17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. hér í kvöld eða nótt. Ég ræddi nokkuð um málið almennt við 1. umr. og sýndi þá fram á, að þær ráðstafanir, sem felast í þessu, eru í raun og veru sama eðlis eins og þegar Münchausen barón dró sjálfan sig upp úr feninu á hárinu. Engin af þeim röksemdum, sem ég bar þá fram í þeirri ræðu, hefur verið hrakin hér í kvöld. Og yfirleitt hafa umr. verið þannig, að ég hef ekki talið neina ástæðu til að taka til máls. Og þess vegna hef ég ekki heldur verið neitt að skaprauna hæstv. ráðherrum, sem eru ákaflega geðillir yfir því, að þm. skuli yfirleitt leyfa sér að láta sínar skoðanir í ljós. Ég hef haft dálítið gaman af þessum umr., sem hér hafa farið fram í kvöld, því að enda þótt mér frá upphafi hafi verið ljóst, hve mikil hringavitleysa frv. alltaf hefur verið, þá er mér það enn ljósara nú eftir þær umr., sem hér hafa farið fram. Í upphaflega frv. var til þess ætlazt af hv. flm., — og þá fyrst og fremst af hæstv. viðskmrh., sem var aðalfrumkvöðull að frv., og fyrir hans tilmæli var frv. flutt, — að þessu fé, þessum tugum millj., sem áttu að fást með þeim sköttum, sem ákveðnir eru í frv., skyldi varið eingöngu til þess að bæta upp verð á útfluttum afurðum, m. ö. o. að þessum millj., sem þarna fengjust inn með sköttum, skyldi stungið í vasa ákveðinna ríkisborgara, sem flyttu út vörur á erlendan markað. Þetta var tilgangurinn, og ekkert annað. Hæstv. ríkisstj. mátti ekki heyra nefnt, að hún fengi heimild til þess að hafa áhrif á verð á kjöti og mjólk.

Í umr. þeim, sem hér hafa farið fram í kvöld, hafa hæstv. ráðh. þeir, sem talað hafa, lagt alveg sérstaka áherzlu á, að frv. þetta miðaði að því að draga úr dýrtíðinni. Þeir hafa algerlega snúið við blaðinu. Hins vegar hef ég ekki fengið neina skýringu á því, hvernig þetta mætti ske, — ekki neina. Með hvaða hætti eða aðferð ætla þeir að draga úr dýrtíðinni? Það hefur ekki verið bent á eitt einasta atriði, sem framkvæma eigi í þessu sambandi. Ég spyr: Á að nota þetta fé, sem þarna fæst með því að skattleggja sjómenn og útgerðarmenn, fyrst og fremst, — og svo aðra landsmenn með því að hækka tekjuskattinn, — á að nota þetta fé til þess að styrkja kaupmenn til þess að selja ódýrar vörur? Er þetta meiningin? Þetta minnir mig dálítið á það, sem sagt er frá í Heljarslóðarorustu, að ástandið hafi einhvern tíma verið þannig, að kaupmenn gáfu aleigu sína til þess að menn gætu keypt af þeim, og fóru á hausinn hrönnum saman. Ef það hefði átt að draga úr dýrtíðinni, ef það hefði átt að gera ráðstafanir til þess að lækka verð á innfluttum vörum, — og dýrtíðin í landinu stafar fyrst og fremst af því, að verð á innfluttum vörum hækkar, og til þess að hamla á móti verðhækkun, verður að hamla á móti því, að verð á innfluttum vörum hækki; — hvers vegna var þá ekki til þess tekið að lækka tollana? Á síðasta ári hefur ríkissjóður fengið í tolla um 12 millj. kr. Hvers vegna á ekki að lækka þessa tölu t. d. um helming? Það hefði mátt fá inn fé í ríkissjóðinn í staðinn með því að leggja gjald á útfluttar vörur, svo að tollurinn af útfluttu vörunum gæti verið notaður til þess að endurgreiða þessa tolla af innfluttum vörum til þeirra, sem raunverulega greiða þá, ef það væri meiningin að hamla á móti dýrtíðinni. En auðvitað er þetta ekki annað en fals. Ég get ekki séð, að með þessari aðferð, að leggja 12.millj. kr. tolla á innfluttar vörur og síðan aðrar 12 millj. kr. með tolli á útfluttar vörur; til þess að endurgreiða innflutningstollana, sé annað unnið en að skapa atvinnu við að innheimta þessa tolla. Heimskan og hringavitleysan í þessum hugsunarhætti er svo mikil, að það er alveg furðulegt, að menn skuli geta enzt til þess að sitja næstum heila nótt við það að vera með einhverjar „spaklegar“ og „vísdómslegar“ ræður um þetta, eins og þetta sé eitthvert óskaplegt bjargráð sem eigi nú algerlega að snúa við öllu og breyta þróuninni, sem nú á sér stað í atvinnu- og viðskiptalífi landsmanna. Enda er það svo, að nú í sínum síðustu ræðum hafa hæstv. ráðh. lagt alveg sérstaka áherzlu á það, hversu mál þetta hafi verið ve1 undirbúið, — þeir hafi haft hagfræðinga sér til aðstoðar til að semja þessa vizku. Svo eigum við að vera ánægðir, fyrst hagfræðingar hafa búið þetta til. Hvað viljið þið þá vera að glenna ykkur og fetta fingur út í það, sem þessir vitru menn hafa saman sett? Enda gaf hæstv. viðskmrh. það í skyn, að það væri eins og hver önnur ósvífni, að þingmenn taki til máls og láti álit sitt í ljós um þetta mál.

Það hefur komið fram í umr. hér í kvöld, að afgreiðsla þessa máls verður ekki í samræmi við vilja hv. þd. Tveir hv. þm. hafa lýst því yfir, að þeir hafi greitt atkvæði. og muni greiða atkv. um þetta mál öðruvísi en þeir mundu — (Rödd af þingbekkjum: Öðruvísi en samvizkan býður þeim.) — Öðruvísi en samvizkan býður þeim og öðruvísi en þeir mundu hafa gert, ef þeir hefðu verið sjálfum sér ráðandi. Hæstv. forsrh. lýsti því nú yfir, að þetta væri í raun og veru ekki nema formsatriði að taka málið fyrir þingið, því að það hefði verið afgr. á miklu réttari hátt að hann taldi, sem sé af flokkunum. Hvernig sú afgreiðsla hefur farið fram í flokkunum, veit ég náttúrlega ekki vel. En ef þessi afgreiðsla mála í flokkunum, sem að ríkisstj. standa, er sú rétta afgreiðsla mála, hvers vegna á þá að hafa þing með miklum kostnaði við þinghaldið bara til þess að koma formi á afgreiðslu mála?

Annars, að því er snertir afgreiðslu málsins í flokkunum, þá hafði ég ákaflega gaman af framígripi hæstv. viðskmrh. í ræðu fulltrúa Alþfl., það var víst hv. 2. landsk. Hæstv. ráðh. sagði þá, að Alþfl. hefði orðið svo hræddur, að hann hefði skipt um skoðun, fyrst hefði hann verið með málinu, en svo hefði hann orðið svo hræddur, að hann hefði ekki þorað annað en að snúast á móti málinu. Ef þetta er rétt, þá hefur Alþfl. orðið tvisvar sinnum hræddur. Fyrst hefur hann orðið svo hræddur, að hann hefur ekki þorað annað en að snúast á móti málinu, en svo hefur hann orðið svo hræddur, að hann hefur ekki þorað annað en að vera með því aftur. Því að ég veit ekki betur en að hv. þm. Alþfl. í Nd. hafi greitt atkv. með málinu eins og það var afgr. þaðan. Og mér skilst, að hv. þm. Alþfl. hér í d. muni líka greiða atkv. með frv. héðan úr þessari hv. d., enda þótt brtt. þeirra hafi verið felldar.

Annars er það svo, að það hefur verið upplýst, að meðferð þessa máls hefur verið óþingleg og ólýðræðisleg að öllu leyti og afgreiðsla þess ekki í neinu samræmi við þingvilja. En ég get líka upplýst það, að þetta mál er ólöglega afgr. Við umr. málsins voru þingsköp brotin í hv. Nd. Ræðutími var þar takmarkaður niður í tvær mínútur eftir að umræður höfðu farið fram í 1½ klukkustund. En það er ekki heimilt samkv. þingsköpum að takmarka ræðutíma meira en svo, að umr. fari fram í þrjár klukkustundir.