13.06.1941
Efri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

34. mál, vigt á síld

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál hefur nú heldur verið að flækjast hér fyrir á dagskrá dagana á undan, og hefur forseti látið í ljós, að því mætti ekki ráða til lykta fyrr en hæstv. atvmrh. (ÓTh) yrði viðstaddur, og mun það ekki geta tekizt í dag heldur. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er málið nógu ljóst eða nauðsyn þess, og vildi ég drepa á nokkur atriði. En mér þykir illt, að það fari í vöxt, að mál komist ekki áfram sakir þess, að hentisemi einhvers af ráðh. leyfir honum ekki að rækja þingið. Ég álít, að þingið eigi að leggja þeim lífsreglur, en ekki þeir því. Málið lá að vísu alllengi hjá n., en var afgreitt 26. maí, eins og sést á nál. 656. Hún var sammála um frv. í öllum aðalatriðum, — það eigi að taka upp þá reglu að vega síld til bræðslu. Eini ágreiningurinn er sá, að einn nm. dregur í efa, að hægt sé að afla vogartækjanna til verksmiðjanna í tæka tíð. En það ætti a. m. k. að vera hægt fyrir síldarvertíð 1942, svo að það er ársfrestur, sem þurfa mun. Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði hefur tekið upp þá aðferðina að vega síldina, og eins er á Raufarhöfn og a. n. l. í Rauðku á Siglufirði. Annars staðar, svo sem á Djúpuvík og Hjalteyri, þar sem sjálfvirku löndunartækin eru, hefur síldin alltaf verið mæld, eins og kunnugt er. Mikill ágreiningur er um þetta milli verksmiðjanna og hins vegar sjómanna og útgerðarmanna, sem síldina selja. Fullyrt er, að af síld, sem eitthvað er farin að pressast, fari 8–10% meiri þungi í málin en vera ber. Á skipi, sem leggur á land 15 þús. mál, munar þetta allt að 1500 málum, eða allmiklu fé. Hins vegar má segja, að af nýveiddri, spriklandi síld úr sjónum sé erfitt að fylla svo málin, að þau taki 135 kg., eins og vera ber, svo að kvartanir um ónákvæmni mælinganna koma frá báðum aðilum. Sjómenn og útgerðarmenn telja sig svikna á þessu, því að eiginlega eru lagaákvæði um, að vega skuli síldina. Með tilskipun frá 1925 um vog og mælitæki, 11. gr., er þess krafizt, að höfð skuli sérstök mælieining, 150 lítrar, eða síldin vegin. En 1930 eru sett l. á Alþ. um vigt á síld, en um framkvæmdina var tekin upp sú regla, að „öll síld, sem seld er bræðsluverksmiðjunum til vinnslu, skal vegin, ef seljandi óskar þess.“ Þetta nota verksmiðjurnar sér. Það getur t. d. munað 100 kr. á „premíu“ hvers háseta á skipi, sem landar 15 þús. mál, hvort vegið er eða mælt, og enn meira munar sjómenn á bátum með hlutaskipti. En menn þora ekki að krefjast, að vigtað sé, því að þá er óvíst, hvort þeir komast nokkurn tíma að með síld sína. Þannig geta verksmiðjurnar hljóðalaust haft að engu 1. frá 1930 — og verr en það, með þeim 1, var tilsk. frá 1925 afnumin, svo að nú gilda engin l. eða fastar reglur um mæling síldar. Dómstólar yrðu líklega að vísa frá málum, sem risu út af rangri mæling hennar, því að ekki er sagt í 1., hve stór mælitækin eigi að vera. Verst af öllu er, að hvorugt sé lögboðið, svo sem nú er, vog eða mæling. En miklu réttara álít ég að vega hana. Þá er líka öllum verksmiðjum gert jafnt undir höfði, engin sérréttindi og þess vegna engar þrætur um mælinguna. — Þannig horfir málið við, og ég tel illa farið, að það dragist lengur.