12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (3144)

53. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil skýra hv. þm. frá því, áður en mál þetta fer til 2. umr. og n., að frv. um þetta sama efni liggur nú fyrir sjútvn. þessarar d. Það frv. var undirbúið strax í þingbyrjun. Samdi ég það og grg. fyrir því. En ég taldi heppilegast, að það kæmi inn í þingið sem algert samkomulagsmál flokkanna, svo að málinu væri, ef það kæmi fram; tryggður greiður gangur í gegnum þingið. Nú hefur sjútvn. haft þetta mál til athugunar, og nm. hafa fengið frv. fjölritað hver fyrir sig til að athuga það og ræða það í sínum flokkum og sjá, hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu, að frv. gæti fengið stuðning allra flokka þingsins. Eftir þær litlu umr., sem þar hafa farið fram um málið, held ég, að nm. sjái enga verulega agnúa á því. Ég sé því enga ástæðu til þess að fara nú að ræða neitt sérstaklega um þessi frv. hv. þm. Borgf., enda þótt í hans frv. séu ýmis atriði, sem ég er ekki samþykkur og vildi flytja á aðra leið en þar er gert. En ég vil segja þetta vegna meðnm. minna, sem kynni að þykja undarlegt, að þetta frv. hefur komið fram, eftir að ég hafði beðið þá að taka að sér flutning frv. um sama efni. Ég get bætt því við, að hv. flm. þessa frv. var vel kunnugt um þetta, því að ég hafði að þessu talsverðan undirbúning og einnig, að sjútvn. hafði tekið við þessu frv. og haft góð orð um að flytja það.