17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru aðeins örfá orð nú. — Ég vildi fyrst gera ofurlitla aths. við það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um tvennt í sambandi við þetta mál. Hann sagði, að umr. um þetta mál hér í þessari hv. d. hefðu ekki verið til neins, vegna þess að brtt. hefðu ekki komizt að til samþykktar, rök hefðu ekki haft neitt að segja o. þ. l. En ég vil álíta, þvert á móti, að umr. hér í þessari hv. d. hafi verið til mikilla bóta, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur orðið vör við vilja hv. þm. í þessu máli hér í þessari hv. d. Og ég efast ekki um, að hún taki til fullkominnar athugunar þær brtt., sem hafa komið hér fram. (JJós: Og verið felldar), og þær umr., sem hafa farið fram hér í hv. d. um málið, þegar kemur til framkvæmda í þessu máli.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði líka, að þau 20 ár, sem hann hefði setið hér á Alþ., hefði engin slík löggjöf komið fram til samþykktar sem þessi. Það er alveg rétt, og ég er ekki í vafa um það, að ef eitthvað hefði verið gert til. þess að stöðva dýrtíðina eftir stríðið 1914–1918, þá hefði betur farið heldur en raun varð á. Sá afturkippur, sem varð eftir það stríð í atvinnulífinu við krónuhækkunina á eftir, sem reið ýmsum framleiðendum að fullu, hefði ekki komið, a. m. k. ekki eins tilfinnanlegur, ef eitthvað hefði verið gert til þess að draga úr dýrtíðinni þá.

Viðvíkjandi brtt., sem hér liggja fyrir, verð ég að segja það viðkomandi þeirri brtt., að ekki megi fara hærra með útflutningsgjaldið en í 5%, þá tók ég það fram við 2. umr. málsins, er ég minntist á brtt. hv. 10. landsk., að eins og hún var orðuð, þá virtist mér hann álíta það, og ég var honum sammála um það, að það gæti svo farið, að útflutningur sjávarafurða gæti ekki þolað þennan skatt. En t. d. efjafngóð sala yrði á ísfiski hjá togurum (og þeir sigla með hann til Englands) eins og fyrri hluta þessa árs, þá er ég ekki í vafa um, að slíkar sölur hefðu getað barið uppi þetta gjald. Og eins ef það hefði fengizt, að íslenzk skip mættu flytja ísfisk til útlanda og selja hann þar á frjálsum markaði fyrir svipað verð eins og var á fiskinum fyrri hluta þessa árs, þá er ekki vafi á því, að slíkar sölur hefðu getað borið 10% gjaldið. Þess vegna vil ég ekki algerlega taka þessa heimild í burtu, sem er í frv. Því að ég álít, að það geti komið þeir tímar, að það sé full ástæða til þess að nota heimildina til að taka þetta gjald. Og mér virtist líka, að hv. þm. Vestm. hefði ekkert við það að athuga, að þegar skatturinn var afnuminn í Englandi, þá hefði sá skattur, eða skattur í staðinn fyrir hann, átt að vera notaður til þess að safna í sjóð, til þess að nota þann sjóð svo til að hamla á móti dýrtíðinni.

Viðvíkjandi hinni breyt. í sömu gr., að í staðinn fyrir orðin „heimilt er ríkisstj. að ákveða, að gjald þetta skuli aðeins ná til þeirra afurða, sem framleiddar eru eftir að reglugerðin um útflutningsgjaldið öðlast gildi“ komi það ákvæði, að gjald þetta skuli aðeins ná til þeirra afurða, sem fluttar eru út úr landinu og ekki hefur verið aflað, þegar lög þessi koma í gildi, viðvíkjandi þessu ákvæði veit ég það, að innan Sjálfstfl. hefur einmitt verið talað um það, að það komi ekki til mála að skattleggja þær vörur, sem framleiddar eru áður en þessi reglugerð gengur í gildi, nema þær hafi þá hækkað svo gífurlega í verði, að þær muni þola útflutningsgjaldið. Þetta veit ég, að hv. þm. Vestm. hefur líka heyrt. Og ég vil vona, að við báðir berum það traust til þeirra hæstv. ráðh., sem við Sjálfstæðismenn höfum í ríkisstj., að þeir muni fylgja þessu fram.

Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta mál, enda álít ég bezt, að farið verði að ganga til atkv. um frv.