29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

34. mál, vigt á síld

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv. mælir svo fyrir í 1. gr., að hér eftir skuli vega alla síld, sem seld er síldarverksmiðjunum til vinnslu eða lögð Þar upp til vinnslu, og í 3. gr. er kveðið svo á, að 1. skuli öðlast gildi 31. des. 1941.

Ég var ekki á fundi við 2. umr. og gat því ekki borið fram fyrirspurn til sjútvn., sem ég hafði þá hugsað mér. En nú sé ég, að hv. frsm. n. er ekki á fundinum. Samt tel ég rétt að bera fram þessa fyrirspurn nú, og beini henni til þeirra nm. annarra, sem eru viðstaddir.

En fyrirspurnin er um það, hvort n. hafi kynnt sér, hvort kleift reynist að fá þessi vogartæki það snemma, að unnt verði að fara eftir l. næsta ár, verði frv. samþykkt.

Mér virðist, að erfitt geti orðið að afla þessara áhalda nú, þar sem kaupa þarf þau frá útlöndum. En eins og kunnugt er, gengur seint að afgreiða margar pantanir.

Ég vildi því nú fá upplýsingar um, hvort hv. sjútvn. hefði tekið þetta atriði til athugunar.