12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (3146)

53. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal aðeins geta þess, eins og hv. 5. þm. Reykv., að ég hef verið í sambandi við sjútvn. um þetta mál. Ég hafði rætt við þrjá menn úr n., og var það samkomulag allra þeirra, að n. undirbyggi þetta mál og legði það síðan fram fyrir d., ef allir gætu orðið sammála, sem varla var að efa. Er gott til þess að vita, ef samkomulag getur þannig orðið um málið, og gæti það orðið til þess, að fiskveiðasjóður verði styrktur að mun.

Nú er það svo, að fiskveiðasjóður hefur í flestum tilfellum getað fullnægt sanngjörnum beiðnum samkvæmt þeim reglum, sem hafa gilt um starfsemi hans, en þær reglur eru allt of þröngar, og sérstaklega hefur borið á því eftir þá breyt., sem orðið hefur á hugmyndum manna um, hvaða skipastærð væri heppilegust. Er því nauðsynlegt að breyta reglum sjóðsins og þá líka að sjá honum fyrir meiri fjárframlögum.

Hv. þm. Borgf. minntist á þá milljón, sem fiskveiðasjóður átti upphaflega að fá, en ekki verið greidd nema að 1/10 hluta. Það hefur verið rætt um þetta mál við hæstv. fjmrh., en ég hygg, að stj. telji sér ekki fært að borga út þessa milljón, nema um það kæmu einhver sérstök tilmæli frá þinginu. Ég hygg, að hægast væri að fullnægja þessari greiðslu með því, að ríkissjóður tæki að sér að sjá um lán það, sem nefnt hefur verið í þessum umr., og borga út mismuninn á láninu og þeirri upphæð, sem lofað var. Með þessu móti yrði þetta ekki tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð og hann þyrfti ekki að greiða í peningum nema um 400 þús. kr. Allir eru sammála um, að fiskveiðasjóð megi ekki skorta fé, því að hann er nokkurs konar veðdeild sjávarútvegsins, og má ekki standa á honum að lána út á 1. veðrétt, ef ekki vantar fé að öðru leyti.