitt, þá ætla ég að svara honum aftur með spurningum og segja: Hvaða verð verður á aðfluttum vörum? Vilja hv. þm. segja mér það? Hvað verða farmgjöldin há? Eftir þeim fer verðið á aðfluttum vörum: Hversu há verða vátryggingagjöldin? Því að eftir því fer, hvað þarf til þess að farmgjöldin lækki. Hvað verða útflutningsvörurnar í háu verði? Því að eftir því fer það, hve mikið þarf til þess að bæta upp verð á þeim. Hve mikið verður flutt út? Eftir því fer það, hver útflutningsgjöldin verða. Vilja hv. þm. svara þessu?