10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

31. mál, raforkusjóður

Pétur Ottesen:

Ég greip fram í fyrir hv. þm. Seyðf. og sagði, að ég mundi gefa skýringu á því atriði. Um þetta 10 ára tímabil er það að segja, að ákvæði um það stóð áður í frv. En ég sagði, að till. hans miðuðu til þess að draga úr framlaginu til sjóðsins, sem kemur fram á tvennan hátt. Þessi skattur frá rafveitunum er ótímabundinn og hækkar eftir því sem árin líða. Og í öðru lagi miða brtt. hv. þm. Seyðf. að þessu með tilliti til þess, að tekjur sjóða gegnum framlag úr ríkissjóði eru, samkvæmt fenginni reynslu, ekki jafnöruggar eins og gera má ráð fyrir, að tekjur með skatti frá rafveitunum verði. Auk þess er þetta framlag tímabundið og fellur þá niður. Hv. þm. Seyðf. sagði, að það mætti á Alþ. breyta 1. hvenær sem væri um þennan skatt, eins og um ríkissjóðsframlagið. En fyrirkomulagið um þennan skatt felur í sér öryggi fyrir sjóðinn, þar sem eftir því er hægra fyrir rafveiturnar að greiða skattinn sem lengra líður og eftir því sem þessi fyrirtæki geta greitt meira af sínum skuldum. Venjulega batnar hagur þessara fyrirtækja, og nettótekjur þeirra verða meiri eftir því, sem árin líða, og geta þau því lagt meira af mörkum. Þess vegna eru brtt. hv. þm. Seyðf., þrátt fyrir till. hans um hækkað framlag úr ríkissjóði, til þess að rýra mjög gildi þessa sjóðs í framtíðinni.

Þá vildi hv. þm. Seyðf. véfengja það mjög hjá mér, að þessi vaxtamunur, sem hér er um að ræða, mundi ekki vega upp á móti þeim aðstöðumun, sem er á milli þeirra héraða, sem eiga eftir að fá rafveitur hjá sér, og hinna, sem þegar hafa komið upp rafveitum þeim, er hér koma til greina. En ég vil benda honum á, að reynslan sýnir, að rafveitur á þessum stöðum, sem skatturinn nær til, voru þannig byggðar, að möguleikar voru til þess að láta þær bera sig og borga sín lán. En um stöðvar, sem byggðar verða hér eftir í dreifbýlinu, eru þessi skilyrði ekki fyrir hendi, því að þörfin og viljinn til þess að koma upp rafveitum hefur engu síður verið fyrir hendi þar heldur en á þeim stöðum, þar sem rafveitur eru þegar komnar upp. Aðeins aðstöðumunurinn hefur skakkað leikinn um það, að þessum mönnum, sem búnir eru að koma upp rafstöðvum, hefur tekizt það, en hinum ekki.