10.03.1941
Neðri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

45. mál, bændaskóli

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Það munu flestir vera á einu máli um það, að bændaskólarnir séu nauðsynlegar stofnanir, sem eigi að vinna merkilegt starf fyrir almenna menningu í landinu og eigi því hinn fyllsta rétt á sér. Ég býst því við, að allir þeir, sem þetta viðurkenna, hljóti og að viðurkenna það, að frv. það, sem ég flyt hér á þskj. 52, eigi og fyllsta rétt á sér, en það fer fram á, að stærstu landbúnaðarhéruð landsins, héruðin á Suðurlandsundirlendinu, fái einn bændaskóla. Mér virðist, að mál þetta liggi svo hreint fyrir, að óþarfi sé að fara um það mörgum orðum. Ég vil því aðeins drepa tvö atriði.

Það kann nú einhver að spyrja, hvort það sé tímabært að bera slíkt mál sem þetta fram nú, þar sem vegna hernaðarástandsins séu miklar hömlur á öllum framkvæmdum. Slíkum mótbárum vil ég svara því einu, að ég tel frv. eiga fullan rétt á sér, hvað sem öllu slíku líður. Það er nauðsynlegt að hafa tímann fyrir sér, þegar hefjast á handa um slíkar framkvæmdir sem þessar. Í frv. er t. d. gert ráð fyrir, að skólastaðurinn skuli valinn meðal stóreigna ríkissjóðs á þessu svæði. Nú getur það verið svo, að jarðeign sú, er heppilegust kann að teljast fyrir skólasetur, sé í fastri ábúð, þá getur það tekið nokkurn tíma að liðka svo til, að til árekstra komi ekki.

Hvað snertir önnur atriði í frv., þá vil ég taka það fram, að ég vil ekki halda einstrengingslega í þau, ef annað finnst eða telst heppilegra að dómi vísra manna. Ég mun til samkomulags fáanlegur til þess að ganga inn á einhverjar breyt., ef aðalhugmyndin, stofnun skólans, fær að halda sér.

umr. lokinni óska ég málinu vísað til landbn.