27.03.1941
Neðri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Síðastl. ár, eða síðan ég tók að mér störf viðskiptamálaráðherra, hef ég lagt á það fyllsta kapp að draga til landsins nauðsynjavörur, sem frekast hefur verið kostur, enda hafa öll skip komið með fullfermi. Við höfum átt við margvíslega örðugleika að stríða við að dreifa þessum vörum út um land, m. a. vegna þess, hve skipakostur hefur verið takmarkaður, og höfðu um tíma safnazt svo miklar vörubirgðir hér í Reykjavík, að Ameríkuskip varð eitt sinn að bíða í þrjá daga eftir afgreiðslu vegna þrengsla í vöruskemmum. Nú hefur þessum vörubirgðum verið dreift út um land eftir því, sem unnt hefur verið, og með þeim árangri, að kornvörubirgðir eru nú mjög vel dreifðar, eftir því, sem þeir hafa tjáð viðskiptamálaráðuneytinu, sem þessum málum eru kunnugastir. Einn af örðugleikunum við dreifingu varanna er og sá, að kaupmenn og kaupfélög úti um land liggja enn með ull og gærur í geymsluhúsum sínum og eru því í vandræðum með að taka við kornvörunum. En eins og ég tók fram áðan, hefur þetta tekizt svo vel, að t. d. Samband ísl. samvinnufélaga, sem hér er einn stærsti aðilinn, telur sig ekki eiga meiri vörur geymdar hér í Reykjavík, en nauðsynlegt þykir á hverjum tíma.

Þá hefur það enn fremur verið athugað í samhandi við loftárásahættu á höfnina að láta Ameríkuskipin losa farm sinn að einhverju leyti á Ísafirði og Akureyri, en þetta er einnig örðugleikum bundið vegna þess, hve geymslurúm er þar takmarkað.

Loks vil ég geta þess, að viðskiptamálaráðuneytið hefur undanfarna 2–3 mánuði látið sérstakan mann fylgjast með því, hvaða vörur lægju í vöruskemmum til kaupmanna og kaupfélaga í Reykjavík og hve ört þær vörur hafa verið teknar af hafnarbakkanum. Þetta hefur borið mikinn árangur.

Ég álít því, að allt það hafi verið gert, sem unnt hefur verið, til þess að koma í veg fyrir, að vörur söfnuðust á einn stað við höfnina, en þó geta verið ýmsar ástæður til þess, að eigendur varanna geti ekki nálgazt þær og þær af þeim orsökum legið lengur í birgðaskemmum en æskilegt væri, og er t. d. sú ein ástæðan, að nauðsynleg skjöl hafi ekki borizt eigendunum í hendur.

Ég vildi aðeins gefa þessar upplýsingar nú, svo að ekki liti þannig út sem þessu máli hafi ekki verið gaumur gefinn fyrr en nú eftir hafnbannstilkynningu Þjóðverja.