21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

45. mál, bændaskóli

Eiríkur Einarsson:

Ég efast ekki um, að búnaðarmálastjórinn, hv. 2. þm. Skagf., hefur góða og mikla trú á landinu, og ef hann skilur það, að þeir, sem beita sér fyrir stofnun þessa bændaskóla, gera það af því, að trú þeirra á sveitirnar og þörf þeirra er einlæg og vakandi, ætti hann að vita um leið, að ágreiningur um staðarval getur aldrei orðið málinu til hindrunar. Hvort sem líða eitt, tvö eða þrjú ár, þangað til hafizt verður handa að reisa skólann, þarf að vera hægt að átta sig strax á vilja Alþ. í málinu. Ef það telur, að bændaskóli á Suðurlandsláglendinu eigi fullan rétt á sér, er mikilsvert fyrir allan undirbúning heima í héraði, sem annars staðar, að það lýsi ótvírætt yfir því nú þegar. Ef Búnaðarsamband Suðurlands veldi skólastaðinn, hefðu e. t. v. einhverjir viljað, að því vali væri síðan skotið til æðri úrskurðar, og það gæti ég fallizt á.

Ég vildi, að svo giftusamlega mætti fara, að hin almenna fræðsla, sem bæði héraðsskólar og bændaskólar veita, yrði fáanleg á Suðurlandsláglendinu, án þess að ungir menn þurfi að sækja út fyrir takmörk þess, — þá mundu fleiri en nú er verða vel og gagnlega undir lífsstarfið búnir.