17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Erlendur Þorsteinsson:

Ég skal nú vera stuttorður. — Ég verð að segja það, að það gladdi mig mjög sú yfirlýsing, sem fram kom frá hæstv. forsrh., þar sem hann lýsti yfir, að þó að brtt. mínar á þskj. 768 hefðu verið felldar, mundi ríkisstj. samt fara eftir þeim og framkvæma ráðstafanir sínar nákvæmlega á sama hátt eins og hún mundi gera, þó þessar brtt. hefðu verið samþ., og vil ég leyfa mér að leggja þann skilning í þessa yfirlýsingu, að hæstv. ríkisstj. muni ekki taka sem útflutningsgjald nema 5%, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, þá fari hún með útflutningsgjaldið upp í 10%. Og ég vil leyfa mér líka að leggja þann skilning í þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., að útflutningsgjaldið verði aldrei haft hærra en svo, að samanlagt útflutningsgjald og framleiðslukostnaður nemi ekki hærri upphæð en söluverði afurðanna, og líka, að þegar afurðir eru fluttar út hálfunnar eða fullunnar, þá verði útflutningsgjaldið reiknað aðeins af hráefnisverði. Og í þriðja lagi vil ég leyfa mér að leggja þann skilning í þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., að gjald þetta verði aðeins tekið af þeim útfluttum afurðum, sem framleiddar verða eftir að það hefur verið ákveðið með reglugerð.

Að fengnum þessum yfirlýsingum hæstv. forsrh. get ég fyrir mitt leyti tekið aftur brtt. þá, sem ég hefi flutt með hv. þm. Vestm.