17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Eins og grg. frv. ber með sér, er það samið og fram komið vegna þáltill., sem lögð var fram í hv. Ed., þar sem skorað var á ríkisstj. að safna heimildum frá þeim þjóðum, sem skyldastar eru oss Íslendingum, um það, hvernig háttað sé löggjöf þeirra um þetta efni, og leggja síðan fram á Alþ. frv. til 1. um þjóðfánann. Er ekki hægt að neita því, að full þörf var orðin á slíkri löggjöf, þó að það hefði dregizt mjög, að hún yrði sett. Hefur orðið vítaverður misbrestur á því hér, hvernig farið hefur verið með þjóðfánann, enda hefur ekki tekizt að skapa hér á landi fastar reglur um þetta, eins og tíðkast með öðrum þjóðum. Á þetta frv. að bæta úr þeim ágöllum, sem á þessu hafa verið.

Eins og í grg. segir, hefur verið leitað upplýsinga hjá þeim þjóðum, sem okkur eru skyldastar. Hefur verið tekið upp í okkar frv. ýmislegt úr löggjöf þeirra þjóða, sem láta sér annast um virðingu fána síns. Held ég, að ekki séu mörg atriði í frv., sem valdið geti verulegum ágreiningi. Ég skal geta þess, að frv. er samið samkvæmt óskum ríkisstj., og hefur Sveinn Björnsson sendiherra leitað upplýsinga erlendis, sem lagðar hafa verið til grundvallar við samningu frv. Hygg ég, að þannig sé frá frv. gengið, að hægt sé að vona, að hv. þingd. geti orðið sammála um það án verulegra breytinga, þó að ýmis atriði megi að sjálfsögðu betur fara, og verður það þá vafalaust athugað í n.

Að vísu er eitt atriði í frv., sem er á annan veg en nú er í 1. Er. gert ráð fyrir því, að gerð fánans sé ákveðin með 1. gr. þessara 1., en til þessa hefur hún verið ákveðin með konungsúrskurði. Ég get tæplega ímyndað mér, að þetta verði ágreiningsatriði, því að vissulega er það virðulegra að ákveða þetta með 1. frá Alþ. en konungsúrskurði einum saman. Gerð fána sumra þjóða er ákveðin í stjórnarskránni sjálfri, og ég tel það næsta fráleitt, að þetta sé ekki að minnsta kosti ákveðið í sérstökum 1. frá Alþ.

Ákvæði frv. um gerð sumra sérfána kunna að vísu að valda ágreiningi í hv. d. Þetta var þó ekki sett í frv. af því, að ég eða ríkisstj. vilji sækja það fast, að þau atriði verði óbreytt, heldur af því, að talið var æskilegt, að í frv. væri líka tekið fram, hvernig gerð þessara sérfána skyldi vera.

Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, en legg til, að frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.