31.03.1941
Neðri deild: 27. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (3158)

63. mál, jarðræktarlög

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Mál það, sem ég flyt hér ásamt tveim öðrum hv. þm., er á Alþingi gamall kunningi og hefur verið borið fram þing eftir þing. En efni frv. er það, að 17. gr. jarðræktarl. falli niður, og hefur mikið verið um þetta þráttað. Þegar málið var borið fram á síðasta þingi, svo að segja samhljóða, hafði það verið athugað áður í milliþn., ekki Alþ. að vísu, heldur búnaðarþings, og var það ætlunin, að sú n. tæki þetta atriði ekki sízt til meðferðar, áður en til kasta Alþ. kæmi. En nú er svo komið, að búnaðarþing hefur ekki getað orðið ásátt um þessa afgreiðslu, sem hér er stungið upp á. Hins vegar munu brtt. búnaðarþings við jarðræktarl. væntanlega verða lagðar fyrir Alþingi. Þótti því hlýða að bera fram þetta frv., svo að n. sú, er um það mundi fjalla hér, gæti jafnhliða tekið afstöðu til þess, hvað gera ætti og mætti við þessa umþráttuðu 17. gr. jarðræktarl. Rökin fyrir þessu máli hafa svo oft verið rædd á Alþingi og málið þvælt svo mjög fram og aftur, að ég sé ekki ástæðu til að ræða það frekar að þessu sinni, en legg til, að því verði vísað til landbn.