16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (3188)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil ekki láta frv. þetta fara héðan án þess að lýsa afstöðu minni. Svo er ráð fyrir gert í frv. að banna dragnótaveiðar í landhelgi frá 1. sept. til 31. des. ár hvert og frá 1. jan. til 1. júní. Nú um skeið hefur verið heimilað að veiða með dragnót í landhelgi. Það var mjög deilt um þetta mál á sínum tíma, en það reið baggamuninn, að verið var að reisa frystihús víðs vegar, sem m. a. mundu byggja afkomu sína á flatfiskveiðum. Og vegna örðugleika um saltfiskmarkað var auðséð, að fiskimenn urðu að treysta á þetta. Enda fór starfsemi frystihúsanna vaxandi og útflutningurinn óx til mikils hagræðis fyrir þá, sem sjávarútveg stunduðu. Nú er enginn vafi á því, að þegar stríðinu lýkur, endurtaka sig á ný þeir erfiðleikar, sem áður voru um markað. Það eru engar horfur á öðru en að aftur verði takmörkuð sala á ísfiski og tollar innleiddir. Samkeppnin um saltfiskmarkaðinn hefst á nýjan leik. Þess vegna er ljóst, að það er hin mesta nauðsyn fyrir landsmenn að nota tækifærið til að efla sem mest hraðfrystihúsin og reyna að koma því svo fyrir, að Englendingar venjist nú á að nota þennan fisk. Með því má auka sölumöguleikana eftir stríðið. Á því er enginn vafi, að ef aftur er lokað fyrir dragnótaveiðarnar, mundi draga mjög úr framleiðslu á flatfiski, en einmitt hann skiptir hér mestu máli. Þetta mundi leiða til mikils tjóns, fyrir frystihúsin, sem Alþ. hefur styrkt og ýtt undir, að sá atvinnuvegur gæti eflzt. Ég held líka, að jafnvel þótt játað væri, að þetta mál væri enn á tilraunastigi og ekki úr því skorið, hvort yfirleitt væri skynsamlegt að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi, sé sá tími, sem liðinn er, of stuttur til að fella neinn dóm um reynsluna í þessu máli. Jafnvel þeir, sem ekki vilja leyfa dragnótaveiðar, ættu því að bíða átekta.

Ég vil minnast á eitt atriði, sem snertir sérstaklega þá menn, sem ég hef umboð fyrir. Sá boðskapur hefur verið gefinn út af brezku herstjórninni, að það væri hættulegt að veiða fyrir Austurlandi. Upphaflega var það svo, að það væri hættulegt að veiða lengra úti en 4 mílur frá landi. Eftir mikla vafninga fram og aftur fékkst því framgengt, að heimilað er að veiða 6 mílur frá landi. En allir vita, að nær öll fiskimið fyrir báta yfir 8 smál. liggja lengra úti en 6 mílur. Það má því segja, að þessum bátum sé gert ókleift að stunda línuveiðar fyrir Austurlandi. Að vísu hefur þetta ekki komið mikið að sök á vetrarvertíðinni, því að þá fara þessir bátar suður á Hornafjörð og víðar. En í maímán. allareiðu verður þetta tilfinnanlegt, því að þá stunda þeir veiðar fyrir Austfjörðum. Hvað eiga þeir nú að gera? Það, sem þeir ætlast fyrir, er í fyrsta lagi að fara á síldveiðar, þegar þar að kemur, og í öðru lagi hyggjast hinir smærri bátarnir, og hinir einnig, fyrir og eftir síldveiðar, að stunda dragnótaveiðar. Ef þetta frv. er samþ., yrði þessum bátum ókleift að stunda dragnótaveiðar frá 1. jan. til 1. júní og frá 1. sept. til 31. des. Ég tel því bæði af almennum ástæðum og af þessum sérstöku ástæðum, að Alþ. eigi alls ekki að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir.