10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson) :

Þegar málið var fyrst til 2. umr., var ég ekki viðstaddur og gat því ekki haft framsögu fyrir þann hluta n., sem mælir með samþ. frv. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál, enda þótt til þess gefist nokkurt tilefni. Ég vil þó aðeins endurtaka það, sem sagt er í nál. okkar, að sá hluti n. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Hv. þm. Ak. hefur lagt fram till. til breyt., sem hann nú hefur lýst hér. Sú till. hefur enn ekki legið fyrir n. sem slíkri, og get ég því ekki fyrir hönd n. sagt neitt sérstakt um hana. Þeir, sem mynda annan minni hl. n., þeir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Ak., hafa farið á stúfana eftir að n. klofnaði og aflað sér gagna um mál þetta. Þeir hafa fengið frá atvinnudeild háskólans (Árna Friðrikssyni) og fiskimálan. skilríki, sem prentuð eru sem fylgiskjöl með þeirra áliti. Ég verð að segja það, að það hefði nú verið eðlilegra að mínum dómi, að þessar álitsgerðir hefðu verið látnar liggja fyrir n., áður en hún tók afstöðu til málsins. Að vísu kom Árni Friðriksson á fund n. og ræddi nokkuð um þetta við hana, en hið skriflega álitsskjal, sem hér liggur fyrir, lá ekki fyrir n., meðan hún hafði málið til meðferðar sameiginlega. Álits fiskimálan. var ekki leitað, hvorki bréflega né munnlega, sem þó hefði verið eðlilegra, úr því að einhverjir menn úr n. sáu ástæðu til þess að fá þessa álitsgerð skriflega. Það hefði því verið eðlilegra að ganga fram í því, að álitsgerðin væri fengin áður en n. tók afstöðu til málsins. Þessi málsmeðferð er þó ekki aðalatriði. En ég hef verið að athuga þessi álitsskjöl, og virðist mér sem þessum minni hl., hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Ak., verði nokkuð minna lið að þeim en þeir munu hafa gert sér vonir um. Ég leyfi mér að vekja athygli á því, að í áliti fiskimálan. stendur, að n. hafi ákveðið að leggja á móti samþ. þessa frv. „að svo stöddu“. Mótmælin eru ekki ákveðnari en þetta. Ég fyrir mitt leyti skil þetta svo, að fiskimálan. sé hikandi í málinu og hún á þessu stigi málsins hafi ekki gert það upp við sig, hverja afstöðu hún vill til þess taka. Að minnsta kosti er þetta engan veginn fullkominn stuðningur við 2. minni hl. sjútvn. og málstað hans. Árni Friðriksson segir í sinni álitsgerð, sem hér er prentuð með áliti 2. minni hl., með leyfi hæstv. forseta: „Aukið bann við dragnótaveiði, þ. e. styttri veiðitími, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi því, á meðan svona stendur á, koma að hlutfallslega miklum notum, og væri það ótvírætt til bóta fyrir ekki sízt skarkolastofninn að takmarka dragnótaveiðar á meðan á stríðinu stendur.“ Og enn fremur vekur fiskifræðingurinn athygli á því, að ef við gerum ráðstafanir til þess að takmarka veiðina meðan á stríðinu stendur, stæðum við seinna betur að vígi á alþjóðavettvangi með að friða nytjafiska á vissum svæðum hér við land. Hér mun hann eiga við friðun Faxaflóa, sem hann og fleiri hafa mikinn áhuga fyrir að komizt gæti í kring, en það getum við ekki framkvæmt af eigin rammleik.

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að mér sýnist þessi umsögn ekki vera málstað 2. minni hl. sjútvn. mjög til stuðnings. Ég hygg, að hv. d. geri rétt í því að samþ. þetta frv., sem styður að því, að ekki verði haldið áfram eins og nú þeirri lélegu búmennsku að uppræta fiskistofninn í fjörðum landsins, sem sjávarútvegurinn sýpur seyðið af og er þegar farið að segja til sín á óþægilegan hátt.