10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Út af ræðu hæstv. félmrh. hef ég ekkert annað að segja en það, að ég tek undir öll hans ummæli önnur en þau, að það sé æskilegt, að frv. verði samþ. á þessu þingi. Ég er alveg sannfærður um það, að þó að þetta frv. verði samþ., þá verður ekki hægt að hefjast handa um byggingu skólans á þessu ári. Það yrði komið fram í júnímánuð, þegar frv. yrði að l., þá væri eftir að skipa þá n., sem gert er ráð fyrir í frv., einnig væri eftir að ákveða staðinn, þar sem skólinn ætti að standa, að því búnu yrði farið að hugsa um teikninguna, og þegar öllu þessu væri lokið, yrði komið fram á haust eða vetur, og þá fer enginn að hefjast handa um byggingu. Af þessu er það einnig

ljóst, að við höfum ekki aðstöðu til þess í dag að hefja byggingu á þessu stórhýsi, þó að við hefðum til þess næga peninga. Það er heldur ekkert launungarmál, að það er mjög ákveðin andstaða af þeirri þjóð, sem við þurfum að hafa viðskipti við, um það, að við útvegum okkur annan gjaldeyri en sterlingspund til þess að kaupa efnivið, sem þarf til byggingar á slíku stórhýsi sem hér um ræðir. Nú geri ég mér samt vonir um það, að ríkisstj. mundi sæta annarri meðferð en aðrir, sem vildu byggja, ef hún ætlaði sjálf að koma upp stórhýsi. En það kemur samt sem áður að þessu sama, það er komið sumar, teikningin er ógerð og enginn efniviður til í landinu. Hitt vil ég fullyrða, að það getur á engan hátt tafið framgang málsins, þó að frv. yrði látið bíða til næsta þings, það ynnist þá nægur tími til þess að undirbúa málið rækilega, þangað til næsta þing kemur saman. Það mætti spyrja, eins og hv. þm. Ísaf. gerði, og þá einnig á nokkurn hátt hæstv. félmrh., hvað sé þá í rauninni á móti því að samþ. þessar framkvæmdir, og af hverju ég gæti ekki látið mér nægja að bera fram brtt. Það gæti vel verið, að mér, tækist að koma fram brtt., sem gæti leiðrétt þann búning frv., sem ég er óánægður með. Annars vegar hef ég það í hendi minni að láta samþ. frv. og flýta þar með byggingu skólans, en hins vegar trúi ég betur þeim mönnum, sem ég ætla að láta fjalla um málið, til þess að finna rétta leið til úrlausnar heldur en sjálfum mér, og það er af þeirri ástæðu, að þeir eru hæfari til þess að finna réttari úrlausn en ég. —

Hv. þm. Ísaf, spyr, að hverju leyti þetta frv. sé illa undirbúið. Það kann að vera, að það sé margt í frv., sem ég vildi gagnrýna, en ég skil ekki þá sérstöku nauðsyn á þessu stigi málsins, en ég vil benda á það, að samkv. ákvæðum 3. gr. frv., þá hefur Alþ. alveg sleppt þessu máli úr hendi sinni hvað snertir ákvarðanir um staðarval, stofnkostnað og fyrirkomulag um byggingu skólans. Með samþykkt þessa frv. hefði atvmráðun. ekki neitt úrskurðarvald í þessu máli, það er aðeins n. sjálf, sem getur ráðið því, hvernig þessar framkv. verða, og það tel ég óeðlilega lausn á málinu. Ég get í rauninni vísað til þess, sem hæstv. félmrh. sagði um 16. gr. og 22. gr. (fjárl.). Hv. þm. Ísaf. spurði, af hverju ég hefði lagt til, að heimildin yrði sett á 18. gr. fjárl. í staðinn fyrir 22. gr., úr því að það væri enginn munur á því, á hvorri gr. þessi heimild væri. Eftir að ég hafði fengið yfirlýsingar um hugarfar stj. til málsins og heyrt yfirlýsingu hæstv. félmrh. í d. og einnig þær staðhæfingar hæstv. fjmrh., að hann teldi það engu máli skipta, á hvorri gr. heimildin væri, þá gerði ég engan mun á því, hvort heimildin er á 16. eða 22. gr. fjárl. Ég get svo látið máli mínu lokið og vísað til þess, sem ég hef áður sagt, að ég tel málinu á engan hátt verr borgið, þó að frestað verði framkvæmdum með þessa byggingu. Ég álít, að bygging skólans muni hefjast nákvæmlega á sama tíma, hvort þetta frv. verður samþ. eða því vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég ber því fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Með því að Alþingi hefur heimilað ríkisstj. að leggja fram úr ríkissjóði á næsta ári 500 þús. kr. til byggingar sjómannaskóla, og með því að sýnt er, að samþ. bessa frv. verður eigi til þess að flýta fyrir byggingu skólans, enda málið eigi hlotið nægilegan undirbúning, en ríkisstj. hefur hins vegar heitið að undirbúa málið og leggja fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“