10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Hv. þm. Ak. hefur bent á staðbundin dæmi þess, að menn hafi lagt í mikinn kostnað til þess að útvega sér dragnótaveiðarfæri í því trausti, að þeir fengju að nota þau. Þetta er ekkert sérstakt fyrir Akureyri, heldur gildir þetta fyrir Útgerðarmenn umhverfis allt landið, sem lagt hafa í mikinn kostnað með dragnótaveiði í því trausti, að Alþ. meinti eitthvað með þeim breyt., sem það gerði á dragnótaveiðinni með því að uppörva menn til þess að leggja nokkuð á áttundu millj. kr. í hraðfrystihús við flestar veiðistöðvar kringum landið. Enn fremur með því að gera mikið til þess að reyna að auka markaði fyrir hraðfrystan fisk. Allur þessi mikli kostnaður mundi verða tiltölulega ónýtur, ef frv. þetta næði fram að ganga.

Eins og kunnugt er, þá eru haustmánuðirnir sept.-okt. einhverjir beztu fiskimánuðir ársins fyrir kolann. Kolinn er þá farinn að fiskast á bátana, og veiðin er þá einkum arðsöm.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á það að loka miðunum fyrir kolaveiðum í dragnót, einmitt á þeim tíma, sem veiðin er mest stunduð með nokkrum árangri. Frv. er þess vegna álíka gáfulega samið gagnvart þeim, sem vilja stunda dragnótaveiðar, eins og að þm. hefðu komið fram með till. um það að loka miðunum fyrir herpinótaveiðum á síld yfir mesta síldveiðitímann.

Hv. þm. N.-Þ. þótti nokkuð óhagfellt, að upplýsingar skyldu liggja fyrir í þessu máli, eftir að málið var afgr. frá n. Eins og hv. þm. veit, gekk ég eftir því að fá frv. afgr., og sannast að segja datt mér ekki í hug, að það væri neinn sá fáráðlingur í sjútvn., sem legði til, að þetta frv. gengi fram óbreytt. Eftir að ég sá, að þeir voru þó til, gerði ég ráðstafanir, sem urðu til þess, að atvinnudeild háskólans og fiskimálan. sendu þær upplýsingar til n., sem nú liggja fyrir í nál. annars minni hl. Annars, ef það er ástæða til þess fyrir hv. þm. N,-Þ. að kvarta yfir því, að þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir, þegar málið var afgr., vegna þess að það hafi, að einhverju leyti breytt hans skoðun, þá tel ég það mjög leitt., að þessar upplýsingar skyldu ekki vera fengnar áður. Eigi að síður eru þær komnar hér til þingsins nógu snemma til þess, að þær gætu legið fyrir við 2. umr., og er þá vorkunnarlaust hverjum þeim manni, sem hefur fengið þær upplýsingar, sem að einhverju leyti gætu breytt hans áliti, að gera það.

Hv. þm. N.-Þ. benti á það, að álit Árna Friðrikssonar fiskifræðings segði, að bann við dragnótaveiði mundi verða til mikilla bóta vegna friðunar kolans. En á öðrum stað í sama erindi upplýsir þessi fiskifræðingur, að við Íslendingar veiðum ekki nema 1/6 hluta þess kola, sem veiddur er hér við land, og ekki sé nema nokkur hluti þess sjötta hluta veiddur í dragnót, þar sem útlendingar séu hættir að stunda veiðar hér við land og það sennilega stendur meðan stríðið varir, þá má af því sjá, hve þýðingarlítill liður í friðun kolans þessi friðun yrði, ef það er ekki nema eitthvert brot af 1/6 hluta þess skarkola, sem veiddur er hér við land, sem Íslendingar veiða í dragnót. Ég ætla, að hv. þm. N.-Þ. hafi skotizt yfir þetta atriði í umsögn fiskifræðingsins, þegar hann vildi leggja hana þannig út, að hún styddi þetta frv. að einu eða neinu leyti. Þá sagði hv. þm. einnig, að það væri léleg búmennska að uppræta fiskistofninn. Það mundi vera talin léleg búmennska að láta vera að slá grasið á túnunum um sláttinn. Alveg eins mundi það þykja léleg búmennska að banna herpinótaveiði um herpinótaveiðitímann eða banna þorskveiðar á vertíð. En það er einmitt þetta, sem hv. þm. eru að gera með þessu frv., þeir vilja banna kolaveiði hér við land um aðalveiðitímann. Það er að vísu sagt svo, að hér þýði lítið að ræða málin með rökum, því að þm. myndi sér skoðanir um málin í einrúmi. En ég fyrir mitt leyti treysti því enn, þangað til annað reynist, að hv. alþm, átti sig á því, að það yrði með samþ. frv. stórskaðaður álitlegur atvinnuvegur í landinu á þann hátt að banna kolaveiðar þann tíma, sem arðvænlegast er að veiða hann. Á þessum tíma, sem um getur, er skaðlaust að veiða kolann, vegna þess að hans hrygningartími er þá löngu liðinn.