12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (3149)

53. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Finnur Jónsson:

Ég vænti þess, að engin óheppileg afbrýðisemi komi upp milli þm. út af þessu máli.

Mér skilst, að það sé ákaflega nauðsynlegt að nota þennan tíma til þess að efla fiskveiðasjóð, og er þá nærtækt, eins og stungið er upp á í þessu frv., að taka til þess útflutningsgjald af sjávarafurðum: Þó er þess að gæta, að þetta gjald er mjög misjafnt og kemur ákaflega misjafnlega niður vegna stríðstímanna, þannig að ég held, að það sé varla farandi af stað með það eins og nú standa sakir að taka 2% útflutningsgjald í fiskveiðasjóð af hvaða sjávarafurðum sem er, án tillits til þess útflutningsgjalds, sem hvílir nú á sjávarafurðum. Sem dæmi má nefna síldarmjöl. Á það er nú lagt 10 kr. gjald á hvert tonn. Með því að setja nú þar ofan á 2% útflutningsgjald, yrði þetta óhæfilegur skattur: Umbúðir um síld og síldarmjöl eru nú óeðlilega dýrar vegna stríðstímanna. Ég held, að það yrði nokkuð mikið til að þjaka þessum atvinnuvegi, síldarsöltuninni, að leggja á hann 2% skatt, án tillits til þess. hvað umbúðir eru nú óhæfilega dýrar. Þetta er aðeins aths. á fyrsta stigi.

Ég þori að fullyrða, að þetta mál fær góða athugun í sjútvn. og velvilja allra nm., og vonandi verður það nú úr, að fiskveiðasjóður verði efldur svo, að um muni, því að á því er mikil nauðsyn.