10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

42. mál, biskupsdæmi

Flm. (Magnús Jónsson) :

Ég skal vera stuttorður. Eins og ég hef bent á í grg., er þetta bæði kirkjumál og líka sjálfstæðismál. Hér á landi voru 2 biskupsdæmi frá því í byrjun 12. aldar, og það datt aldrei neinum manni í hug, að hér ættu að vera færri en tveir biskupar, þangað til eymdin var orðin svo mikil, að menn fóru að færa allt saman. Þá þótti nóg að hafa einn skóla, einn biskup o. s. frv. Nú, þegar þjóðin er að færast aftur í aukana, þegar hún er að koma sér upp aftur því, sem af henni reyttist á þessum hörmungatímum, þá á hún að koma þessu aftur í lag. En auk þess, sem þetta er metnaðarmál, þá tel ég, að ekki sé unnt fyrir einn biskup að koma því í verk, sem hans er að vinna. Það má auðvitað líta mismunandi á starf biskups. Ef litið er á hann sem skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, sem eigi að annast skýrslugerð, vígja presta og ferðast um landið, þannig að hann geti komið á nokkuð marga staði einu sinni á ævinni, þá getur einn maður komizt yfir þetta. Ég álít hins vegar, að þetta sé alls ekki nægilegt. Ég álít æskilegt, að biskupinn gæti komizt helzt nokkuð oft yfir sitt umdæmi. Biskupinn þarf að vera í nánu sambandi við söfnuði landsins og presta. En það getur einn maður ekki, þar sem svo stuttur tími af árinu er hentugur til ferðalaga, eins og hér hagar til, auk þess sem ýmis önnur störf hlaðast á biskupinn.

Ég hef ekki viljað seilast svo langt aftur að endurreisa biskupsdæmin í sinni gömlu mynd. Ég vil endurreisa þau á þann hátt, sem nú er heppilegast. Ég vil hafa tvo landsfjórðunga í hvoru biskupsdæmi. Ég hef í huga Austfirðingafjórðung, sem um margt er afskiptur. Það verður seint komið þar við miklu starfi frá Reykjavík af hálfu biskups. Þetta horfir hins vegar öðruvísi við frá Akureyri. Biskupinn, sem þar situr, á tiltölulega auðvelt með að sækja um Austfirði.

Um launaákvæðin hef ég ekkert að segja. Ég hef gert ráð fyrir 10000 kr. launum til Skálholtsbiskups, en 9000 kr. til Hólabiskups. Getur þetta verið álitamál, og ef menn vilja færa það til samræmis við önnur laun, þá er það meinalaust af minni hálfu.

Ég hef svo að sjálfsögðu í 8. gr. sett ákvæði um það, að l. komi ekki til framkvæmda fyrr en biskupaskipti verða, nema núverandi biskup gefi samþykki sitt til annars. Ég geri ráð fyrir, að áhugasamur maður um kirkjumál vilji gjarnan fá starfsbróður, sem geti létt af honum hluta af þeim störfum, sem hann finnur, að er ofviðu nokkrum einum manni. Ég hef þess vegna hugsað mér, að ef hann veitti sitt samþ., þá væri Hólabiskup kosinn. Annars skal ég játa, að ég hef ekkert minnzt á þetta við núverandi biskup. Ég hef aðeins sagt honum frá því, að ég ætli að bera svona frv. fram.

Ég skal svo ekki, af því að áliðið er fundartímans, orðlengja þetta frekar, en óska, að frv. fái að ganga til 2. umr. og menntmn.