29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (3117)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Helgi Jónasson:

Þetta verða aðeins örfá orð, því að hv. frsm. n. er búinn að tala um það, sem ég vildi segja. Það er ekki langt síðan farið var að hefta sandfok hér á landi, það eru aðeins örfá ár, og það hefur verið við mjög ramman reip að draga. Við verðum enn í dag að sjá fram á mikið skilningsleysi þeirra manna, sem löndin eiga. Það er ekki ný bóla, sem hér er á ferðinni, að bóndi í Selvogi óskar eftir því, að hann fái sandgræðslusvæðið keypt. Þetta hefur alls staðar verið svo, a. m. k. á þeim jörðum, sem ég þekki til, að eigendum jarðanna hefur fundizt þeir missa allt of mikið land. Menn hafa líka haft mjög horn í síðu sandgræðslustjóra, af því að þeir hafa talið hann ágengan til lands, og það kann vel að vera, að svo sé, en þeir, sem hafa séð árangurinn af starfi hans, líta málið öðrum augum. Ég hef ekki nema einu sinni komið í Selvog, og það var ekki fyrir löngu síðan, í vondu veðri. En ég sá þó það, að þarna hefur sandurinn herjað mjög á þetta fagra hérað. Fyrir vestan þorpið hefur Sandgræðslan girt fyrir fáum árum, og hefur það sjáanlega borið góðan árangur. Ég skal játa, að ég er ekki nógu kunnugur fyrir austan þorpið til þess að dæma um það, hvernig þar er umhorfs. Þó minnir mig, að það standi í grg., að land þetta hafi verið örfoka fyrir nokkrum árum. Hvernig haldið þið nú, að þetta land liti út, ef það yrði beitt? Það vita allir þeir, sem séð hafa, hvernig sandfok hagar sér, að eftir örfá ár mundi þetta land örfoka og sandi orpið. Ég held þess vegna, að það sé mikill misskilningur hjá þessum duglega bónda í Nesi, sem ég veit, að er mikill bóndi og þarf landsins með, að einblína svo mjög á það að fá þetta land. Ég held, að hann ætti að athuga það, hvað hreppsfélaginu og honum sjálfum er fyrir beztu í þessu máli. Hv. frsm. minni hl. minntist á það, að það mundi vera pólitík í þessu máli. Ég segi fyrir mig, að mér er nákvæmlega sama um það, hvort það er sjálfstæðismaður eða einhver annar, sem fylgir þessu máli, ég hef þá skoðun, að þetta mál verði að fella. Það er alveg sýnilegt, að hreppurinn allur yrði í stórhættu af sandfoki, ef farið yrði að taka sandgræðslugirðinguna upp og beita þetta svæði.