19.03.1941
Efri deild: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Þessi brtt. þarf ekki mikilla skýringa við. Þetta er sams konar brtt. og þm. Sósíalistafl. fluttu í fyrra, þegar sett voru l. um verðlagsuppbót fyrir starfsmenn ríkisins, þ. e. a. s. að sett væru ákvæði um það, að verðlagsuppbót skyldi ekki greiða, þegar komið væri upp í ákveðin mánaðarlaun. Ef þetta ákvæði yrði samþ., yrði ekki greidd hærri verðlagsuppbót á laun en svo, að þegar búið væri að leggja verðlagsuppbótina við grunnlaunin, þá yrðu mánaðarlaun jafngild 650 kr. í jan: marz 1939.

Þetta mundi svara til þess, að eftir núgildandi vísitölu yrði ekki greidd uppbót á laun, sem eru hærri en 975 kr. á mán. eða allt að því 12 þús. kr. árslaun. Það þarf ekki að rökstyðja það nánar, að þessi laun eru svo há, að ekki er þörf á því að greiða á þau verðlagsuppbót, a. m. k. ekki fyrr en greidd eru hærri grunnlaun til þeirra starfsmanna ríkisins, sem eru lægst launaðir.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til þess að beina þeirri spurningu til n., sem fær þetta frv. til meðferðar, hvort ekki beri að skilja þetta frv. svo, að þessi verðlagsuppbót skuli greidd til allra starfsmanna ríkisins, eins þeirra, sem eru í lausavinnu hjá ríkinu. Það er vitað, að a. m. k. sumir af þessum mönnum hafa ekki fengið greidda uppbót. En eftir orðalagi frv. virðist augljóst, að það beri að greiða öllum starfsmönnum verðlagsuppbót, bæði föstum starfsmönnum og eins þeim, sem eru í lausavinnu hjá ríkinu. En svo framarlega sem þetta er ekki ugglaust, þarf að koma þeirri breyt. inn í frv., svo að ugglaust sé, að allir starfsmenn fengju rétt til þessarar. verðlagsuppbótar.