10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það kann nú að vera, af því að hv. þm. N.-Þ. er alinn upp í sveit, að honum þyki dálítið einkennilegt, að það séu dregin hliðstæð dæmi milli dragnótaveiði í landhelgi og síldveiða með herpinót. En þær hliðstæður eru eingöngu þær, að ég sagði, að það væri álíka skynsamlegt að banna dragnótaveiði í landhelgi á þessum tíma árs eins og ef farið yrði að banna síldveiðar með herpinót um hásíldveiðitímann. Með þessu sagði ég ekki annað en það, að þetta er sá tími, sem kolaveiðar gefa beztan árangur, á sama hátt og herpinótin gefur beztan árangur í mánuðunum ágúst og september. Með öðrum orðum, að ég sagði ekkert annað en það, að ég áliti, að það ætti að veiða, hvort heldur væri fisk eða síld, þann tíma, sem það gefur beztan árangur, sérstaklega Þegar það fer saman, að það eru engir möguleikar á því að viðkoma fiskstofnsins sé í neinni hættu eða honum betur borgið, ef bannað væri að veiða kola á haustin, af því að hrygningartími kolans er þá löngu liðinn. Ég ítreka það enn. Það má vera, að hv. þm. N.-Þ. dragi eitthvað í efa álit fiskimálan., en það var sú eina stofnun, sem við í sjútvn., sem vildum fá um þetta nánari upplýsingar, gátum snúið okkur til til þess að fá upplýsingar um þetta mál. Að vísu hefur form. fiskimálan. verið veikur um tíma, en sá maður, sem annast skrifstofustjórastarfið nú, sneri sér til frystihúsaeigenda úti um allt land til þess að fá þær upplýsingar, sem í bréfi fiskimálan. greinir. Þær upplýsingar voru fyrst og fremst álit n. á þessu frv., í öðru lagi, hve mikið fé væri búið að leggja í þessi fyrirtæki, og í þriðja lagi, hve margt fólk starfaði við sjálf frystihúsin. Þetta álit liggur fyrir í nál. á þskj. 413, fskj. 2, og ég skil ekki, hvaða ástæðu hv. þm. N.-Þ. hefur til að rengja upplýsingar fiskimálan., sem hún kallar nær einróma álit frystihúsaeigenda gegn frv. Þetta álit fiskimálan., sem gefið er í embættisnafni, álít ég alveg óhlutdrægt og tæmandi, enda mun hv. þm. ekki hafa kornið til hugar, að beðið væri um annað en óhlutdrægar upplýsingar í málinu. Bréf það, sem á sínum tíma var skrifað fiskimálan., liggur hér fyrir, og getur hv. þm. fengið að heyra það, ef hann óskar eftir því, — óski hann þess hins vegar ekki, skoða ég það sem hann fallist á, að ég fari hér með rétt mál.

Ég hef áður bent á, að hér séu starfandi 37 hraðfrystihús, sem kostað hafi 7½ millj. króna. Það var lagt út í það að byggja þessi hraðfrystihús, eftir að Alþ. breytti l. um dragnótaveiðar og fyrir sérstaka hvatningu frá Alþingi. Við þessi frystihús vinna 1500 manns á landi fyrir utan alla sjómenn, sem hafa atvinnu af að fiska fyrir þau. Með samþ. þessa frv. færi Alþ. mjög undarlega að ráði sínu, þar sem það gabbar fyrst útgerðarmenn til þess að kaupa þessi veiðarfæri, verður þess valdandi, að fjöldi manna leggur stórfé í hraðfrystihús, en bannar síðan veiðarnar, þegar þær eru mest arðbærar og skaða þó ekki kolastofninn. Samþ. frv. væri því hrein fásinna.