07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

31. mál, raforkusjóður

Jón Pálmason:

Eins og hv. þdm. sjálfsagt muna, urðu talsverð átök um svipað mál og þetta á þinginu 1939 og svo aftur á síðasta þingi 1940.

Þegar kom fram frv. á þinginu 1939 frá hv. þm. V.-Húnv. um stofnun sjóðs, sem hann kallaði rafveitulánasjóð, þá var í því ákvæði um það að leggja skatt á skuldir þeirra fyrirtækja, sem hefðu komið upp rafveitum hjá sér, og það í þeim stíl, að sá skattur hlaut að verða þyngstur á meðan skuldirnar voru mestar og fara svo lækkandi.

Ég og fleiri, sem töldum mikla nauðsyn á að koma rafmagninu út um sveitirnar, álitum, að þessi leið væri ekki aðgengileg. Varð það að samkomulagi að nokkru leyti, að till. hv. þm. Borgf., að snúa þessu á þá braut að leggja nokkurt gjald á þægindi, sem rafmagnið skapar á þeim stöðum, þar sem rafstöðvar eru. En þessu væri þannig fyrir komið, að rafveiturnar væru skattfrjálsar nokkur ár fyrst, og svo færi þessi skattur stighækkandi eftir því sem árin liðu og skuldirnar minnkuðu. Frv. var svo samþ. frá þessari hv. d. að því er þetta snertir mjög í svipaðri mynd eins og það er nú samkvæmt brtt. fjhn. Það er ekki rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði að frv. um þetta hefði verið fellt hér í d. í fyrra, heldur dagaði það uppi í hv. Ed.

Nú hefur það komið hér fram, eins og oft áður, að menn tala mikið um það að koma meira jafnvægi á milli sveita og kaupstaða. Það er talað um þetta af þm. og öðrum, en minna í því gert. Og stefnan hefur verið sú, og kannske fremur nú en nokkru sinni áður, að jafnvægið er að raskast, svo að sveitirnar eru að dragast niður, vegna þess að þægindin hafi aukizt svo mjög í kaupstöðunum og þéttbýlinu. Þess vegna verður, ef menn vilja ekki láta okkar gróna land falla í auðn, þannig að í þessu landi verði aðeins kaupstaðir og sjóþorp, að haga þessum hlutum öðruvísi heldur en gert hefur verið að undanförnu. Ég vil undirstrika það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði áðan, að við getum búizt við, að það verði ekki mjög langt þangað til að svo geti farið, að fólkið fáist ekki til að vera annars staðar en þar, sem það hefur aðgang að þeim þægindum, sem rafmagnið veitir. Hvaða leið á að fara í þessu efni, þá er það mjög eðlilegt, að um slíkt mál sem þetta verði meiri eða minni ágreiningur, svo sem hvað það snertir að leggja gjald á rafstöðvarnar, sem komi til þess að hjálpa þeim, sem ekki hafa þau þægindi að fá þau til sín. Mér finnst þessi leið fullkomlega sanngjörn og miklu sanngjarnari eins og horfurnar eru nú heldur en á síðasta þingi, vegna þess að komið hefur í ljós að mismunurinn á milli hefur svo mjög aukizt eftir því sem öryggið vex fyrir þá, sem hafa aðgang að rafmagni, og hina, sem ekki hafa það. Út af því, sem hv. þm. Seyðf. talaði um, að það væri gegndarlaus ósvífni að fara fram á það, að á þær rafstöðvar, sem komið hefði verið upp með dýru lánsfé, væri nú lagður skattur, sem varið væri til þess að hjálpa þeim, sem vantaði rafmagn, þá er því að svara, að það eru ekki í raun og veru stöðvarnar sjálfar, sem bera kostnaðinn af þeim lánum, sem þær nota. Það er alveg rétt; sem hv. þm. Seyðf. sagði, að ég hef hér nokkra sérstöðu í þessu máli, þar sem í mínu héraði er hvort tveggja, annars vegar rafstöð, sem mundi þurfa að greiða talsvert gjald, og hins vegar sveitarfélög, sem nytu góðs af þessu gjaldi á komandi tímum: En þegar liðin eru 13 ár frá byggingu þeirra stöðva, eins og ætlazt er til í frv., verður þetta gjald komið í hámark, og þá tel ég ekki ósanngjarnt, að 6 kr. verði lagðar á hvert kw. á ári til þess að bæta fyrir hinum, sem rafmagnið vatnar.

Þær tölur, sem hv. þm. Seyðf. las upp, eru eftir því, sem ég hef kynnt mér, réttar, en að því leyti þó, að þeir eru miðaðar við hámark, en hámarkið er ekki komið fyrr en 13 árum eftir að viðkomandi stöð hefur verið reist.

Þá getur það orkað tvímælis, hvort það er ekki réttara, eins og síðasti ræðumaður talaði um, að leggja gjald á með almennum skatti til þessara hluta. En því er þar til að svara, að ég held, að skattgjöld séu notuð svo mikið til annarra þarfa, að ekki sé heppilegt að taka einhvern ákveðinn hluta til þeirra framkvæmda, heldur verði að koma þessu nauðsynjamáli í framkvæmd með lánsfé og með því, að þeir, sem þegar hafa fengið rafmagn til sín, leggi nokkuð fram. En það helzta, sem mælir á móti þessari leið, er, hve lítið fjármagn er um að ræða, borið saman við þá miklu þörf, sem fyrir er. Því að ef koma ætti rafmagni út um sveitir landsins, mundi það kosta hundruð milljóna króna.

Hér er því ekki að ræða um annað en byrjunarspor, sem ég vil að sé stigið, og má þá bæta við það á annan hátt, eftir því sem reynslan kennir. Ég er vantrúaður á, að hægt sé að láta búskapinn bera sig með því, að þessi þægindi komi inn í allar okkar þarfir og gæti orðið til þess að þétta byggðirnar með tilliti til þess og annars, til þess að fólkið fái að njóta þessara og annarra þæginda. Það gæti einnig orðið til þess, að meira og minna af hinum afskekktustu bæjum úti um landið verði að fara í auðn og byggðirnar þéttust annars staðar. Það er ekki hægt að koma rafmagni inn í alla afdali, og er ömurlegt til þess að hugsa, að lífsskilyrðin inn til dala, sem eru svo mikil, skuli vera ónotuð, vegna þess að slík þægindi, sem rafmagnið veitir, vantar þar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. var að tala um útgáfu verðbréfa, þá er það svo frá mínu sjónarmiði, að verðbréf eru líka lántaka, því að um leið og gefin eru út verðbréf, verða einhverjir að vera til þess að kaupa þau bréf. Og þá er það lán frá þeim, sem þau kaupa, til þeirra framkvæmda, sem um er að ræða. Og ég lít svo á, að það sé svo mikið búið að ganga inn á þá braut að selja bréf fyrir ýmsar stofnanir, að það sé mjög umhugsunarvert, hvort við eigum að fara inn á þær brautir í hverju tilfelli, þegar við þurfum að afla fjár til þessa eða hins nauðsynjaverks. Ég legg þess vegna til, að á þessu byrjunarstigi héldum við okkur við það eitt að heimila lántöku til þessara framkvæmda frá peningastofnunum og öðrum, þar sem hægt er að vænta þess, að lán væri að fá.

Ég hygg, að hv. þm. Seyðf. hafi í raun og veru gert of mikið úr því, hve langt er á milli þeirra leiða að taka lán eða gefa út bréf.

Ég skal svo aðeins geta þess í tilefni af bendingu hv. 2. þm. Skagf. um það að festa tekjur happdrættisins í rafveitulánasjóði á komandi árum, að það finnst mér geta verið rétt, en ég hygg það nokkuð á undan tímanum að setja það nú á þessu þingi inn í l. En ég býst við, að hv. fjhn. muni vilja taka þetta mál til athugunar.