10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson) :

Ég skal verða mjög fáorður, enda gefur ræða hv. þm. Ísaf. ekki tilefni til andmæla, því að í henni voru ekki rök fram yfir það, sem áður er fram komið. Ég vil aðeins segja það, svo að ég noti hans eigið orðalag, að ég undrast það, að til skuli vera í sjútvn. þessarar deildar svo fáráðir menn, að þeim þyki vera hliðstætt síldveiði í herpinót og dragnótaveiði innan landhelgi. Ég skal svo ekki um það fara fleiri orðum. Það er eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að álitsgerðir þær, sem minni hl. hefur fengið máli sínu til stuðnings, eru málstað hans næsta lítill stuðningur.

Ég vil einnig bæta því við, að áður en annað liggur fyrir, þá vil ég mjög draga það í efa, að það sé fullkomlega rétt, að svona mikill hluti af eigendum frystihúsanna hér við land sé andvígur frv., eins og fram virðist koma í fylgiskjali 2. minni hl. Mér er kunnugt um nokkur dæmi þess, að eigendur slíkra frystihúsa eru sumir því meðmæltir, að frv. þetta nái fram að ganga.