07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

31. mál, raforkusjóður

Sigurður E. Hlíðar:

Hv. þm. V.-Húnv. beindi þeirri áskorun til þeirra, sem eru fulltrúar fyrir kaupstaði, að vera víðsýnir og sýna sanngirni í

sambandi við þetta mál og vera með því að greiða dálítið fé til fyrirgreiðslu því, að menn í dreifbýlinu gætu fengið raforku. Þessi áskorun kom mér til að standa upp, þar sem ég er fulltrúi frá bæ, sem hefur fengið rafveitu.

Ég vil vera og tel mig vera frekar víðsýnan mann, og þess vegna er ég með því, að eitthvað sé gert til þess, að dreifbýlið geti komið sér upp rafstöðvum. Hins vegar er ég ekki svo víðsýnn eða sanngjarn, að ég geti gengið inn á þá fjáröflunarleið, sem bent er á í 3. gr. frv. og á þskj. 99. Það liggur svo í því, að ef ég lít á þá rafstöð, sem mitt bæjarfélag hefur komið sér upp, þá tel ég ekki sanngjarnt, að lagður sé, nýr skattur á þessa stöð og jafnvel ekki heldur á aðrar rafstöðvar, sem komið hefur verið upp með svipuðum kjörum —, þau hafa ekki alltaf verið svo góð sem skyldi.

Ef ég mætti minnast á rafveitu Akureyrar sem dæmi, þá var það svo þar, þegar áætlunin var gerð, að lagt var á tæpasta vað. Fyrst og fremst var reynt að leita að stöð, sem væri við hæfi bæjarins nú og í framtíðinni, en væri þó ekki dýrari en það, að hún yrði ekki bæjarbúum um megn. M. ö. o., það var lagt á tæpasta vað. Þegar áætlunin var gerð, þá mátti stöðin ekki vera of dýr, vegna þess að þá mundi hún hafa dregið þann dilk á eftir sér að afþyngja gjaldþoli bæjarbúa. Það var gert ráð fyrir, hvað rafmagnsnotkunin væri mikil, og þar á eftir athugað, hve miklir fjáröflunarmöguleikarnir væru, og síðan var samið við erlent firma. Nú var leitað til þingsins til þess að fá ábyrgð fyrir því erlenda láni. Það dróst að geta fengið hana, og það er reikningslega sannað, að fyrir það varð efni það, sem keypt var, um 200 þús. kr. dýrara. Svo kom verðfelling krónunnar, og það munaði rafstöðina um 300 þús. kr., og er þá þarna komin hálf milljón, enda fór stöðin talsvert fram,úr áætlun, varð 3 millj. í staðinn fyrir 1½ millj. kr. Svo kemur á eftir þessi nýja fjáröflunarleið, og eftir þeirri skýrslu, sem hv. þm. Seyðf. vitnaði í, þá mundi þetta hækka Akureyrarstöðina um 230 þús. kr. stofnkostnað. Þó að ég hafi hér aðeins rætt um eina stöð, þá geri ég ráð fyrir, að svipuðu máli gegni um aðrar stöðvar. Fara menn þá að sjá, að það er ekki undarlegt, þó að fulltrúar þessara kjördæma geti ekki gleypt við svona beitu.

Það má náttúrlega segja sem svo: Það er enginn vandi fyrir ykkur, þið getið bara hækkað rafmagnsgjaldið á almenningi. — Já, það er vitanlega það, sem yrði að gera, en þegar áætlunin var gerð, mátti segja, að gert væri ráð fyrir því hæsta gjaldi, Sem fært þótti að leggja á menn. Þá fer það að mælast misjafnlega fyrir, ef svo verður vegna nýrra skatta að hækka afnotagjöld almennings af rafmagni, sem þó eru mjög svo há fyrir.

Af þessum ástæðum verð ég að lýsa yfir því, að ég get ekki fylgt þeirri fjáröflunarleið, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. frv., þó að ég hins vegar sé með öðrum atriðum frv., sérstaklega 2. gr., að ríkið leggi fram 100 þús. kr. árlega í fyrstu 10 árin, og það sýnir, að ég vil ekki vera á móti málinu, en ég get ekki fylgt frv. eins og það er og ekki heldur brtt., sem snerta 3. gr.