11.03.1941
Neðri deild: 15. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (3137)

47. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Ísleifur Högnason) :

Enda þótt ekki sé nema eitt ár liðið síðan hin nýja tollskrá var samþ., hefur komið í ljós, að hún þarf að ýmsu leyti leiðréttingar við. Ástand það, sem skapazt hefur í landinu, hefur leitt það af sér, að nauðsynlegt er að fella niður ýmsa af þeim tollum, sem lagðir voru á með hinni nýju tollskrá. Það er ekki nóg með það, að almenningi í landinu þyki þetta ástand óþolandi, að stórgróðamenn eru skattfrjálsir, meðan alþýðan er skattlögð meira en nokkru sinni fyrr, heldur hafa einnig blöð stjórnarfl. haldið því fram, að það bæri að gera eitthvað í þessum málum. Það hefur þó ekki komið neitt fram í þinginu, sem bendi til þess, að þetta eigi að verða annað en orðin tóm.

Það vildi svo til, þegar þetta frv. var í prentun, að þá fór fram 1. umr. fjárl. Mig minnir, að hæstv. viðskmrh. léti þess þá getið, að nauðsyn bæri til þess að endurskoða skattalöggjöfina, og það bæri að afnema tolla af nauðsynjavörum fólksins, og ég geri ráð fyrir, að hann hafi talað fyrir hönd Framsfl. Í þessum málum. Einnig sama dag talaði hv. þm. Seyðf. um það, að nauðsynlegt væri að lækka tollana. Í 2. gr. hinnar nýju tollskrár var ákvæði um stundarsakir um það, að fjmrh. væri heimilt að draga frá farmgjöldum svo háa hundraðshluta sem hækkun gjaldanna nemur af völdum stríðsins. heimild þessi hefur ekki verið notuð, sem einhverjir þm. hafa þó ef til vill ætlazt til að yrði. Það er einnig ýmislegt fleira, sem þarf að leiðrétta, í þessari tollskrá. Eftir að hin nýja tollskrá kom til framkvæmda, þá var reiknaður hæsti verðtollur af flutningsgjöldum, þó að fleiri en ein vörutegund væru í sömu umbúðum. Ég veit dæmi þess, að af 15 kr. vörusendingu munaði slík hækkun 40 kr., vegna þess að reiknaður var hæsti verðtollur, í stað þess, ef reiknað hefði verið hlutfallslega samkvæmt tollskránni af þessum vörum. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, vísa til greinargerðar og óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.