14.03.1941
Efri deild: 17. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Ég vil benda hv. þm. Vestm. á, að hann lýsti yfir því áðan, að nú hefði hann í fórum sínum mikið af tölum, en sæi ekki ástæðu til að lesa þær. En nú í síðustu ræðu sinni leggur hann ekkert upp úr þeim sömu tölum og segir, að þær sanni ekkert, því að ég hafi bara „kastað þeim fram“. Eru tölurnar ekki réttar? Og sé svo, hafa tekjur manna í Vestmannaeyjum þá ekki vaxið svo, að jafna megi niður 40000 kr. hærri upphæð en áður? Ég fullyrði, að svo sé, og tel þm. Vestm. verða að afsanna það með tölum, en ekki bara glamri, sem lítið kemur málinu við.