14.03.1941
Efri deild: 17. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég sé, að úr vöndu er að ráða í þessu máli, þegar deildin er svo skipt sem hún er. Meiri hl. fjhn. lítur svo á, að óþarft sé að setja nokkur takmörk í frv., og er ég meiri hl. sammála um það. Það er alltaf á valdi þingsins að afnema þessi l. eins og önnur l. Þá vill hv. 10. landsk. ekki bregða fæti fyrir frv., en vill þó stytta framlengingartímann um 2 ár. Loks er hv. 1. þm. N.-M., sem einungis vill vinna málinu hið. versta ógagn. Mín aðstaða er því dálítið erfið.

Ég vil samt gera örfáar aths. Álit hv. meiri hl. fjhn. fellur saman við það, sem ég hef áður sagt um þetta mál. Álit hv. 10. landsk. fer í aðra átt, þó að hann vilji ekki vinna málinu tjón, því að hann — og þeir flm. brtt. — heldur sér við það, að það eigi ekki að viðhalda neyzlusköttum. Samt sem áður viðurkenna þeir, að það stendur sérstaklega á nú, þar sem ekki er hægt að ná inn neinum verulega hækkuðum tekjum í bæjarsjóð Vestmannaeyja á því að hafa skip í förum með fisk. Ég vil upplýsa, að nú sem stendur er bara einn maður í Vestmannaeyjum, sem hefur á undanförnu ári grætt fé á því að hafa skip í förum með fisk til útlanda. Vestmannaeyingar hafa annars selt fiskinn öðrum mönnum, útlendum eða íslenzkum. Nú alveg nýlega er annar maður byrjaður á að hafa skip í fórum með fisk til Englands, en enn þá er þar aðeins um eina ferð að ræða. Þessi tegund af stórgróða kemur því ekki Vestmannaeyingum almennt til góða. Þeir fóru illa út úr vertíðinni 1940. Vertíðin var rýr, svo rýr, að margir útvegsmenn urðu að fá beina stjórnaraðstoð um ábyrgð til Útvegsbankans til að geta greitt fólki sínu. Stjórnin þarf að vísu ekki að borga neitt, því að fisksalan reyndist betur en á horfðist, en ástandið var nú svona, að þetta var nauðsynlegt, þegar gera átti upp við fólkið í vertíðarlok.

Ég lofaði því við 2. umr., þegar hv. 1. þm. N.hl. með sínum ríkisskattheimtunefndarmannsautoritetssvip og tilbrigðum krafði mig um skýrslu um það, hverju þetta gjald næmi, að ég skyldi gefa upplýsingar um það, að svo miklu leyti sem ég var ekki búinn að því. Ég var að bíða eftir, að flm. brtt. kveddi sér hljóðs fyrst, en hv. l. þm. N.-M. kom þá eins og eitthvað „úr heiðskíru lofti“ og bunaði úr sér öllum upplýsingunum, sem ég ætlaði að flytja hv. d., og get ég því ekki verið að endurtaka þær.

Ég er ekki orðinn því óvanur, að mér sé núið því um nasir, þegar ég flyt þetta frv., að ég sé að berjast fyrir því að fá mitt eigið útsvar lækkað. Þetta mikla skattaautoritet, sem er kannske að vissu leyti gott fyrir hv. d. að hafa, og að vissu leyti hrein plága, ætti að vera kunnugur því, að undanfarin ár hafa útsvör manna í Vestmannaeyjum verið hærri — og það töluvert miklu hærri — en manna í Reykjavík með tilsvarandi aðstöðu.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að þreyta hv. d. með lengra tali. Mér leiðist að vera á hverju ári að tefja tíma þingsins með þessu frv. Ég skil varla, að margir fylgi hér hv. 1. þm. N.-M. að málum, en mælist til, að hv. d. fylgi till. meiri hl. fjhn.