04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

41. mál, krikjuþing

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Það er sjálfsagt rétt, sem tekið hefur verið hér fram, að það eru margar stofnanir eða nefndir, sem standa hér að. Einn af kirkjunnar mönnum sagði hér í ræðu, að það væru einar 5 stofnanir eða nefndir aðrar, sem ynnu að þessum málum, og að því er skilja mátti á ræðu hans, fannst honum frekar trafali að starfsemi svo margra, aðila að þessum málum. Ég skaut því fram í ræðu hv. 1. þm. Rang., hvort synodus mundi ekki falla niður, þegar kirkjuþing hefði verið sett á stofn, en ég sé á frv., að svo er alls ekki. Ég skal ekki um þetta dæma, en mér skilst eiginlega, að samkv. þessu frv. verði þetta kirkjuþing sett skör lægra en kirkjuráð, og það felli ég mig satt að segja ekki við. Ég hef kannske ekki aðstöðu til að dæma um þessa hluti, en út frá mínu takmarkaða leikmannssjónarmiði virðist mér, að orðið „kirkjuþing“ beri það með sér, að sú stofnun ætti að vera sett hærra en þær aðrar nefndir eða stofnanir, sem hér um ræðir, en í 16. gr. þessa frv. segir, að kirkjuþing geti afgr. mál sín í frumvarpsformi eða ályktunar og sent þau eftir vild ríkisstjórn eða Alþingi, synodus eða kirkjuráði. Mér finnst, að þetta bendi til þess, að þessar stofnanir tvær séu settar hér við hliðina á ríkisstjórn og Alþingi. Ég vil aðeins og eingöngu af hlýjum hug til þessa máls benda á, að það er fullkomið ósamræmi í þessu, og væri vert fyrir þá, sem hafa þetta mál til meðferðar, að taka þetta til nýrrar athugunar.

Mér finnst líka, að þegar ég ber þetta frv. saman við 1. um kirkjuráð, þá komi það dálítið undarlega við, að þar er skýrt tekið fram, hvert sé verksvið kirkjuráðs, en í þessu frv. er aðeins lítillega í einni gr. minnzt á verkefni kirkjuþings. Að öðru leyti er frv. ekkert nema umbúðir um það, hverjir séu hlutgengir til kirkjuþings. Það er eingöngu í 16. gr., að talað er um verkefni kirkjuþingsins. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kirkjuþing getur tekið fyrir, rætt og gert ályktanir um öll þau mál, er varða hina íslenzku þjóðkirkju, bæði kirkjuna í heild og einstaka söfnuði. Hefur hver kirkjuþingsmaður rétt til að bera fram hvert það mál, er hann óskar að fá tekið til meðferðar.“ Ég lít svo á, að ef slíkt þing er sett á stofn, þá ætti það að hafa með höndum þau mál, sem ætluð eru kirkjuþingi, og vera æðsta. stofnunin á þessu sviði. Þetta vil ég aðeins benda á og vænti, að sú n., sem hefur þetta mál til meðferðar, taki þetta til athugunar.