29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Gísli Sveinsson:

Það má telja með ólíkindum, að þetta mál skuli valda svo miklu róti hér á Alþ. sem raun ber vitni, þar sem um það eitt er að ræða að heimila ríkisstj. að selja skika af landi. Það hefur verið mjög títt undanfarin ár að setja ákvæði um kaup og sölu lands, og yfirleitt hefur verið svo mikið rót á jarðamálum landsins, að það væri ekki úr vegi, að komið væri einhverjum friði þar á. Á þessu þingi eru mörg slík mál á döfinni um kaup og sölu lands í ýmsum tilgangi.

Hv. síðasti ræðumaður þóttist vera ákaflega sleginn yfir því, hve hér væri mikið í húfi með samþykkt þessa heimildarfrv. Ég fyrir mitt leyti tel það enga goðgá, þótt ríkisstj. sé heimilað eitt og annað. Nú stendur svo á, að mikill meiri hl. Alþ. styður hæstv. ríkisstjórn, og ætti það traust, sem hún nýtur, ekki að rýrna við það. En svo virðist sem ýmsir hv. þm. beri ekkert traust til stj. bæði í þessu máli og öðru, þótt ég og mínir líkar treysti henni í nokkru enn. Mun ég og hætta hér á, að ríkisstj. farnist vel um afgreiðslu þessa máls.

Mér er alveg óskiljanlegt það kapp hjá hv. andmælendum frv., þar sem hér er aðeins um heimild að ræða, og hefur mér virzt, að þar lægju ekki full rök til. Ég vil taka undir þau ummæli hv. þm., að fullt tillit beri að taka til álits sérfræðinga, en ég veit ekki betur en að sumir hv. þm., sem hér tala hæst um óskeikulleik sérfræðinganna, hafi fyrr á árum verið á dálítið annarri skoðun, því að sérfræðingar og kunnáttumenn hafa ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá þeim sömu þm.

Ég hef nú aldrei verið svo æstur sérfræðingamaður, að ég hafi ekki getað séð kost og löst á þeim, en það skýtur dálítið skökku við, þegar andstæðingar sérfræðinganna halda fram óskeikulleika sandgræðslustjóra. Nú efar það enginn, að sandgræðslustjóri sé kunnáttumaður í sinni grein, en hitt er og alkunna, að hann er mikill ofurkappsmaður, þegar því er að skipta, og á mjög bágt með að láta af því, sem hann heldur fyrir satt. Þetta er kostur undir vissum atvikum, en það getur líka verið galli.

Það er á engan hátt verið að ganga á rétt sandgræðslustjóra, þótt það sé tekið til athugunar, hvort öll gögn í þessu máli mæli með því, að sandgræðslustjóri hafi svo rétt fyrir sér í öllum atriðum, að þeim megi ekki hagga.

Það má ekki telja það sem aðdróttanir í garð sandgræðslustjóra, þótt menn geri einhverja fráskák frá að trúa hverju orði, sem hann lætur frá sér fara, líka á prenti. Mér skilst, að þótt menn geti sagt, að mál þetta sé sótt af kappi af hálfu andmælenda frv., þá sé kapp líka af hinna hálfu, og virðist mér, að það, sem er að gerast í Selvogi, sé ekki til eftirbreytni. Það mun vera talsvert til í því, sem Nesbóndinn skrifar, og er það ljót frásaga. Hún sýnir, að hér er ekki einungis ofurkapp, heldur líka persónuleg illindi, en það mega menn ekki láta blinda sig. Ég vil ekki segja, að þeir í Selvogi öfundist yfir velgengni Nesbóndans, en hún er ekki nein tilviljun, heldur er hún grafin upp úr landinu með ævilöngu erfiði, allt frá æsku hans austur í Skaftafellssýslu, þar til nú, að hann hefur náð háum aldri. Mér finnst það gleðilegt. þegar atorkumönnum vegnar vel, og mér finnst gleðilegt að heyra, hversu stórt bú hann hefur getað rekið þarna í sandauðninni. Og vilji menn vita, hvernig hann hefur setið jörðina, þá er þar skemmst af að segja, að á þeim árum hefur gróðurlendið, tún og ræktað land, farið úr fáum köplum í hundruð kapla. Gerist þetta af sjálfu sér á örfoka jörð? Ég segi nei, en samt leyfir sandgræðslustjóri sér að segja, að þetta mál sé „augnablikshagsmunir þeirra einstaklinga, sem búa rányrkjubúskap á jörðum eins og Nesi í Selvogi“. — Ef sandgræðslustjóri væri hér viðstaddur, mundi ég segja, að þetta væri ósvífið og honum ósæmandi. Ofurkapp hans hleypur með hann í gönur, því verkin tala á móti honum, — hér er ekki um rányrkjubúskap að ræða. –Þannig mega menn ekki trúa öllu, sem jafnvel sandgræðslustjóri segir. — Og hann bætir við, með leyfi hæstv. forseta: „Það er sorglegt, að bóndi, sem á 4 uppkomna syni, eins og bóndinn í Nesi, skuli ekki geta séð aðra atvinnumöguleika á jörð sinni en sauðfjárrækt, sem er rekin á útigangi að mestu leyti, en lítið á heygjöfum. Skyldi vera ógerlegt fyrir bóndann að byggja búskapinn meira á ræktun landsins, en minna á beit?“

Hvað hefur bóndi þessi gert? Vissulega hefur hann ræktað jörð sína, þótt hann hafi notað beit, og mér þætti gaman að vita, hvernig menn færu að því að sanna það, að hann hafi niðurnítt jörð sína. Orð sandgræðslustjóra eru því vægast sagt óviðeigandi. Þar fyrir utan er það ekkert annað en vitleysa, að það sé nokkur óvirðing í því að stunda sauðfjárrækt á Íslandi. Á hverju hafa bændur lifað fram að þessu? Hafa þeir lifað á kúarækt?

Til ámæla ber hv. fyrri þm. Skagf. hæstv. forseta það á brýn, að hann ljái sig til flutnings þessa máls. Það sýnir, að sessunautur minn er kominn út fyrir það svið, sem Alþingi leyfir að rökræða mál á, eða honum er ekki eins kunnugt um það og vera skyldi, að þm. ljái sig til flutnings einhvers máls.

Ég tel, að þessi beiðni, sem kom fram í frv., sé þess fyllilega verð, að hv. d. samþ. hana og samþ. frv. óbreytt, eða heimili hæstv. ríkisstj. að gera þetta, ef henni þykir það þess vert. Ég tel, að þessi maður, sem hér um ræðir, hafi að öllu leyti sýnt það, að hann sé þess verður, að honum sé sinnt og þetta muni í hans höndum blessast eins og hans búskapur hefur gert fyrir dugnað hans, áhuga og kunnáttu. Hins vegar þykir mér það um of að ætlast til þess, þó hreppsnefnd Selvogshrepps viti, hvernig sambúðinni þarna er háttað, að hún eigi að ráða úrslitum um þetta mál. Hún getur vel verið góð, en þarf heldur engan veginn að vera óskeikul. Það eru kannske 3 eða 4 menn í þessum stöðum, og þeir geta verið góðir fyrir sig, og þeir geta líka allir verið á einu bandi. En við dæmum ekki hreppsnefndina öðruvísi en menn, og þeim getur að sjálfsögðu skjátlazt. Ég sé ekki, að frekar sé mark á henni takandi heldur en almennum mönnum, og beiðni Nesbóndans er studd hér af fleiri mönnum en honum sjálfum. Ég vildi því eindregið mæla með því, að þetta saklausa frv. næði fram að ganga, því ég tel það að öllu leyti réttmætt.