28.03.1941
Efri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég spurði að því, þegar þetta frv. var til umr. hér í Ed., ég man ekki hvort það var við 2. eða 3. umr., hvernig bæri að skilja 1. gr. frv., hvort ekki bæri að skilja hana svo, að verðlagsuppbót skyldi greidd öllum starfsmönnum ríkisins, hvort sem þeir væru fastir starfsmenn eða í lausavinnu. Að þessi spurning er fram komin, er vegna þess, að þetta var ekki framkvæmt eftir þeim lögum, sem giltu um verðlagsuppbót s. l. ár. Ég fékk ekki við þessu svar, hvorki frá frsm. n. né fjmrh. Nú hefur þessi sama fyrirspurn verið gerð í dag, og frsm. fjhn. Nd. svaraði þessu þannig, að það gilti fyrir alla starfsmenn ríkisins, að þeim skyldi greidd verðlagsuppbót, bæði föstum mönnum og þeim, sem hefðu íhlaupavinnu. (MJ: Til dæmis, ef einhver semur frv.2). Ég á við starfsmenn eins og hjá póstinum. Ég tek ekki dæmi um menn, sem eru þar fastir. Hjá póstinum eru oft teknir aukastarfsmenn, sem í raun og veru eru fastir menn, vegna þess að alltaf eru teknir sömu mennirnir. Þessir menn fengu eftir lögunum, sem giltu fyrir s. 1. ár, ekki þá verðlagsuppbót, sem 1. ákváðu, því það var litið svo á, að þetta næði ekki til þeirra. Nú vildi ég spyrja frsm. n. í Ed., hvort hann liti ekki eins á þetta og frsm. fjhn. Nd.