07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (3172)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Finnur Jónsson:

Ef hv. flm. álíta, að þetta mál sé svo lítils um vert, að það þurfi enga framsögu við 2. umr., þá vil ég gera mitt til að leiðrétta þann leiða misskilning.

Ég vil nú gefa nokkrar upplýsingar um gang þessa máls í sjútvn. Það var afgr. þaðan í þeirri röð, sem það hafði komið til n., en þegar málið var afgr., lágu ekki fyrir þær upplýsingar, sem í rauninni voru nauðsynlegar, til þess að hægt væri að taka forsvaranlega ákvörðun um afgreiðslu þess. Það er kunnugt, að dragnótaveiðil. voru rýmkuð mjög af Alþingi, og sú ráðstöfun var gerð með það fyrir augum, að landsmenn gætu notað betur en ella veiði kola og annarra flatfiskitegunda, sem eru í sjónum umhverfis landið. Á þessari lagabreyt. hafa landsmenn hagnazt um margar milljónir króna vegna útflutnings hraðfrystihúsanna. Hve margar millj. króna, veit sjútvn. ekki, hvorki sá hluti hennar, sem þegar hefur skilað áliti, né heldur hinn hlutinn, sem enn hefur ekki skilað sínu áliti. Vegna lagabreyt. voru byggð hraðfrystihús víða um landið. Þessi hraðfrystihús hafa síðan verið starfrækt, og útflutningur þeirra er orðinn mjög mikill þáttur í útflutningi landsins og atvinnu landsmanna í sjávarþorpum umhverfis allt landið. Ekkert lá fyrir sjútvn. um það, hve mikill þáttur í útflutningnum þessi framleiðsla hraðfrystihúsanna er né hve mikill þáttur í atvinnu landsmanna.

Nú er það svo, að atvinna er mjög mikil í landinu sem stendur, en þó er hún ekki eins almenn og æskilegt væri. Það er kunnugt, að það er mjög mikil eftirspurn eftir karlmönnum til vinnu. En hins vegar er þannig ástatt, að í sjávarþorpum umhverfis allt landið, bæði þeim stærri og hinum smærri, er fjöldi kvenna, sem ekki hefur neinar ástæður til þess að fara burt af þeim stöðum, þar sem þær eiga heima, burt frá heimilum sínum til vinnu, en geta létt ákaflega mikið undir með framfærslu heimila sinna með því að vinna á þeim stað, þar sem þær eiga heima. Ég held, að hraðfrystihúsin hafi orðið til þess að létta atvinnuleysisbyrðina með því að gera fólki, sem áður hefur unnið við saltfisksvinnu, sem hefur rýrnað, kleift að vinna fyrir sér, fólki, sem ekki getur farið burt frá heimilum sínum til þess að stunda atvinnu annars staðar. Nú er þetta vitanlega ekki annað en mín fullyrðing, en þó, sem alkunnugt er, á fullum rökum reist. Tölur lágu ekki fyrir sjútvn., þegar málið var afgr. Hins vegar hef ég og hv. þm. Ak. (SEH) gert ráðstafanir til þess að þær bærust hér til þingsins. Ætlun okkar var sú, að þær lægju fyrir nógu snemma í nál. við þessa umr. málsins. Það hefur því miður ekki getað orðið, vegna þess að form. fiskimálan. veiktist snögglega um það leyti sem við rituðum fiskimálan. og báðum um þessar upplýsingar. Fundur hefur þó verið haldinn í n. fyrir 2 dögum síðan, og okkur hefur verið lofað, að þær upplýsingar, sem vantar í málinu til þess að hv. þm. geti gert sér nokkra hugmynd um, hvað hér er á ferð, skyldu liggja fyrir í bréfi til formanns sjútvn. Nd. nú á þessum degi. Ætlunin var að láta þetta liggja hér fyrir við 2. umr. málsins í prentuðu nál., til þess að hv. þdm. gæti gefizt kostur á að kynna sér málið til hlítar. Nú er það alkunna, að ef svo mikið nauðsynjamál er á ferð, þá er hv. þdm. bæði Ed. og Nd. í lófa lagið með þeim tíma, sem þingið á eftir að starfa, að koma málum áleiðis. En það lítur út fyrir, að hv. flm. þessa máls sé einkar annt um það, að hvorki réttar upplýsingar né fullar upplýsingar liggi fyrir þinginu um þetta mál, áður en það er afgr.

Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, fyrst ekki hefur gefizt tóm til þess að fá prentað nál. um málið, lesa upp þau bréf, sem ég hef sent tveimur stofnunum, sem sérstaklega hafa með mál þetta að gera, og á ég þar fyrst við atvinnudeild háskólans. Henni hefur verið skrifað bréf 2. maí 1941 svo hljóðandi:

Herra fiskifræðingur Árni Friðriksson, atvinnudeild háskólans. Umsögn yðar óskast um meðfylgjandi frv. um breyt. á 1. um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi. Einkum óskast upplýst, hvort vituð sé, að dragnótaveiðar hafi áhrif á göngur fiska yfirleitt eða spilli möguleikum fyrir notkun annarra veiðarfæra.

Virðingarfyllst

Finnur Jónsson

form. sjútvn. Nd. Alþ.

Mér hefur skilizt, að einmitt þetta, að dragnótaveiðin spillti fyrir öðrum veiðarfærum, sé ein af aðalástæðunum fyrir því, að þetta frv. er flutt hér á Alþ., rétt eftir að hæstv. Alþ. er búið að rýmka um dragnótal. og búið er að gera opinberar ráðstafanir til að styrkja menn til að reisa hraðfrystihús umhverfis allt landið, rétt eftir að menn leggja stórfé í frystihúsin og gera allar ráðstafanir til þess að vinna stóra nýja markaði fyrir þessa vöru. Þegar þess er gætt, hvað búið er að leggja mikið fé í þessar framkvæmdir, — þegar þess er gætt, að Alþ. hefur beinlínis hvatt menn til þess að gera þetta, — þegar þess er gætt, hve mikill þáttur þetta er orðinn í atvinnulífi þjóðarinnar — og þegar þess er gætt, að það er verið að vinna stóra nýja markaði fyrir þessa vöru, og það hefur engum manni dottið í hug að mótmæla því, að hraðfrysti fiskurinn væri ein af aðalframtíðarútflutningsvörum okkar, — þegar alls þessa er gætt, þá hljóta að liggja ákaflega ríkar ástæður fyrir því, að slíkt frv. sem þetta kemur hér fram á Alþ.

Mér hefur borizt svar frá atvinnudeild háskólans við þessu bréfi. Ég hafði ekki ætlað mér að lengja hér umr. með því að lesa þetta bréf upp. En þar sem mér hefur ekki gefizt kostur á vegna veikinda formanns fiskimálan., að koma út nál., tel ég ekki, að hjá því verði komizt a. m. k. að draga fram við þessa umr. aðalatriði álits atvinnudeildar háskólans um þetta mál. Bréf atvinnudeildar háskólans er dagsett 2. maí og, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar það svo:

Atvinnudeild háskólans, Reykjavík, 2. maí 1941. Sem svar við heiðruðu bréfi yðar, dagsettu í dag, þar sem. þér biðjið um umsögn mína um 116. frumvarp til laga, um breytingu á lögum nr. 45 13. júní 1937, um dragnótaveiði í landhelgi, skal ég taka þetta fram :

1. Aðalnytjafiskar landsins eru, eins og kunnugt er, þorskur og síld, en bæði þorsk- og síldveiðin eru að langmestu leyti „sæsonveiði“. Eitt af viðfangsefnum útgerðarinnar er að fylla upp með annarri veiði eyðurnar á milli þorsk- og síldveiðanna, og hefur dragnótin þar komið í góðar þarfir. Þess vegna er óheppilegt að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi einungis um síldveiðitímann, júní-ág., eins og gert er ráð fyrir í frv.

2. Öll landhelgin við Ísland er sameiginleg eign allra landsmanna, og ætti því sýslunefndum eða bæjarstjórnum að vera óheimilt að banna dragnótaveiði á ákveðnum svæðum. Af sömu ástæðu ætti að stilla í hóf takmörkun á stærð skipa, sem heimilt er að nota dragnót, og helzt afnema slíka takmörkun, en ganga á hinn bóginn ríkt eftir því, að fyrirmælum um gerð dragnóta sé framfylgt. Stærri skipin eru einnig fær um að fiska á dýpra vatni en þau smærri, þar á meðal utan landhelgi. Þróun útgerðarinnar á að ganga í þá átt að auka „aktionsradius“ flotans : Sem flest veiðarfæri og sem stærst og bezt skip, innan þeirra marka, sem reynslan setur.

3. Mér er ekki kunnugt um, að neitt það hafi komið fram, sem bendi í þá átt, að dragnótaveiðar hafi áhrif á göngur fiska.

4. Það er kunnugt, m. a. hér við land frá því um aldamót, að mikil brögð eru að ýsugengd á þau mið, þar sem dragnót hefur verið beitt skömmu áður, og hefur verið reynt að skýra þetta þannig, að dragnótin græfi upp ýmis dýr, skeljar, orma o. s. frv., sem lifi í leirnum eða sandinum, svo að þau yrðu aðgengilegri fyrir fiskána. Á hinn bóginn tekur dragnótin að sjálfsögðu sinn stað í sjónum, en um hana gilda að sjálfsögðu sömu reglur og um önnur veiðarfæri: Að hún verður að víkja þar, sem önnur veiðarfæri (t. d. lóð) eru fyrir, og að önnur veiðarfæri verða að víkja fyrir henni, þar sem hún er fyrir.

5. Það eru aðallega þrír af nytjafiskum vorum, sem gengið hafa til þurrðar síðari áratugi: Ýsa, skarkoli og lúða. Af öllum þessum tegundum veiðum við Íslendingar minna hér við land en útlendingar. Af allri ýsu, sem veiddist við Ísland 1937, veiddum við Íslendingar tæpl. 1/6 hluta, af skarkolanum ca. 3/11, en af lúðunni tæpl. 1/10. Þegar þess er gætt, að í þessari hlutdeild okkar Íslendinga hefur dragnótin aðeins átt lítinn þátt, er það ljóst, að enda þótt dragnótin væri bönnuð, mundi sú friðun, sem áynnist með því handa þessum tegundum, algerlega missa marks. Það er einkum skarkolastofninn, sem stafar hætta af dragnótinni, en löngu áður en dragnótin kom hér til sögunnar mátti rekja, hvernig honum hrörnaði vegna botnvörpuveiðanna, svo að ekki sé minnzt á afdrif skarkolastofnsins í norðlægari höfum, t. d. í Berentshafinu, vegna botnvörpuveiðanna. Að mínum dómi miðar því of mikil takmörkun á dragnótaveiði frekar að því að ræna útveginn verðmætum en að hinu, að skapa honum framtíðarhag með tilgangslausri friðun, sem dragnótin ein verður að bera. Á hinn bóginn er það lífsnauðsyn útveginum í norðurhöfum, að samkomulag náist milli allra aðila um víðtæka friðun (t. d. lokun Faxaflóa), og er þá sjálfsagt, að þær ráðstafanir, sem þá verða gerðar, nái jafnt til dragnótarinnar og annarra dráttarveiðarfæra.

6. Eins og nú standa sakir, eru fáir togarar hér að veiðum, vegna stríðsins. Þá eru markaðshorfur þannig, að mest kapp er lagt á að fá eins mikið magn og unnt er. Af þessu tvennu leiðir, að a. m. k. skarkola og lúðu skapast ósjálfráð vernd fyrir togurunum meðan á stríðinu stendur, enda eru líkur til, vegna markaðarins, að þeir leggi nú aðalkappið á að veiða „kvantitets-fisk“, þ. e. þorsk etc. Aukið bann við dragnótaveiði, þ. e. styttri veiðitími, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, mundi því, á meðan svona stendur á, koma að hlutfallslega miklum notum, og væri það ótvírætt til bóta fyrir ekki sízt skarkolastofninn að takmarka dragnótaveiðar á meðan á stríðinu stendur. Verði síldveiðar minna stundaðar í sumar en vanalega, mundi veiðitíminn júní-ág. einnig notast betur en í ;,normal“ ári. Þá eru líkindi til þess, að við Íslendingar verðum á komandi árum að beita okkur fyrir almennari friðun nytjafiska vorra en nú er, á alþjóðavettvangi, og stæðum við þá betur að vígi, ef við hefðum gripið tækifærið til þess að friða skarkolastofninn fyrir dragnót, þegar við gátum gert okkur vonir um árangur. Um hitt skal ekkert sagt, hvort sú friðun kemur að notum, það fer eingöngu eftir því, hve lengi núverandi „ástand“ helzt.

Með sérstakri virðingu

Árni Friðriksson.

Til form. sjávarútvegsnefndar neðri deildar Alþingis.

Ég vil nú leyfa mér að gera þetta álit að nokkru umtalsefni.

Í fyrsta lið bréfsins segir Árni Friðriksson og leggur réttilega áherzlu á, að aðalnytjafiskar landsins eru þorskur og síld, en bæði þorsk- og síldveiði sé að mestu tímabundin, og eitt aðalviðfangsefni útgerðarinnar sé að fylla með annarri veiði í eyðuna milli þorsk- og síldveiðanna. Þess vegna sé óheppilegt að leyfa dragnótaveiði eingöngu yfir síldveiðitímann, júní til ágúst. Margir bátar, sem stunda dragnótaveiðar, fara á síldveiðar. Og það eru nokkur líkindi til þess, að síldveiði verði á þessu sumri rekin með nokkurn veginn meðalkrafti, þannig að tækifæri gefist fyrir sölu á síld, svo að síldveiði verði stunduð bæði af herpinótaskipum og reknetaskipum. Færi nú svo, að Alþ. féllist á þessar fáránlegu till., sem nokkrir fulltrúar sveitakjördæma hafa flutt hér í Alþ., um að hefta einn aðalþáttinn, sem orðinn er í atvinnuvegunum við sjóinn, þá mundi þar með vera farið inn á það, sem atvinnudeild háskólans einmitt er að vara við og telur, að sé mjög hættulegt, að leyfa dragnótaveiði eingöngu á þeim tíma, sem arðvænlegra mundi vera fyrir sjómenn yfirleitt að stunda síldveiðar, en banna sjómönnum að stunda dragnótaveiðar einmitt á þeim tíma, sem þeir ekki geta með góðum árangri stundað aðrar veiðar. Það væri m. ö. o. verið að ræna sjómannastéttina og útgerðarmenn, að ég ekki tali um hraðfrystihúsin, einhverjum þeim mesta möguleika, sem þeir hafa til þess að geta bjargazt. Þegar þess er gætt, að líkur eru til, að dýrtíð fari æ vaxandi í landinu, þá er þetta frv. frá því sjónarmiði enn þá fáránlegra, svo ekki sé meira sagt.

Þá kem ég að öðrum lið í áliti atvinnudeildar háskólans, þar sem rætt er um landhelgi og á það bent, að landhelgin sé sameiginleg eign allra landsmanna og þegar af þeirri ástæðu sé óhyggilegt að heimila sýslunefndum að fyrirbjóða veiðar á vissum svæðum. — Það voru einu sinni til í l. ákvæði, sem voru nokkuð svipuð þessu, og þar á ég við heimild sýslun. til þess að banna síldveiði með herpinót á vissum svæðum með sýslunefndarsamþ. Það var lengi bönnuð síldveiði með herpinót á innanverðum Steingrímsfirði og einnig lengi á innanverðum Skagafirði. En undireins og Skagfirðingar sáu það, að þeir gátu haft atvinnu af síldveiði með herpinót inni í firðinum, þá var þetta bann afnumið. Mér er ekki einu sinni kunnugt um það, hvort sýslun. í Skagafirði hafði nokkurn tíma fyrir því að fella þessa samþ. úr gildi. Ég held, að hún hafi fyrst verið felld úr gildi þannig, að hún hafi verið brotin ár eftir ár, og þegar sýslun. Skagafjarðarsýslu sá, að sýslubúar höfðu hag af því að brjóta þessa gömlu samþ., datt engum í hug að kæra. Síðan voru þessi heimskulegu l. afnumin fyrir nokkrum árum, þegar allir voru orðnir sammála um gagnsleysi þeirra: — Nú er hér nokkuð það sama uppi á teningnum. Það er lagt til, að sýslun. og bæjarstj. fái nokkuð mikið vald til þess að banna dragnóta: veiði á vissum svæðum. En það er að vísu staðfesting á breyt., sem sett hefur verið inn í þessi 1. Mig skyldi nú ekki undra, þó að eins færi um þessar samþ. eins og gömlu samþ. um herpinótaveiðarnar, að þegar þeir, sem búa á þessum stöðum, hafa hag af því að brjóta samþykktirnar, þá falli þær um sjálfar sig á sama hátt og samþ. um herpinótaveiðarnar á sínum tíma.

Þá kem ég að 3. liðnum í áliti atvinnudeildar háskólans, sem er raunar um aðalatriði þessa frv. Og þar sem forstjóri atvinnudeildar (PHann: Hann er ekki forstjóri atvinnudeildar, heldur fiskideildarinnar), — jæja, forstjóri fiskideildar í atvinnudeild háskólans (svo að ég tali rétt fyrir hv. 1. þm. Skagf.) segir, að sér sé ekki kunnugt um, að neitt það hafi komið fram, sem bendi í þá átt, að dragnótaveiðar hafi áhrif á göngur fiska, ætla ég, að hann hafi með sínu áliti sem óhlutdrægur vísindamaður þar með alveg kippt burt grundvellinum undan frv. þessara hv. fulltrúa úr sveitakjördæmum, sem nú ætla sér þá dul að kippa burt frá útgerðarmönnum og sjómönnum einhverjum helzta þætti úr þeirra atvinnulífi.

Í framhaldi af þessum lið er svo tölul. 4 í áliti forstjóra fiskideildar í atvinnudeild háskólans (svo ég hneyksli ekki hv. sessunaut minn, l. þm. Skagf., með því að nefna þennan hv. embættismann neinu rangnefni). Í 4. lið segir, að það sé m. a. kunnugt, að ýsa sæki mikið á þau svæði, þar sem venja er að veiða með dragnót. Það er með öðrum orðum svo þvert á móti hans áliti, að dragnót hafi áhrif. á göngur fiska til hins lakara, að fiskifræðingurinn álítur, að dragnótin hafi þau áhrif á göngu ýsu, að ýsugengdin sé óvenjulega mikil á þeim svæðum, þar sem dragnótin er notuð. Fiskifræðingurinn færir þau rök fyrir þessu áliti sínu, að dragnótin grafi upp ýmis dýr, skeljar, orma o. s. frv., sem lifi í sandinum, svo að þau verði aðgengilegri fyrir fiskana. Það kann að vera sumum mönnum torskilið, að fiskar geti ekki grafið sig eftir ormum niður í sandinn. En þeim, sem vita, eins og sessunautur minn, hvernig fiskar eru skapaðir, kemur þessi kenning ekki á óvart. Annað mál er það, að vitanlega er erfitt að leggja önnur veiðarfæri á þau svæði, þar sem verið er að nota dragnót, á sama tíma, en slíkt gildir um öll veiðarfæri, að þau, sem fyrst eru lögð í sjó, eiga á hverjum stað og tíma vissan rétt á sér umfram þau, sem síðar eru lögð.

Þá kem ég að 5. lið í áliti fiskifræðingsins, þar sem hann bendir á, að það séu 3 af nytjafiskum vorum, sem virðast ganga til þurrðar á síðari árum, ýsa, skarkoli og lúða, en við Íslendingar veiðum ekki nema lítinn hluta þess, sem veitt er af þessum fiskitegundum hér við land, t. d. árið 1937 tæplega 1/6 af ýsunni, 3/11 af skarkolanum og tæpl. 1/10 af lúðunni. Enn fremur bendir hann á það, að hlutdeild dragnótar í þessari veiði hafi verið mjög lítil að tiltölu við önnur veiðarfæri. . Bann á dragnót mundi því missa marks. Að vísu verkar dragnótaveiðin nokkuð á skarkolastofninn, en honum var farið að hnigna löngu áður en dragnótaveiðar hófust. Á hinn bóginn er sú friðunin langtum þýðingarmest, sem við njótum nú ókeypis, meðan erlendir togarar sækja ekki miðin. Mér finnst þessi liður vera þungamiðja í áliti Árna Friðrikssonar fiskifræðings.

Hv. þm. V.-Húnv. (SkG) er að leiða athygli mína að því utan dagskrár, að við eigum að mæta í opinberri n., sem heldur venjulega fundi sína á þessum tíma. Og þar sem ég geri ráð fyrir, að það sé nokkuð áríðandi að mæta þar, vildi ég spyrja hæstv. forseta, hvort hann hefði ekki hugsað sér kaffihlé nú, og gæti ég lokið ræðunni að því búnu. (Forseti: Ég hugsaði mér að halda umr. áfram. Þm. hefur orðið.)

Ég vil þá minnast á 6. tölulið álitsins. Þar bendir Á. F. á, að það væri ótvírætt til bóta fyrir skarkolastofninn að takmarka dragnótaveiðina, meðan á stríðinu stendur. En þá er þess að minnast, að veiði Íslendinga nam aðeins 3/11 af skarkolaveiðinni hér við land, og þar af er aðeins lítill hluti veiddur með dragnót. Það eru því sáralítil líkindi til, að friðun skarkolans fyrir dragnót innan landhelgi mundi reynast þýðingarmikil,. og hún yrði aldrei nema lítill þáttur þeirrar miklu friðunar, sem veiðistofninn nýtur um stríðstímann, svo lítill þáttur, að varla tekur tali, þess vegna, að eyðileggja atvinnu fjölda manna, bæði á sjó og landi, lama rekstur hraðfrystihúsa og útgerðarfyrirtækja og svipta landið miklum útflutningsverðmætum. Ég skil ekki, hverjir vilja að athuguðu máli vinna slíkan óvinafagnað.

Í 6. lið er atriði, sem ég vil leiðrétta. Þar segir, að markaðshorfur séu þannig, að mest kapp sé lagt á að fá eins mikið magn og unnt er. Þetta er nær því að vera öfugt nú orðið, og ég bygg, að fiskifræðingnum hafi ekki verið nægilega kunnugt um nýjustu breytingar á heildsöluverði innflutts þorsks í Bretlandi. Það hefur verið sett þar hámarksverð á þorskinn, en ekki á hinar dýrari fisktegundir. Þess vegna hefur það nú snúizt svo, að sjómenn hafa farið að leggja minna kapp á fiskmagnið heldur en hitt, að veiða dýrmætari fisktegundirnar.

Fyrir hraðfrystihúsin hefur það afar mikla þýðingu, að haldið verði áfram að veiða dýrari fiskinn, sem kominn er í margfalt verð við það, sem þekkzt hefur nokkurn tíma áður. Þá er það alkunnugt, hve takmarkaðan skipakost við höfum til útflutnings á fiski. Augljóst er hvert stórtap það yrði þjóðinni að verða að fylla hin takmörkuðu skiprúm ódýrum fiski, af því að ekki mætti veiða hinn dýrari. Koli og lúða munu vera þrefalt verðmeiri en sama magn af hraðfrystum þorski.

Ég held ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um hið merka álit fiskifræðingsins, en sný mér að svari því, sem mér barst rétt í þessu frá fiskimálan. Ég óskaði eftir að fá svör n. um þrennt 1) um frumvarpið, 2) um tölu þeirra hraðfrystihúsa, sem hér eru rekin, 3) um fjárhæðir þær sem liggja í þeim fyrirtækjum, fjölda starfsfólks þeirra og áhrif þessarar lagabreyt. á rekstur húsanna. Spurningar mínar voru alveg hlutlausar, og fiskimálan., sem er þessu kunnugust allra, gefur þau svör, sem ég les nú, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 7. maí 1941.

Í tilefni af heiðruðu bréfi yðar, dags. 2. þ. m. þar sem þér óskið umsagnar Fiskimálanefndar um lagafrumvarp um breytingu á lögum um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, ásamt upp- lýsingum sérstaklega varðandi hraðfrystihúsin á landinu o. s. frv., hefur Fiskimálanefndin á fund sínum 6. þ. m. samþykkt svo hljóðandi ályktun

A ) „Að fengnu nær einróma áliti frystihúsanna ákveður Fiskimálanefndin að leggja á móti að svo stöddu, samþykkt frumvarps þess, er fyrir liggur um breytingu á gildandi lögum um dragnótaveiðar í landhelgi, þar eð ákvæði frumvarpsins, ef að lögum yrðu, mundu verða til þess að skerða stórlega afkomumöguleika frystihúsanna og rýra atvinnuskilyrði íbúanna á viðkomandi stöðum.

h ) Hins vegar telur nefndin nauðsynlegt, að friðuð verði, í samráði við fiskifræðinga landsins, nánar til tekin svæði innan landhelginnar, til uppeldis og viðhalds fiskstofnsins, og enn fremur að framfylgt verði betur en verið hefur settum ákvæðum um veiðar ungfiskjarins.“

Vér sendum yður hér með skrá yfir 37 hraðfrystihús, sem nú eru starfandi á landinu. Höfum vér átt tal við eigendur þeirra viðvíkjandi verðmæti því, er þeir teldu bundið í húsum og tækjum, svo og viðvíkjandi fjölda þess starfsfólks, er atvinnu hefur við frystinguna. Hafa þeir látið oss í té tölur þær, er meðfylgjandi skrá tilgreinir. Samkvæmt því verður samanlagt verðmæti þessara 87 hraðfrystihúsa kr. 7925000.00 og fjöldi starfsfólks kringum 1500 menn og konur.

Hér fylgir skrá yfir starfandi hraðfrystihús á

landinu l. maí 1941.

Verðmæti

Starfsfólk

kr.

konur

karlar

Ísbjörninn, Reykjavík

35000.00

30

10

Sláturfél. Suðurlands,

Reykjavík

35000.00

30

10

Snæfell, Reykjavík

15000.00

15

5

Sænsk-íslenzka frysti-

húsið, Reykjavík

1250000.00

(140 manns)

Hraðfrystistöð Vest-

mannaeyja, Vestm.

100000.00

90

70

H.f. Fiskur & Ís, Vest-

mannaeyjum

225000.00

35

10

Ísfélag Vestmanna-

eyja, Vestm.

kr.

100000.00

H. Böðvarsson & Co.,

Sandgerði

150000.00

16

6

H.f. Jökull, Keflavík

100000.00

40

8

H.f. Keflavík, Keflav.

200000.00

20.

5

Frystihúsið í Innri-

Njarðvík (E. J.)

125000.00

40

10

Frystihúsið í Hafnar-

firði (I. Flygenring)

150000.00

25

8

H. Böðvarsson & Co.,

Akranesi

200000.00

33

7

Sigurður Hallbjarnar-

son, Akranesi

180000.00

15

4

Hraðfrystihús Ólafs-

víkur h.f., Ólafsvík

200000.00

40

10

Kaupfélag Stykkis-

hólms, Stykkish.

100000.00

18

10

Ó. Jóhannesson. & Co.,

Patreksfirði

250000.00

40

10

Hraðfrystihús Suður-

fjarðahr., Bíldudal

300000.00

40

10

Hraðfrystihús Flat-

eyrar h.f., Flateyri

300000.00

40

10

H.f. Dafri, Þingeyri

150000.00

30

10

Íshúsfélag Súgfirð-

inga, Súgandafirði

130000.00

20

10

Íshúsfélag Bolungar-

víkur, Bolungarvík

200000.00

25

6

Íshúsfélag Ísfirðinga

h.f., Ísafirði .

350000.00

45

14

Kaupfél. Skagstrend-

inga, Skagaströnd

100000.00

30

6

Kaupfélag Skagfirð-

.

inga, Sauðárkrók

200000.00

20

5

Kaupfél. Austur-Skag-

firðinga, Hafsós

120000.00

30

5

Hraðfrystihúsið h.f.,

Siglufirði

100000.00

30

7

H.f. Hrímir, Siglufirði

200000.00

30

10

Íshúsfélag Ólafsfjarð-

ar, Ólafsfirði

150000.00

25

5

Kaupfél. Eyfirðinga,

Ólafsfirði, Dalvík,

Hrísey og Akureyri

400000.00

75

40

Kaupfélag Þingeyinga,

Húsavík

250000.00

30

5

Kaupfélag Langnes-

inga, Þórshöfn

100000.00

20

5

Íshúsfélag Norðfirð-

inga, Norðfirði

200000.00

30

5

Síldarbræðslan h.f.,

Seyðisfirði

125000.00

20

4

Samtals 7425000.00“

Það er mikið kvartað um vinnufólkseklu í landinu og sérstaklega gert ráð fyrir, að fólk vanti til heyvinnu. Ef það vekti fyrir hv. flm. að loka þessum frystihúsum um sláttinn, til þess að bændur fengju kaupafólk, væri það a. m. k. tilgangur, sem einhverjir gætu sjálfsagt skilið og metið. Nú er ekki því að heilsa. Þarna væri aðeins verið að fyrirmuna frystihúsunum að starfa með árangri á haustin og fram á veturinn, og við hverra hagsmuni er það miðað? Mér þætti ákaflega vænt um, ef hv. 1. þm. Skagf. hefði flutt einhver frambærileg rök fyrir máli sínu. Ég hlustaði á framsöguræðu hans og fann þar ekkert nema ókunnugleika.

Þetta virðist vera svo illa hugsað mál, að hv. flm. hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera, er þeir fluttu þetta frv. Þegar þess er gætt, að búið er að leggja 7½ millj. kr. í hraðfrystihúsin, og eftir upplýsingum milliþn. í sjávarútvegsmálum voru ekki bundnar í skipastól landsins nema alls um 35 millj. kr., þá er augljóst, að ekki er um smávegis verðmæti að ræða. Yrði það mikið tap fyrir þjóðina, ef gera ætti hraðfrystihúsin óarðbær fjórða hluta ársins, þegar fólkið þarf helzt á vinnu að halda og þegar helzt veiðist sá fiskur, sem líklegur er til að gefa góðan árangur við hraðfrystingu. Þegar svo þess er gætt, að í hraðfrystihúsum landsins vinna um 1500 manns fyrir utan alla þá sjómenn, sem hafa atvinnu af að fiska í húsin, þá er ljóst, að ekki er um smávegis atvinnusviptingu að ræða. Ef frv. þetta er flutt í því skyni að vernda fiskistofninn, þá er tekið af þeim tíma, sem leyft er að veiða í dragnót, og sá hluti, þegar fiskurinn er löngu búinn að hrygna. Eins og kunnugt er, hrygnir kolinn hér við land á tímabilinu apríl-maí og jafnvel fram í júnímán., eftir því sem fiskifræðingar upplýsa og finna má í skrifum þeirra, þó að hv. 1. þm. Skagf. sé það ekki kunnugt. Það er þess vegna ekki til að vernda hrognfulla kolann, sem banna á þessa veiði, heldur á að banna hana löngu eftir að hrygningartíminn er úti og einmitt á þeim tíma, sem kolinn er feitastur og bezt útflutningsvara. Með öðrum orðum: Það á að banna Íslendingum að veiða kolann á öðrum tímum en þeim, þegar hann er magur eftir hrygningu. Ég skal ekki segja um, hvaða áhrif þetta mundi hafa á markað hins hraðfrysta kola okkar erlendis, en ekki væri ólíklegt, að það kynni að spilla því góða áliti, sem þessi framleiðsla hefur unnið sér, síðan farið var að starfrækja hana. Ég vildi í þessu sambandi spyrja hv. 1. flm. málsins, 1. þm. Skagf., hvort hann hefði athugað meðal annars þessa hlið málsins, hvort honum væri kunnugt um allt það fé, sem búið er að setja í þessi hús, og hvort hann viti, hve margir menn vinna að þessu til sjós og lands. Væri fróðlegt að vita, hvort hann, sem l. flm. frv., gerði sér glögga grein fyrir, hve mikið strandhögg hann væri að gera á atvinnulíf og útflutningsverðmæti landsmanna með flutningi þess.

Hvað viðvíkur því, sem fiskimálan. drepur á í bréfi sínu, að nauðsynlegt sé að friða viss svæði í samráði við fiskifræðinga landsins, þá er það atriði sérstaklega aðkallandi og verður að taka upp til nákvæmrar athugunar. Hitt er annað mál, að engar líkur eru til, að einhverjar sýslun. eða bæjarstj. séu þess umkomnar að hafa vit á, hvaða svæði þurfi helzt að friða í þessu skyni. Ég hef bent á það, að við Íslendingar veiðum ekki nema 1/6 af þeim skarkola, sem veiddur er við landið. Þó að 5/6 hlutar af þessari veiði séu stundaðir af öðrum þjóðum, þá er okkur þessi fiskur, meðan á stríðinu stendur, miklu meira virði en nokkur önnur framleiðsluvara.

Enn fremur vil ég leyfa mér að geta þess hér að það hafa einmitt verið gerðar sérstakar ráðstafanir af sjútvn, þessarar d. til þess að fá því framgengt, að ungfiskurinn verði friðaður. Var það með frv., sem n. flutti snemma á þessu þingi og nú er orðið að 1., um eftirlit á veiði og útflutningi á ýmsum kolategundum. Það frv. miðar að því að koma á ströngu eftirliti með því, að þau lagaákvæði, sem þegar giltu, kæmu til framkvæmda, þannig að sett yrði sérstakt eftirlit bæði um veiði og útflutning á kola. Í öðru lagi, að sett yrðu sérstök ákvæði um stærð þess kola, sem veiða mætti í önnur veiðarfæri en dragnót, en engin lagaákvæði voru áður til um þetta efni. Ég ætla, að með samþ. þessa frv., sem ég hef nú nefnt, sé stigið það stærsta spor, sem Alþ. hafur hingað til gert, í því skyni að friða ungkolann hér við land. Það er kunnugt, að bæði dragnótabátar og bátar, sem stunda veiðar með botnvörpu, gera sér það að leik að fara á þau svæði, þar sem hægt er að ausa upp smákola, og þessi koli hefur verið fluttur ísaður til útlanda. Nú er búið að setja mjög ströng lagaákvæði um þetta, og ég hef fulla ástæðu til þess að vænta þar góðs árangurs, þar sem reyndustu embættismönnum landsins, fiskimatsmönnunum, hefur verið falið eftirlit með framkvæmd 1.

Ég hef orðið langorðari um þetta mál heldur en ég hafði ætlað mér. Stafar það að nokkru leyti af því ofurkappi, sem hv. flm. þessa máls hafa sýnt í því að vilja ekki gefa mér tækifæri til að birta umsögn fiskimálan., sem mér hefur einmitt borizt upp í hendurnar, eftir að ég var byrjaður að tala hér. Hv. flm. hafa heldur ekki gefið okkur hv. þm. Ak. kost á því að gefa út nál. sem minni hl. sjútvn., en það er nú annars venjan í flestum málum. En þarna er um svo stórt atvinnumál og fjárhagsmál að ræða og svo stóran þátt í okkar útflutningi, að ég hef talið skyldu mína að gefa allar þær upplýsingar, sem föng eru á. Ég get vel skilið kapp hv. þm. að koma þeim málum fram, sem þeir hafa flutt. Hins vegar verður að telja óforsvaranlegt ofurkapp að gera tilraun til þess að koma jafnstóru máli fram sem hér er um að ræða, að ófengnum upplýsingum, sem nauðsynlegar eru, til þess að hv. þm. geri sér fulla grein fyrir, hvað þeir eru að gera. Ég hef sýnt fram á það með ljósum rökum og stuðzt þar við álit fiskifræðings atvinnudeildar háskólans, að hér er ekki um að ræða neina þá friðunartilraun, sem getur haft áhrif á vöxt og viðgang kolastofnsins. Ég hef bent á það, að ekki er ætlazt til, að kolinn verði friðaður þann tíma, sem hann er að hrygna, heldur þegar sá tími er úti. Ég hef bent á, að nú er búið að leggja í hraðfrystihúsin 7½ millj. kr. og að þar vinna 1500 manns fyrir utan þá sjómenn, sem hafa atvinnu af að fiska í húsin. Alþ. var sammála þeirri rýmkun, sem gerð var til þess að við Íslendingar gætum orðið aðnjótandi útflutnings á okkar dýrasta fiski og til þess að vinna nýja markaði, svo að nokkru yrði bætt upp það tjón, sem hrörnun saltfiskmarkaðsins hefur valdið á síðari árum.

Þegar alls þess er gætt, sem ég hef sagt, hljóta að vera ákaflega knýjandi ástæður fyrir hendi, sem réttlæta það, að Alþ. fari að banna kolaveiði einmitt á þeim tíma árs, sem er þýðingarlaus fyrir vöxt og viðgang kolans. Á þessum tíma geta skipin varla stundað aðra veiði, fjöldi fólks yrði sviptur atvinnu sinni, útflutningsverðmæti tekin burt og allir þeir möguleikar eyðilagðir, sem við höfum aflað okkur með byggingu hraðfrystihúsanna. Að öllu óreyndu treysti ég því, að annað eins skaðræðisfrv. fari ekki gegnum þessa hv. d.