28.03.1941
Neðri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Pétur Ottesen:

Herra forseti! Ég verð að segja, að það stingur dálítið í stúf við gang annarra mála hingað til á þessu þingi, þegar þetta mál skal nú knúð gegnum tvær umr. sama daginn hér í deildinni og síðan gegnum efri deild með svipuðum hraða. Kannske það sé vottur þess, að öðruvísi eigi nú að fara að taka á afgreiðslu þingmála en verið hefur?

Ég vildi benda hæstv. ríkisstj. á það, að á síðasta þingi var samþ. þál. um launamál og starfsmannahald ríkisins og stj. falið að láta framkvæma gagngerða endurskoðun á þeim málum. Þál. var flutt af fjvn. og samþ. í einu hljóði. Var þar einkum ætlazt til, að rannsakaðar væru launagreiðslur, sem falla ekki undir launalögin frá 1919. Það er vitanlegt, að ekki er nema lítill hluti af starfsfólki hins opinbera bundinn þessum lögum. Launakjör allra annarra eru ákveðin með reglugerðum, samningum og öðru slíku. Í öllu þessu er svo gífurlegur glundroði, að almennt er viðurkennt, að við það sé engan veginn hlítandi lengur. Þáltill. þessi var flutt með vitund ríkisstj. og í fullu samkomulagi við hana, og til þess var ætlazt, að endurskoðun þessari vær í lokið fyrir þing það, er nú situr, og þá legði stjórnin fram tillögur í þeim efnum fyrir þingið. Í öðru lagi var gert ráð fyrir, að tillögur um launagreiðslur yrðu miðaðar við eðlilegt verzlunar- og atvinnuárferði og við það, að hverjum manni verði ákveðin föst laun fyrir starf sitt, en horfið frá öllum aukagreiðslum. Þetta mál hefur sigið úr hömlu hjá ríkisstjórninni, án þess að nokkur afsökun komi fram, og þar sem miðað. skyldi við venjulegt árferði í tillögunum, er núverandi ástand engin afsökun á því, að þær eru ekki komnar. Það hefði hins vegar gert málið, sem liggur hér fyrir til umr., miklu skýrara og auðveldara, ef hverjum starfsmanni væru ákveðin föst laun, en horfið frá aukagreiðslum, svo að núverandi ástand og þörf launauppbóta hefði einmitt átt að reka á eftir ríkisstj. að reyna að koma þessu á fastan grundvöll. Ég verð að láta í .ljós óánægju mína og ég held óhætt að segja allra, sem stóðu að þáltill., yfir því, að þetta hefur ekki komizt í framkvæmd. Hér var fullkominn þingvilji fyrir málinu og fullkomin alvara að baki.

Þess er að vænta, að ríkisstj. sjái að sér í þessu efni og geri gangskör að því að koma betri skipun á þessi mál, því þetta ástand er engan veginn viðhlítandi.