16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

41. mál, krikjuþing

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hef skrifað hér undir nál. á þskj. 480. Ég hefði nú gjarnan óskað, þó að seint sé, að þetta nál. hefði verið meira og ýtarlegra í svona máli, meðal annars af því, að í raun og veru kemur ekki nógu skýrt fram sjónarmið meiri hl. n., og þess vegna vil ég segja hér nokkur orð.

Ég skal strax taka það fram, að það, sem ég segi um þetta mál, það er á minn eiginn reikning.

Ég hef alltaf, þó að ég hafi kannske lítið sýnt það í verki og kannske því síður forði, viðurkennt íslensku kirkjuna, og ég verð að segja það, að þar sem ríkið hefur nú um aldir haldið uppi íslensku þjóðkirkjunni og viðurkennt hana í ákveðnum skilningi, þá sé í raun og veru ekki óeðlilegt, þó að það kæmu fram raddir um það, að eitthvað sé gert fyrir þá kirkju, sem ríkið löghelgar og verndar.

Ég skal enn fremur taka það fram, að ég sé í hlutverki kirkjunnar svo margt og mikið, og ég tel, að með þessu frv. sé lagður nokkur hyrningarsteinn undir það að undirbyggja það starf, sem ég tel, að kirkjan eigi að hafa með höndum, þ. e. að leita til leikmanna um að ræða þau mál, sem stundum eru kannske ekki kölluð andleg mál, heldur bókstaflega veraldleg mál. Og það er m. a., margt í okkar þjóðfélagi, sem stundum eru kölluð mannúðarmál, þau verða stundum félagsmál, og það stendur engri stofnun nær en íslenzku þjóðkirkjunni að taka undir með þeim röddum í landinu, sem lúta að félagslegri þróun til vellíðunar fólksins og með þeim, sem eru skuggamegin í lífinu. Ég hef þá trú, að hinir óprestvígðu menn, sem koma og ræða með prestum á slíku kirkjuþingi, þeim gefist sérstaklega kostur á að leiða þessi mál fram til umræðu og til meiri umhugsunar en ella. Þetta er einn þáttur í því, sem ég tel, að kirkjuþingið eigi að hafa með höndum.

Það snertir nú kannske ekki umr. um þetta mál, atvik, sem kom fyrir mig á leiðinni. í þinghúsið í morgun. Ég hitti aldraðan mann á götunni, kunnan hér meðal margra, og hann beindi þessari spurningu að mér: „Hvernig lízt þér á heiminn?“ Manni verður nú yfirleitt fátt til svars, nema taka undir, að ástandið sé illt í heiminum. En hann bætti þá við og sagði: „Hvernig lízt þér á kristnina?“ Ég gat ekki haft annað svar með höndum en það, að kristnin virðist vera máttlaus í þeim heljar átökum, sem nú standa yfir í heiminum, og virðist ekki hafa getað komið í veg fyrir þau. Ég hygg, að það sé rétt, sem hér hefur verið sagt, að það sé ef til vill nauðsyn á að vekja hverja þjóð til meðvitundar um það, hvað kristnin má orka í framtíðinni, m. a. til þess að koma í veg fyrir endurtekningu á þeim heljar átökum, sem nú eiga sér stað í heiminum.

Ég hef þá trú, að eftir anda og eðli kirkjunnar sé það eitt af hennar hlutverkum að verða fyrirboði í þjóðfélaginu, og þess vegna sé hún einmitt stuðnings verðug á einn eða annan hátt.

Þetta er nú m. a. það, sem ég vildi láta koma hér fram og veldur því, að ég styð þetta mál. Það er hægt að fara inn á svo mörg svið í umr. um slíkt mál sem þetta, en ég vil ekki vera að tefja fyrir málinu.

Ég vil að síðustu benda á, að kostnaðurinn við þetta mál er, eins og hér er tekið fram, raunverulega hverfandi lítill. Ég skal enn fremur undirstrika það, að þar sem innan kirkjunnar rúmast allir, án tillits til stétta eða jarðneskra verðmæta, þá getur hér ekki verið um stéttaþing að ræða, í þess orðs eiginlegu merkingu, heldur er hér að ræða um stofnun, sem eins og áður er sagt, að þjóðfélagið hefur löghelgað og viðurkennt, og kostnaðurinn er ekki mikill í þessu efni.

Við höfum ekki talið eftir okkur að styðja menn til fundarhalda í öðrum löndum, og jafnvel með meiri upphæð en hér er farið fram á. Ég efast ekki um, að þátttaka Íslendinga í erlendum þingum og fundum hefur gengið á ýmsu, og ég geri ráð fyrir, að ef vel er á haldið og vel til vandað með mannaval á slíkum kirkjuþingum, þá mundi ef til vill ekki nást minni árangur en hefur orðið á hinum ýmsu, fundum og þingum erlendis, sem hafa kostað ríkissjóð miklar upphæðir, meðan frjálst var að ferðast um löndin.

Þetta vildi ég láta koma fram frá mínu eigin brjósti, af því að í nál, er sagt svo lítið um hina eiginlegu afstöðu til þessa máls, og skal ég svo ekki blanda mér frekar í þessar umr., enda geri ég ekki ráð fyrir, að tilefni verði til þess.