21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

45. mál, bændaskóli

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson) :

Það er nú svo langt um liðið, síðan þetta frv. var afgr. frá landbn., að ég geri ráð fyrir, að flestum sé það úr minni fallið, en eins og nál. á þskj. 268 ber með sér, náðist ekki samkomulag um það í n. Meiri hl., sem ég er í, lagði til, að málið yrði afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er í nál. Eru þar og flutt nokkur rök fyrir því, að meiri hl. landbn. gat ekki fallizt á, að skóli yrði nú reistur á Suðurlandsundirlendi. Það, sem kemur aðallega til greina frá okkar sjónarmiði, er það, að málið er ekki undirbúið. Það er enginn ákveðinn staður til fyrir skólann, og á Suðurlandi er engin hreyfing komin upp um stofnun hans. Ég veit ekki einu sinni til, að málið hafi verið rætt á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands, sem nú er nýlega lokið. Við teljum ekki ástæðu til að ákveða með l. að stofna bændaskóla, á meðan ekki er komin upp hreyfing um málið með bændum á þessu mikla undirlendi. Svo er fleira, sem mælir á móti málinu, þó að það sé í sjálfu sér gott. Hæstv. landbrh., sem fer líka með stjórn kennslumála, hefur lýst yfir því, að skipuð muni verða milliþn. til að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera till. um umbætur á kennslukerfinu. Væri þá sjálfsagt, að þessi n. tæki einnig til athugunar bændafræðsluna og það, hvort ekki væri hægt að samræma hana kennslunni í héraðsskólunum. Er einsætt, að ef slík n. verður stofnuð, þá verði að fá hennar till., áður en farið er út í það að stofna þriðja bændaskólann. Að öllu þessu athuguðu, er ekki sjáanlegt, að þetta frv., þó að samþ. yrði, flýtti fyrir stofnun þessa skóla, því að engum dettur í hug, að hann yrði reistur þegar á næsta ári, með því að mikið fé þarf til að reisa slíka byggingu og ýmsir aðrir erfiðleikar í sambandi við málið, svo sem tímarnir eru nú.

Landbn. var öll málinu velviljuð, og vill n., að tekið sé til athugunar; hvernig hægt sé að auka bændafræðsluna í sambandi við bændaskólana, en við í meiri hl. teljum, að byrjun málsins verði eðlilegust samkv. okkar till. Ég viðurkenni það líka, að ef reistur yrði þriðji bændaskólinn, þá væri margt, sem mælti með því, að hann yrði reistur á Suðurlandsundirlendinu, þó að aðrir landshlutar hafi einnig borið fram óskir í þessu efni, svo sem Vestfirðingar, sem bera fyrir sig alveg sérstaka staðhætti.

Meiri hl. landbn. leggur því til, að málið sé afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 268.