28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Herra forseti ! Eins og kunnugt er, fer þetta frv. fram á, að verðlagsuppbót verði greidd á laun embættis- og starfsmanna ríkisins í fullu samræmi við vísitölu eins og nú hefur víðast komizt á samkvæmt samningum síðan síðustu áramót. N. hefur nú athugað þetta frv. og gert við það nokkrar brtt. Eins og nál. ber með sér, komu fram í n. ýmiss konar sjónarmið um þetta mál. Fannst mönnum, að æskilegt væri, að sumum atriðum væri nokkuð breytt frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, en þar sem því hefur verið lýst yfir, að hæstv. stj. hefði komið sér saman um að afgr. það í meginatriðum á þessum grundvelli, taldi n. ekki rétt að gera á því neina röskun, sem gengi gegn þessu samkomulagi, og gerði því aðeins smávægilegar brtt, við það. Frá réttlætissjónarmiði getur ekki talizt nein ástæða til að taka embættis- og starfsmenn ríkisins eina undan, þegar allar aðrar stéttir hafa fengið viðurkenningu um, að þær skuli fá greidda uppbót samkv. vísitölu. N. leggur því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún ber fram á þskj. 104. Fyrsta breyt. er sú, að á milli orðanna „eftirlaun“ og „úr ríkissjóði“ komi: og styrktarfé samkv. 18. gr. fjárlaga. M. ö. o., að verðlagsuppbót sé ekki aðeins greidd á eftirlaun heldur einnig styrktarfé. Þá er lagt til, að aftan við í. gr. bætist: „Heimilt er lífeyrissjóðum embættismanna, barnakennara og ljósmæðra að greiða verðlagsuppbót á lífeyri á sama hátt. Ríkissjóður endurgreiðir lífeyrissjóðunum upphæðir þær, er þeir greiða samkv. ákvæðum þessum“. Það virðist ekki nema eðlilegt, að þeir aðilar, sem fá greiddan lífeyri úr sjóðum þessum, sem nú eru sérstakir og aðskildir frá ríkissjóði, fái uppbót á sama hátt og aðrir; en þá verður ekki hjá því komizt, að ríkissjóður endurgreiði lífeyrissjóðunum þær upphæðir, því að annars gætu sjóðirnir ekki innt þessar greiðslur af höndum nema með því að skerða stofnfé sitt.

Þá ber n. fram brtt. við 7. gr. Nm. virtist, að gr. mætti skilja svo, að miða ætti verðlagsuppbótina við vísitölu sama mánaðar, sem hún er greidd í, og bar því fram þessa brtt.; svo að það væri tvímælalaust, að miða skyldi við vísitölu næsta mánaðar á undan, eins og nú er gert í flestum þeim samningum, sem gerðir hafa verið um greiðslu verðlagsuppbótar.

Að síðustu leggur svo n. til, að l. skuli ekki gilda nema til 1. júlí 1942. Er það gert með tilliti til þess, að miklar líkur eru til, að breyt. geti verið orðnar miklar á næsta ári og því nauðsynlegt, að skylt sé að taka þetta frv. þá til nýrrar athugunar, en láta það ekki framlengjast af sjálfu sér eins og annars mundi vera. Með þessu móti er skylt að taka l. til endurskoðunar með þeim breyttu tímum, og er n. sammála um, að þessu sé bætt inn í.

Þetta eru þá þær 3 brtt., sem n. hefur borið fram. Engin þeirra er verulega stórfelld eða raskar þeim grundvelli, sem lagður er með þessu frv., og leggur n. til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.