12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

53. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Flm. (Pétur Ottesen) :

Það hefur mjög verið kvartað undan því að undanförnu og sízt að ástæðulausu, að sú sjóðsstofnun, sem fyrst og fremst ætti að vera til stuðnings og fyrirgreiðslu á því, að hægt væri að auka og bæta fiskveiðiflota landsmanna, væri þess vanmegnug að inna af hendi þetta mikilvæga hlutverk í þjóðfélaginu. Eftir því, sem lengra líður; verður þetta æ tilfinnanlegra, því eins og kunnugt er, þá er allmikill hluti af skipaflotanum orðinn mjög gamall og auk þess miklar líkur til þess, að þróunin á þessu sviði feli það í sér, að heppilegra væri að breyta til um fyrirkomulag og gerð ýmissa þeirra veiðiskipa, sem við nú notum til fiskveiða. Á þetta ef til vill ekki sízt við um stærsta og dýrasta hluta veiðiskipanna, sem sé togarana. Ég ætla, að það sé álit margra útgerðarmanna og sjómanna, að allar líkur bendi til, að stórir vélbátar, 80–150. smálesta, muni henta betur en togarar. Hvernig viðhorfið í þessu efni kann að verða eftir stríðið, veit enginn, en reynsla undanfarinna ára bendir í þessa átt.

Þegar um það hvort tveggja er að ræða að fylla í skörðin fyrir þá rýrnun, sem þegar er orðin á fiskiflotanum og mikil hætta er á, að á honum verði á þessum tíma, og svo hitt, að breyta úreltri skipagerð í nýtt horf, sem betur hentar, þá er það augljóst mál, hve mikil nauðsyn er á því, að til sé fjársterk lánsstofnun, sem lagt getur fram fé í þessu skyni og þannig úr garði gerð, að lánskjörin séu við hlítandi. Til þess að þetta hvort tveggja megi takast, þarf að gera verulega mikið átak til þess að bæta aðstöðuna með því að efla fiskveiðasjóðinn.

Við vitum ekkert um, hver muni verða örlög skipaflota okkar í þeim hildarleik, sem nú er háður, bæði á sjó og í lofti, en hvað sem því líður, er ekkert líklegra en að upp úr stríðinu verðum við að gera stórfelldar breytingar á flotanum til þess að geta orðið samkeppnisfærir við keppinauta okkar á erlendum markaði.

Ég hef í þessu frv. lagt til, að fiskveiðasjóðsgjaldið, sem rennur í fiskveiðasjóð, sem nú er 1/8%, verði hækkað upp í 2%. Þetta er á venjulegum tímum nokkuð þungur skattur á útgerðina, eins og gera má ráð fyrir, að hagur hennar standi þá, en hins vegar er á það að líta, að verja á þessum skatti til þess að bæta. aðstöðu til þess að efla fiskiflotann.

Ég er ekkert hræddur um það, að þeir menn, sem eiga að inna þessa skattgreiðslu af hendi, ef þeir á annað borð geta það, að þeir kveinki sér við því, því að þeir skilja manna bezt nauðsynina á því að efla fiskveiðasjóðinn. Þetta gjald, 1/8%, hefur náttúrlega ekki dregið sjóðinn neitt verulega miðað við þörfina. Það hefur verið um 52 þús. kr. á ári að meðaltali á 9 undanförnum árum, en miðað við núverandi ástand er það auðvitað miklum mun meira. En aftur á móti, ef gjald þetta yrði hækkað, eins og lagt er til í þessu frv., má gera ráð fyrir, eftir reynslu í þessu efni, að sjóðurinn mundi hljóta 800 þús. kr. tekjur árlega, miðað við venjulegt árferði, en auðvitað miklu meira eins og nú er. Með þessu mundi verða stigið allverulegt spor til eflingar sjóðnum frá því, sem verið hefur að undanförnu, þótt hitt sé vitað, að þetta engan veginn gerir meira en að hrökkva til, þegar tímarnir verða þannig, að hægt verður að sinna nauðsynjamálum útgerðarinnar, með því að efla og endurbæta flotann og gera þær breytingar á honum, sem reynslan sýnir að hagkvæmast er.

Þá má og geta þess að svo var ákveðið í lögum um fiskveiðasjóð, að ríkissjóður ætti að leggja fram 1 millj. kr. til sjóðsins á allmörgum árum, og átti þessari greiðslu að vera lokið á yfirstandandi ári. En í stað þess er nú búið að greiða aðeins um 1/10 hluta þeirrar upphæðar, eða um 90 þús. kr., og hefur þetta hnekkt mjög starfsemi sjóðsins.

Nú er þess að vænta, að þær rúmu kringumstæður, sem virðast vera í augnablikinu hjá ríkissjóði, verði notaðar til þess að inna af hendi það, sem vangreitt er af þessari upphæð. Eins og sakir standa nú, er mér tjáð af manni, sem ég hef haft samráð við um flutning þessa máls, sem er skrifstofustjóri fiskveiðasjóðs, Elías Halldórsson, að undir venjulegum kringumstæðum hafi sjóðurinn ekki haft yfir að ráða til útlána nema um 200 þús. kr. á ári. Enn skuldar sjóðurinn 1/2 milljón króna af láni, sem tekið var handa honum í Danmörku, en af því verður hann að greiða um 120 þús. kr. á ári í afborgun og vexti. Þessar greiðslur taka til sín drjúgan skerf af árlegum tekjum sjóðsins, þangað til lánið verður að fullu greitt.

Mér þykir svo ekki ástæða til að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál, að öðru leyti en því, að ég vildi benda á það, að mér skilst, að vel gæti komið til mála í sambandi við þá hækkun á þessu fiskveiðasjóðsgjaldi, sem hér um ræðir, að það væri tekið til athugunar að fella niður það gjald, sem rennur nú til fiskimálasjóðs, en það er ½% af verðmæti útfluttra sjávarafurða, með nokkrum undantekningum. Ég vil skjóta því til hv. sjútvn., að hún taki til athugunar, hvort þessi skattur gæti ekki fallið niður, því nú mun starfsemi fiskimálasjóðs snúið upp í lánastarfsemi, en að miklu eða öllu leyti horfið frá þeirri styrktarstarfsemi, sem rekin var um nokkurt skeið. Enn fremur er það einnig athugandi, ef hér þykir of hart að gengið um álögur á útgerðina, og ég viðurkenni það fyllilega, að hér er um að ræða háan skatt, að lækkaður verði skattur sá til ríkisins, sem nú er tekinn af útfluttum sjávarafurðum, en sá skattur nemur 1½%, þegar frá er dregið síldarmjöl, óverkuð síld og fiskmjöl.

En sem sagt, ég vænti þess fullkomlega, að gott samkomulag geti tekizt um að efla fiskveiðasjóðinn, með hverjum hætti, sem það er gert. Það eru auðvitað til fleiri leiðir en þessi, sem hér er stungið upp á. Ég hygg, að því megi treysta, að fullur skilningur sé fyrir hendi um að gera þurfi öflugt átak til að efla þennan sjóð. Þörfin fyrir það er mjög brýn og aðkallandi. Ég geri að tillögu minni, að málinu verði vísað til sjútvn.