29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (3121)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Sveinbjörn Högnason:

Þeir, sem til þekkja og út í sandfok hafa komið, vita, að það er eitt versta veður, sem maður getur lent í. Svo virðist, að það hafi komið fyrir þennan háttv. þm., að hann hafi lent í þessu moldviðri. Ég vil segja það, að mér finnst, að ekki sé laust við það, að verið sé að þyrla upp svipuðu veðri með flutningi þess máls, sem hér er á ferðinni. Ég verð að segja það, að mig stórfurðar á því, hvernig rætt hefur verið um þetta mál af mönnum, sem að nokkru leyti þekkja til sandfoks, eins og hv. þm. V.-Sk., og hvílíkt ábyrgðarleysi er á bak við þau orð, sem flutt hafa verið um þetta mál. Það er ekkert smámál, sem hér er um að ræða. Hér er um að ræða eitt af stærstu átökunum, sem gerð hafa verið á síðustu árum, og hér er í húfi, hvort halda á áfram að friða landið, græða það og hefta sandfokið, eða hvort snúa á við á þeirri braut. Ég fyrir mitt leyti tek alveg undir orð hv. fyrri þm. Skagf., að ég harma það mjög, að hæstv. forseti þessarar d. skuli hafa orðið til þess að bera slíkt mál inn í hv. deild, sem ég eftir minni reynslu tel eitt af leiðari málum, sem komið hafa í hv. deild, svo fullt er það af síngirni, skammsýni og yfirgangi.

Það er ómögulegt að neita því fyrir þá, sem til sandfoks þekkja og vita, hvað gert hefur verið á síðari árum til að stemma stigu fyrir því, að þau orð, sem ég hef haft um þetta, eru sízt of hörð. Við, sem búum á þessum uppblásturssvæðum, þekkjum það máske bezt, hvað hættan af sandfokinu er mikil. Það hljóta allir að sjá, að sandgræðslan er mikið nauðsynjamál, og það væri illa farið, ef stór landsvæði, sem búið er að verja miklu fé til að græða, yrðu aftur látin fara undir örtröð.

Ég vildi aðeins segja nokkur orð vegna þeirra orða, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði um það, að ekki væri aðeins um að ræða þetta frv. hér og þessa landspildu í Selvogi, heldur væri með þessu verið að skapa fordæmi, sem vitanlega leiddi til þess, að skammsýnir, en duglegir bændur vildu fá allt sitt land, áður en búið væri að rækta það að fullu. Af þessu mundu þeir hafa augnablikshagsmuni, en með þessu legðust sandgræðslublettirnir í auðn.

Ég verð að segja það, að ég stóð sérstaklega upp vegna þess, að það stendur nákvæmlega eins á með þá jörð, sem ég bý á, Breiðabólstað í Fljótshlíð, eins og Nes í Selvogi, að fyrir 12 árum var hún sett í sandgræðslu og hefur verið það síðan. Landið hefur gróið upp og er nú afbragðs beitiland, og nú er hægt að heyja þar fleiri hesta. Vitanlega kæmi það sér vel fyrir mig að geta fengið það aftur, því það hefur framfleytt áður 700 til 800 fjár. Ég skal ekki neita því, að fyrir mig sem ábúanda jarðarinnar væri gott að fá þetta, sem mundi gefa mikinn arð í aðra hönd á stríðstímum, þegar svona erfitt er að fá fólk. Það er ákaflega girnilegt fyrir menn að fá svona lönd til afnota, sem geta framfleytt fleiri hundruðum fjár, til þess að geta byrjað aftur rányrkju, eins og ég veit, að ég gæti gert á mínu landi, og mundi vitanlega gera, ef hæstv. ríkisstj. teldi það rétt og sandgræðslan væri einskis virt. Það væri í þessa efni mjög eðlilegt, að hið opinbera leyfði það á sínum jörðum, því það væri engin sanngirni að leyfa einum það frekar en öðrum. Mig undrar það, þegar hv. þm. V.-Sk. fer að mótmæla því hjá sandgræðslustjóranum, að það sé stundað rányrkja á þessu landi. Hvað er rányrkja, ef ekki þetta? Ég veit það með vissu, að þó þarna sé bráðduglegur bóndi, þá er landið ekki svo mikið ræktað, að það framfleyti því fé, sem er framfleytt á jörðinni. Það sér hver heilvita maður, að þetta er rányrkja á hæsta stigi, því með þessu yrði að mestu leyti tekinn upp sá litli gróður, sem fyrir er, og varnað því, að sandgræðslunni verði haldið áfram.

Það má vel vera, að maðurinn, sem þarna er og hefur óskað eftir að þetta yrði flutt, sé alls góðs maklegur og það sé margt gott um manninn að segja. Ég skal ekkert um það segja. En ég vil aðeins segja það, að ef margt er gott um manninn að segja, þá er hann þess verður, að Alþ. hafi vit fyrir honum, hvað sé bezt fyrir framtíð jarðar hans og sveitarinnar, þar sem hann býr og starfar. Ég þori að fullyrða, eftir því sem ég þekki sandgræðslustjóra, að fyrir Nes í Selvogi og Selvoginn er bezt, að sandgræðslunni sé haldið áfram, en ekki hörfað til baka og sandinum fengið það aftur, sem búið er að grafa upp með miklu fé og erfiði.

Að lokum vil ég segja það, að þó að til séu kannske einhverjir hér á Alþ., sem ekki vilja taka till, sandgræðslustjóra og sérfræði hans til greina, þá vona ég samt, að til séu menn, sem taka vilja tillit til þess, að mikill meiri hl. íbúa þessarar sveitar, sem á við sandfok að búa, mælir eindregið á móti því, að þetta sé gert. Það er þannig aðeins í þágu þessa eina manns, sem lætur stundarhag ganga fyrir hagsmunum allrar sveitarinnar og framtíð hennar og jarðarinnar, ef frv. verður samþ. Ég vil aðeins segja það, að ef afgr. á mál eins og þetta frá Alþingi, þá er hér á ferðinni eitt af hættulegustu málum, sem borið hefur verið fram í þessari hv. deild. Menn skyldu vara sig á því að byrja undanhald á eftir sókninni gegn því, að sandurinn legði heilar sveitir algerlega í auðn, eins og áður var komið.