26.02.1941
Neðri deild: 8. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

28. mál, rafveitulánasjóður

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. um rafveitulánasjóð, sem hér liggur fyrir á þskj. nr. 28, er mjög svipað þeim frv. um þetta efni, sem hafa verið flutt á tveimur síðustu þingum, en ekki hafa hlotið fullnaðarafgreiðslu.

Frv. er um að stofna sjóð, er hafi það hlutverk að veita lán til rafvirkjunarframkvæmda. Ákveðið er í frv., að ríkissjóður skuli leggja fram fé til sjóðsins, en hins vegar er upphæð þessi ekki ákveðin í frv. Fjárhagsástæður ríkisins eru mismunandi, og flm. þessa frv. telja það vafasamt, að það hafi þýðingu eða sé gagnlegt að ákveða upphæð ríkisframlagsins í 1. um sjóðinn. Gæti svo farið, að einhvern tíma yrði úr því dregið, ef þingið teldi ástæður ríkisins þannig, að það væri óhjákvæmilegt. Eru dæmi þess, að með bráðabirgðal. hafi verið frestað fjárframlögum, sem ákveðin hafa verið með 1. Framlögin hljóta að miðast við ástæður ríkissjóðs á hverjum tíma, og við flm. væntum þess, að ef þetta frv. verður að 1., þá sjái þingið sér fært að leggja fram ríflega upphæð til sjóðsins nú í byrjun.

Þá er nú sem fyrr gert ráð fyrir því, að rafstöðvar þær, sem fyrir eru í landinu, greiði gjald til þessa sjóðs. En sú breyt. er gerð á því ákvæði frá því, sem var í þeim fyrri frv., sem ég gat um, að hér er gert ráð fyrir því, að allar rafveitur, sem hafa vatnsafl til orkuframleiðslu og hafa vélasamstæður, er framleiða 150 kw. afl eða meira, skuli greiða gjald til sjóðsins eftir vissum reglum, sem ákveðnar eru í 2. gr. frv. En í hinum eldri frv. var aftur á móti kveðið svo á, að aðeins þær rafstöðvar, sem hefðu fengið ríkisábyrgð eða ríkislán, skyldu greiða þessi gjöld til rafveitulánasjóðsins. Þessi breyt. er í samræmi við það, sem samþ. var í þessari hv. d. á síðasta þingi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um nauðsyn þess, að slíkur sjóður verði stofnaður. Ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þdm, sé það ljóst, hversu þýðingarmikið er að greiða fyrir því, að sem allra flestir landsmenn geti fengið rafmagn til afnota.

Ég sé, að á dagskrá þessa fundar er einnig annað frv. um sama efni, flutt af hv. þm. Borgf. Ég geri ráð fyrir, að báðum þessum frv. verði vísað til n. og vænti þess, að samkomulag geti orðið um þá afgreiðslu málsins, sem flm. beggja frv. geta vel við unað.

Vil ég svo óska þess, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og fjhn.