17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Pétur Ottesen:

Hæstv. forsrh. hefur nú reifað mál þetta, sem hefur verið látið bíða alllengi byrjar í þinginu, þó að langt sé síðan það var tekið á dagskrá. Ástæðan til framkomu frv. var

þál. sú, sem fram var borin á síðasta þingi og hæstv. forsrh. gat um. En ég skal geta þess, að í henni var einungis óskað eftir löggjöf um meðferð þjóðfánans, og aðra hvöt til aðgerða í þessu efni hefur hæstv. stj. ekki fengið frá Alþ., að því er ég veit. En eins og frv. og ræða hæstv. ráðh. bera með sér, er hér líka farið inn á það svið að ákveða gerð fánans. Það er rétt, að gerð fánans hefur til þessa hvílt á konungsúrskurði, og hafa verið gefnir út allmargir konungsúrskurðir um þetta, líklega einir fimm, frá árinu 1913, er út var gefinn hinn fyrsti. Má vera, að það hefði verið réttara að láta gerð fánans hvíla á löggjöf allt frá upphafi, svo að ekki. hefði verið hægt að hringla með þetta fram hjá Alþ., en þar sem ekki hefur orðið árekstur út af þessu allan þennan tíma, hefði mátt vænta þess, að ekki væri ástæða til að gera þessa breytingu fram hjá Alþ., meðan það ástand helzt, sem nú er, að ráðherrar fari með konungsvald. Ég held því, að þessi ástæða hæstv. ráðh. fyrir breytingunni verði að teljast léttvæg.

En svo er annað, sem ég vil benda á. þarna er farið inn á víðara svið en óskað var eftir á síðasta Alþ., og vil ég gera nokkrar athugasemdir við það. Það er kunnugt, að upphaflega var fáninn með annarri gerð en sá fáni, sem við höfum haft síðan 1915, þegar gefinn var úrskurður um gerð íslenzks þjóðfána. Og það er vitað, að hin upphaflega gerð fánans, hvítblái fáninn, féll þjóðinni mjög vel í geð. Virtist ekki vera uppi neinn ágreiningur um hann, heldur ríkti með þjóðinni einlæg gleði yfir því að geta sýnt íslenzkan þjóðfána og svo því, að litir hans voru þjóðinni að skapi. En þegar málið er svo tekið fyrir aftur og farið að undirbúa 1. til verndar þjóðfánanum, blandast inn í það margar ástæður aðrar, m. a. samband okkar við Danmörku, og þó að við Íslendingar höfum unnið mjög að því jafnan að fá því sambandi slitið, voru hugir manna þá nokkuð skiptir um það, hversu hratt skyldi stíga skrefin. Afleiðing þessarar tvískiptingar var það, að tekinn var upp í fánann einn sérkennilegur litur danska fánans, sem er rauði liturinn. Sú ákvörðun mun hafa átt rót sína að rekja til þess atriðis, sem ég minntist á,. og varð þetta ofan á í n. þeirri, er um þetta fjallaði, og á Alþ. En þetta olli mikilli óánægju meðal landsmanna, og hefði því mátt ætla, að er Íslendingar fengju tækifæri til að slíta með öllu sambandinu við Danmörku, þá yrði gripið til þess að breyta þjóðfánanum í samræmi við þann vilja, sem upprunalega kom fram hjá þjóðinni í þessu efni. Samkvæmt sambandsl. hefði sambandinu við Dani og danskan konung verið að sjálfsögðu slitið árið 1943, en rás viðburðanna hefur flýtt þessu, og þarf ekki annað en benda til aðgerða, sem framkvæmdar voru hér hinn 10. apríl 1940. Og þótt sporið sé ekki enn þá stigið til fulls, er það dómur sérfræðinga, að fallinn sé allur grundvöllur. undan sambandinu, svo að það sé á valdi Alþ. að gera nú þegar það, sem gert hefði verið árið 1943, ef allt væri með felldu.

Af þessum ástæðum kann ég ekki vel við það, að hæstv. ríkisstj. sé nú að lögfesta gerð fánans að tilefnislausu. Ég vil láta það bíða þar til við höfum stigið það spor til fulls, að Alþingi lýsi yfir sambandsslitum við Danmörku, og er þess að vænta, að þinginu ljúki ekki án þess, að það verði gert, þótt það hafi dregizt fram að þessu. Vil ég því leggja til, að þessi ákvörðun verði ekki tekin fyrr en það spor er stigið og gengið frá nýrri tilhögun í stjórnskipun landsins. Mér er það ljóst, að þetta er ekki heppilegur tími til að breyta gerð fánans, því að við þurfum að hafa tök á því að tilkynna heiminum eða þeim hluta hans, er leiðir okkar liggja um, um hina nýju gerð fánans, en á því eru engin tök fyrr en að stríði loknu. Jafnsjálfsagt og það er að setja nýjar reglur um meðferð þjóðfánans, eins er það eðlilegast og réttast að láta sitja við það, sem nú er, um gerð hans, þar til endanlega er gengið frá endanlegri tilhögun á stjórnskipun landsins.

Um gerð einstakra fána, sem nota skal við ýmsar stofnanir, skal ég ekki ræða, enda á það ekki við, þar sem þetta er 1. umr., en þó get ég ekki stillt mig um að benda á þann undarlega hlut, að í 2. gr. er tekið upp ákvæði um að lögfesta gyllta kórónu í fána pósts og síma. Skil ég ekki, sátt að segja, hvernig þetta hefur getað slæðzt inn í frv., og finnst mér það blátt áfram dularfullt. Á það hefur verið bent, að Sveinn Björnsson sendiherra muni hafa samið frv., en ganga verður út frá því, að hæstv. ríkisstj. hafi lesið frv., áður en hún lagði það fram. Og þó að þetta stæði í ákvæðum um póstfána, sem samin voru árið 1919, varpar það engu ljósi á það, hvers vegna slíkt er borið fram nú. Það hefði þá verið eðlilegra, með tilliti til ástands þess, er við búum nú við, að kórónurnar hefðu verið fimm. Annars stefna Íslendingar yfirleitt að því að koma á lýðveldi í landinu, og tel ég, að lýðveldið muni ekki verða kórónað með slíkum hætti.