10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (3176)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Eins og komið hefur fram í umr., hef ég ekki getað orðið samferða sjútvn. í þessu máli að öllu. Eins og hv. frsm. minni hl., formaður sjútvn., minntist á, kom greinilega í ljós, að það lágu sérstakar ástæður til þess, að minni hl. gat ekki komið með nál. fyrr en nokkru seinna.

Við höfum lagt til, form. n., hv. þm. Ísaf., og ég, að frv. næði ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem það er í. En fyrir þennan drátt á nál. okkar taldi ég mér skylt að koma með brtt., sem er á þskj. 372, þar sem dregið er dálítið úr þeim vandræðum, sem mér finnst að felist í frv., þar sem algerlega er lagt bann við dragnótaveiði. Ég vildi, að leyft yrði, að bátar, sem eru 5 smálestir og minni, fengju að stunda þessar veiðar mánuðina sept. til nóv., sérstaklega þar sem óskir Akureyringa fara ekki fram á aðra breyt. en þessa. Þess er að gæta, að fyrir Alþ. liggja mótmæli, bæði frá fiskimönnum úr mínu kjördæmi og eins frá útgerðarmönnum í Ólafsfirði við Eyjafjörð. Mín afstaða til þessa máls í fyrra var sú, að ég vildi koma með breyt. á dragnótaveiðil., þannig að menn mættu stunda þessar veiðar sömu mánuðina og farið er hér fram á með hinni nýju breyt., og auk þess fór ég fram á, að tímatakmarkið yrði jafnað. Eins og menn muna, mátti byrja þessar bátaveiðar 15. maí hér sunnanlands, en ekki fyrr en 15. júní norðanlands. Það byggðist á vísindalegum athugunum, að hrygningartíminn muni vera eins norðanlands, þess vegna yrði tímatakmarkið að færast aftur. Alþ. sá, að þetta var sanngjarnt, að jafna þannig veiðitímann, og færði það hann því til 1. júní. Var veiðitíminn þannig færður aftur fyrir Sunnlendinga, en fram fyrir Norðlendinga, og þannig hélt ég, að þessi vandi væri leystur. Nú á að leiðrétta málið á nýjum grundvelli með því að banna þessar veiðar algerlega. Ég vil í þessu sambandi benda á eitt atriði, sem ekki er nógu skýrt fram tekið í nál. okkar, en það er sú hlið málsins, sem sérstaklega snertir smáútgerðarmenn, og skal ég leyfa mér að taka dæmi frá Akureyri.

Undanfarin ár hafa fátækir menn þar, sem ekki hafa aðstöðu til þess að fá lán til kaupa á stærri vélbátum, komið sér upp smátrillubátum, sem eru 3–5 smálestir að stærð. Sumir þessara manna hafa verið á opinberu framfæri Akureyrar, og hefur bæjarstj. þótt hagfellt fyrir bæinn að létta undir með þessum mönnum með því að styrkja þá til bátakaupa og spara sér þannig fé til framfæris. Það hefur verið þannig hjá okkur, að það hefur verið talsverður hópur slíkra fátæklinga, sem hafa getað komið sér upp smábátum ásamt veiðarfærum. Ég verð að segja, að það er hart, þar sem bæjarstj. Akureyrar hefur búið svo í haginn fyrir héraðið, að þurfa nú að kippa að sér hendinni í þessum efnum, vegna þess að Alþ. segir: Þessa starfsgrein leyfum við ekki. — Þessir menn eru búnir að kaupa talsvert dýrar eignir, bæði báta og veiðarfæri, sem þeim verður svo meinað að nota sér vegna þessara aðgerða Alþ. Ég vona því, að menn sjái að sér og samþ. brtt. mína.

Brtt. mín er miðlunartill., varatill., einkum með tilliti til þessara manna, sem hafa ráðizt í þessa atvinnugrein.

Að öðru leyti er ég ekki horfinn frá mínu máli og þeim takmörkunum, sem 1. ákveða. En ég sé ekki ástæðu til þess að samþ. þetta frv., þar sem fyrir liggur umsögn tveggja stofnana, atvinnudeildar háskólans og fiskimálan. Fiskifræðingurinn segir, að það komi sér að vísu vel að geta friðað fiskimiðin fyrir dragnót eitt ár, en það væri ekki neitt aðalatriði. Árni Friðriksson er ekki mjög hræddur um, að gengið yrði á stofninn á þessum tíma, þegar þess er gætt, að útlend fiskiskip geta ekki komið hingað á næstu árum. Það virðist ekki ástæða til þess að óttast, að fiskistofninum sé hætta búin af þessum sökum, því að það eru að mestu leyti smábátar, sem stunda þessa veiði.