29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (3116)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Mér datt í hug, út af ræðum hv. 1. þm. Árn. og hv. 8. landsk., að það vær í eiginlega líkara því, að þeir væru að halda skálaræður í veizlu, sem tileinkuð væri Guðmundi í Nesi, heldur en að þeir væru að ræða um frv. það, sem hér liggur fyrir. Nú veit ég að vísu, að Guðmundur er alls góðs maklegur, en ég tel engar líkur til, að þetta sé svo, að hann heyri það, sem hér fer fram. En ég verð að segja það, að það fer að verða nokkuð lítið varið í að vera sérfræðingur og ráða einhverjum sérstökum málum, ef yfirleitt á ekki að taka tillit til þess, sem sandgræðslustjóri segir um mál eins og þetta. Sandgræðslustjóri er, eins og margir hv. þm. vita, viðurkenndur einhver grandvarasti og samvizkusamasti maður, sem ríkið hefur í sinni þjónustu, auk þess sem hann er sérfróður um þessi mál, og það er vitað, að hann leggur ekki annað til þessara mála. en það, sem hann telur málinu fyrir beztu. Ég tel því, að það sé fjarri öllum rétti að jafna því saman, sem bóndinn í Nesi segir sem rök fyrir því, sem hann vill fá, og hinu, sem sandgræðslustjóri segir um þetta mál. Mér dettur ekki í hug að áfellast bóndann í Nesi, þó að hann hafi löngun til þess að fá meira land til umráða. Hver okkar gæti vel tekið upp á því. En hitt tel ég fjarri öllu lagi, að Alþ. geti borið saman rök, sem hann færir fyrir því að fá landið keypt, og hitt, sem sandgræðslustjóri segir í sinu ýtarlega erindi. Það er ekki rétt eins og sakir standa nú að afhenda landið. Það er þetta, sem ég vildi fyrst og fremst benda á. Ég verð að segja það, að ég tel það nálgast aðdróttanir í garð sandgræðslustjóra, þegar frsm. minni hl. segir, að það muni vera um svo mikið kapp að ræða fyrir sandgræðslustjóra, að hann muni ekki vera réttsýnn um málið. Það lá í orðum þeirra hv. þm., sem töluðu af hálfu minni hl., að sandgræðslustjóri mundi hafa sérstaka löngun til þess að níðast á þessum bónda, þar sem þeir töluðu um kapp af hans hendi í þeim tilgangi að hindra það, að bóndinn fengi landið til umráða, og létu jafnvel orð falla um það, að engin hætta stafaði af uppblæstri. Ég mótmæli þessu, ef það á að skoða sem aðdróttun í garð embættismanns ríkisins. Ég þekki sandgræðslustjóra svo vel, að ég veit, að hann lítur ekki á málið eingöngu sem fjárhagsmál, heldur á hitt, hvað hann álítur, að rétt sé að gera vegna sandgræðslunnar. Hitt skal ég viðurkenna, að sandgræðslustjóri er kappsfullur fyrir hönd sandgræðslunnar. Hann vill halda vel á því fé, sem búið er að leggja til sandgræðslunnar, og hann vill ekki að sandgræðslan sé eyðilögð með því að taka land of fljótt í notkun, sem búið er að girða. En ég tel þetta einmitt hans beztu kosti, því að það má telja víst, að hægt sé að eyðileggja á stuttum tíma land, sem tekið hefur verið til sandgræðslu, ef það er of fljótt tekið til gegndarlausrar notkunar, ekki hvað sízt, ef um sauðfé er að ræða, sem á þessum stað er sérstaklega margt. Hv. frsm. minni hl. lagði áherzlu á það, að þar sem nú lægi fyrir þinginu frv., sem gerði ákvæði sandgræðslul. ýtarlegri í vissum tilfellum, þá væri minni ástæða til þess að vera á móti þessu frv. Það er fyrst um þetta að segja, að frv. um sandgræðslu er ekki orðið að 1., en hitt er vitanlegt, að það er algerlega eins hægt að eyðileggja svæði, sem að nokkru leyti er gróið upp, með því að taka það of fljótt í notkun, þó að ákvæði l. verði gerð ýtarlegri. Það er ætlazt til þess, að þær ráðstafanir, sem í frv. greinir, verði ekki notaðar nema það sé alveg sýnilegt, að um stórhættu sé að ræða vegna sandfoks. Hv. frsm. minni hl, lagði áherzlu á það, að bóndinn í Nesi mundi alls ekki hafa farið fram á þetta, ef hann héldi, að hætta gæti af þessu stafað á þann hátt, að landið blési upp. Ég fellst á þetta, að bóndinn í Nesi muni líta þannig á, en hins vegar ber að líta á álit sandgræðslustjóra, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það ber að leggja meira upp úr hans áliti. Þá er að nefna hitt atriðið, sem hv. frsm. minni hl. og hv. 8. landsk. lögðu sérstaka áherzlu á, að hér sé aðeins um heimild að ræða fyrir ríkisstj. og þess vegna væri áhættulaust að samþ. frv. Það er eins og þessir hv. þm. séu að friða samvizkuna með því að telja sér trú um, að það sé óhætt að samþ. frv., ef það er sem heimild, og velta síðan ábyrgðinni yfir á ríkisstj. Ég get ekki skilið ummæli þeirra öðruvísi. Það er enginn vafi á því, að það liggja þær upplýsingar fyrir í þessu máli, sem hægt er að fá. Ég veit ekki, hvert ríkisstj. ætti að fara annað en til sandgræðslustjóra til þess að fá þær réttu upplýsingar, og þær liggja nú þegar fyrir. Ég þekki sandgræðslustjóra svo vel, að ég veit, að hann segir ekki eitt í dag og annað á morgun. Þess vegna mundi ríkisstj. fá þær sömu upplýsingar hjá honum og landbn. fékk, þegar hún leitaði álits hans, og álít ég því, að fyrir liggi allar þær upplýsingar, sem fáanlegar eru í málinu. Með samþykkt þessa frv., þó í heimildarformi sé, er það beinlínis fyrirskipað, að ríkisstj. selji jörðina, það er a. m. k. ómögulegt fyrir ríkisstj. að líta annan veg á málið en að það sé vilji Alþ. Þess vegna er það ekki annað en tilraun til að koma málinu fram með fölskum forsendum, þegar hv. ræðumenn eru að henda á það, að hér sé aðeins um meinlausa heimild fyrir ríkisstj. að ræða. Eins og málið liggur fyrir, með þeim upplýsingum, sem getið er um, er ekki um annað að ræða en að þetta verði að skoða sem beina skipun til ríkisstj. um að framkvæma málið. Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, er rétt að minnast á það atriði, að menn hafa bent á það, að hér væri um mjög smávægilegt mál að ræða. En þó að svo sé, er þess að gæta, að málið getur haft stórvægilegar afleiðingar, og minni hl. landbn. ber að gæta þess öðrum fremur, að margir bændur á sandgræðslusvæðunum munu líta þetta mál svipuðum augum og bóndinn í Nesi.

Ef þetta mál næði fram að ganga, er hætt við því, að kröfur kæmu fram um það frá þeim, sem hafa fengið slík landsvæði til umráða, að Þeir fengju svipuð hlunnindi og bóndinn í Nesi. Þá gæti svo farið, að það starf, sem unnið hefur verið í sandgræðslumálunum undanfarna áratugi, væri eyðilagt að meira eða minna leyti. Þess vegna er það, að þó að ég þekki ekki sérstaklega til þessa einstaka tilfellis, er ég ákveðinn í því að fylgja þeim till., sem sandgræðslustjóri hefur gert hér, einkanlega þegar þær eru studdar af hreppsnefnd Selvogshrepps og meginþorra bænda í hreppnum sömuleiðis.